Hetjan sem hataði Hitler

Skömmu eftir miðnætti þann 21. júlí 1944 var Claus von Stauffenberg, undirofursti í þýska hernum (Wehrmacht) leiddur af vopnuðum hermönnum nasista út í hallargarð Stríðsskrifstofunnar í Berlín. Andartaki áður en Stauffenberg var skotinn til bana fyrir landráð, er sagt að hann hafi hrópað: "Es lebe unser geheimes Deutschland" (Lengi lifi okkar leynda Þýskaland). Þessi setning og þá sérstaklega orðið "geheimes" er uppspretta bókar þeirra Michael Baigent og Richard Leigh um hugmyndaheim eins frægasta andófsmanns Þriðja ríkisins; Secret Germany: Stauffenberg and the Mystical Crusade Against Hitler.

stauffenbergStauffenberg var, eins og frægt er orðið, leiðtogi nokkurra háttsettra, þýskra hermanna sem hugðust ráða Adolf Hitler af dögum í Úlfagreninu, höfuðstöðvum Hitlers í Póllandi. (Hann sést hér lengst til vinstri á myndinni fyrir utan Úlfagrenið þann 15. júlí. Hann hafði þá meðferðis sprengju en ákvað að sprengja hana ekki því Himmler hafði afboðað sig á síðustu stundu. Nauðsynlegt taldist að myrða Himmler líka svo nasistar næðu ekki að endurskipuleggja sig.)

Af þeim rúmlega 40 morðtilraunum sem Hitler lifði af í valdatíð sinni var það sprengjutilræði Stauffenbergs að morgni 20. júlí 1944, sem komst næst því að granda nasistaleiðtoganum og binda þar með enda á seinni heimsstyrjöldina. Hans er enn í dag minnst fyrir hugrekki sitt og réttsýni í Þýskalandi.

Michael Baigent og Richard Leigh eru líklega frægastir fyrir bókina The Holy blood and the Holy Grail sem Dan Brown á að hafa farið ófrjálsri hendi um í Da Vinci lyklinum. Þrátt fyrir að maður ímyndi sér að þeir félagar séu ekki mikið lesnir við sagnfræðiskor Háskóla Íslands er nokkuð ljóst að töluverðar rannsóknir liggja að baki bókinni og þá ekki síst hvað varðar greiningu á þýsku þjóðarsálinni (allt frá dögum Friðriks I Prússakeisara) og þeim hugmyndafræðilega jarðvegi sem ungir menn á borð við Stauffenberg spruttu úr á fyrri hluta 20. aldar.

Hins vegar verður að segjast að leyndardómurinn sjálfur sem lesandanum er lofað í bókartitli ("Mystical Crusade") reynist að lokum ekki eins æðisgenginn og vonir standa til. En bókin er engu að síður upplýsandi um þá tvíhyggju sem finna má í þýsku þjóðinni og birtist meðal annars í einstakri rökhyggju og skipulagshæfni en um leið í andlegri óreiðu og dulhyggju. Hún veitir þar að auki áhugaverða greiningu á helstu lista- og fræðimönnum Þjóðverja á 18., 19. og 20. öldinni með tilliti til þessarar tvíhyggju.

Bókin er ágætlega skrifuð á köflum og þeim Baigent og Leigh tekst nokkuð vel að varpa ljósi á persónu Stauffenbergs. Löstur hennar er þó byggingin sjálf sem er ekki til þess fallin að hinn almenni lesandi haldi út til enda og má ímynda sér að sökin liggi í samstarfi þeirra Baigent og Leigh – annað hvort hafi þeir ekki komið sér saman um byggingu bókarinnar eða of lítill tími gefist til að tvinna kaflana saman svo úr yrði heildstæð frásögn.

Saga undirofurstans Claus von Stauffenbergs er merkileg, ekki síst fyrir þær sakir að í persónu Stauffenbergs er að finna þann hluta þýsku þjóðarinnar sem sá í gegnum glæpastjórn Hitlers og fyrirleit allt það sem hún stóð fyrir. Það skal hins vegar látið liggja milli hluta hverju þessi bók bætir við þá sögu.


Hinn raunverulegi forseti Bandaríkjanna

Bush & CheneyÉg veit ekki hvað ykkur finnst en mér sýnist sem allur vindur sé farinn úr gagnrýninni á Bush.

Meira að segja evrópsku blöðin nenna ekki að skrifa um hann og þá er mikið sagt.

Hins vegar finnur maður fyrir því að óánægjan með varaforsetann Dick Cheney er að aukast til muna.

Þessi grein pistlahöfundar Washington Post er nokkuð góð til að komast inn í málið en Post virðist öðrum blöðum fremur vera að beina athygli sinni að varaforsetanum og ótrúlega óforskömmuðum stjórnarháttum hans.


Skuggahliðar hagfræðinnar

AND-amerískar bókmenntir hafa notið mikilla vinsælda á undanförnum árum og svo margar eru útgáfurnar á ári hverju, að byrjað er að tala um sérstakt "genre" eða svið bókmennta. Ljóst er að stefna Bush-stjórnarinnar í utanríkismálum hefur ýtt undir þann and-ameríska áróður sem hvarvetna má heyra í umræðunni en þvert á það sem margir halda er Bush-stjórnin ekki upphaf alls "ills".

Utanríkisstefna Bandaríkjanna hefur í stórum dráttum ekki breyst mikið á síðustu 200 árum en það hefur heimurinn aftur á móti gert og með auknum viðskiptum landa í milli og tækniframförum, eru átök sem áður afmörkuðust við heimshluta byrjuð að hafa víðtæk áhrif um heim allan.

John PerkinsBókin Confessions of an Economic Hit Man er ólík öðrum and-amerískum bókum að því leyti að í stað "fræðilegrar" úttektar á hinu "illa" stórveldi er hér um að ræða endurminningar viðskiptafræðingsins Johns Perkins (sjá mynd) sem starfaði fyrir bandaríska ráðgjafafyrirtækið Chas T. Main Inc. (MAIN) sem á sjöunda og áttunda áratugnum annaðist rannsóknir á hagkerfum ýmissa þróunarlanda fyrir fjármálastofnanir á borð við Alþjóðabankann.

Perkins var sendur út af örkinni til landa á borð við Indónesíu, Ekvador, Íran, Kúvæt og Panama og í stað þess að meta raunverulegar þarfir ríkjanna var honum gert að ofmeta þessar sömu þarfir og kostnað vegna tilheyrandi uppbyggingar og þróunaraðstoðar.

Að sögn Perkins var tilgangurinn tvískiptur. Annars vegar var hann sá að fá ráðamenn þessara ríkja til að samþykkja himinhá lán alþjóðabanka sem voru bundin þeim skilmálum að uppbyggingunni yrði stýrt af bandarískum verkfræðifyrirtækjum á borð við Bechtel, Enron og Halliburton. Hins vegar var hugsunin sú að ýta þessum löndum út í slíkt skuldafen að þegar kæmi að skuldadögum og ljóst væri að ríkin gætu ekki reitt af hendi borgun, væru þau þvinguð til að opna hagkerfi sitt fyrir bandarískum iðnaði og/eða leggja til stuðning sinn við stefnu Bandaríkjanna á alþjóðasviðinu – svo sem í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

James MonroePerkins dregur upp afskaplega mannfjandsamlega mynd af stefnu bandarískra stjórnvalda sem hann kallar "corporatocrazy", sem útleggst e.t.v. sem fyrirtækjaræði. Hún helgast af því að í gegnum árin (og við þessu vöruðu þeir menn sem smíðuðu stjórnarskrá Bandaríkjanna) hefur stórfyrirtækjunum tekist að má út þau mörk sem í upphafi voru sett á milli alríkisins og þeirra sjálfstæðu fjármálastofnana sem innan ríkisins starfa.

Þannig hafa hagsmunir bandarískra stórfyrirtækja í fjarlægum löndum verið verndaðir af bandarískum stjórnvöldum í krafti pólitískra áhrifa og hermáttar. Þessi stefna er nú á tímum mjög skýr, að mati Perkins og áhrifa hennar má sjá í Írak, Sádi-Arabíu og mörgum löndum Mið-Ameríku; en þar og í Suður-Ameríku hafa Bandaríkin – allt frá stjórnartíð James Monroe (sjá mynd) 1817-1825 – áskilið sér rétt til að ráðast inn í hvert það ríki sem ekki styður bandaríska stefnu í álfunni.


Mafíósar í Evróvisjón

Eurovision Verka Serduchka - Úkraínska lagið"Austantjaldsmakk" og "mafíósa-skapur Balkanþjóðanna" var á meðal þess sem féll af vörum margra vonsvikinna Íslendinga þegar ljóst varð að níu af þeim tíu lögum sem komust áfram í aðalkeppnina sem fram fer í kvöld voru flutt af austur-evrópskum þjóðum. Sjálfur lýsti Eiríkur því yfir í Sjónvarpinu að lokinni undankeppninni og í Morgunblaðinu í gær, að "austanblokkin" ætti orðið keppnina og að við ættum ekki séns í svona mafíu. En broslegast af öllu var nú þegar Eiríkur hvatti landa sína til að beita sömu mafíubrögðum í kosningunni í kvöld – eins og það hafi ekki verið tilfellið hingað til.

Svipuð orð voru látin falla um Austur-Evrópu í fyrra þegar Silvía Nótt komst ekki áfram en þegar betur var rýnt í úrslitin var ljóst að hlutur Vestur-Evrópuþjóðanna var síst minni, svo ekki sé minnst á að Finnar, sem eru bæði Vestur-Evrópu- og Norðurlandaþjóð, fóru með sigur af hólmi í Aþenu!

En eitt sagði Eiríkur í viðtali við Morgunblaðið í gær sem vakti sérstaka athygli mína og það var að hann hefði alltaf verið á móti sms-kosningu. Með því á hann auðvitað við að íbúar þeirra Evrópuþjóða sem taka þátt í keppninni láti í raun ekki gæði lags eða flutnings ráða því hverjum þeir greiða atkvæði sín – þjóðirnar séu í raun vanhæfar til að kjósa eftir bestu samvisku. Hvort þetta á við rök að styðjast veit ég ekki en verður ekki að játast að með þessum ummælum gefi hann líka gott færi á sjálfum sér og fyrirkomulagi undankeppninnar hér heima, því íslenska þjóðin var í raun bullandi vanhæf til að kjósa besta lagið í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Meirihluti þeirra sem ég talaði við í aðdraganda keppninnar hugðist kjósa "Ég les í lófa þínum" (Valentine Lost) út af Eika Hauks – hann væri svo góður kall, "flottur rokkari með eldrauðan makka". Lagið sjálft virtist hins vegar ekki skipta miklu máli, enda harla ómerkilegt þegar öllu er á botninn hvolft.

Það er svo sem skiljanlegt að þjóðin og Eiki Hauks séu tapsár eftir fimmtudaginn en er ekki kominn tími til, í ljósi reynslunnar af Evróvisjón, að við lærum að tapa?

Af listum 12.05

Við þetta má svo bæta að í Morgunblaðinu á morgun verður birt áhugaverð tafla yfir úrslit keppninnar ef atkvæði Austantjaldsþjóðanna eru ekki talin með.


Hr. Thompson fer til Washington

Fred ThompsonFred Thompson er einn af þessum leikurum sem þú veist að þú hefur séð en ert samt ekki með kvikmyndina sjálfa á hreinu. Hann leikur alla vega alltaf vonda kalla, ... eða lögreglustjóra. Í það minnsta leikur hann alltaf sömu persónuna sem er fúllynd, föst fyrir en hefur svo yfirleitt rangt fyrir sér í lokin. En Fred Thompson er ekki bara leikari heldur er hann einnig fyrrum öldungadeildarþingmaður repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum og það sem margir pólitískir stuðningsmenn hans vonast til, næsti forseti Bandaríkjanna.

Thompson hefur viðurkennt að hann sé að hugsa um að sækjast eftir útnefningu flokksins en meira vill hann ekki gefa upp enda á enn eftir að koma í ljós hvort hann nýtur nægilegs fylgis á landsvísu og sjálfur fylgist hann væntanlega vandlega með framgangi og frammistöðu flokksfélaga síns og forsetaframbjóðandans, Johns McCaine sem flestir telja sigurstranglegasta kandídatinn. Ferill Thompsons er áhugaverður. Hann fæddist í Alabama árið 1942 og útskrifaðist með lögfræðipróf árið 1967. Starfaði sem aðstoðar-ríkissaksóknari á árunum 1969 – 1972 og stjórnaði kosningabaráttu Howards Baker til endursetu í öldungadeildinni árið 1972. Hann var lögfræðilegur ráðgjafi Bakers í rannsóknarnefnd öldungadeildarinnar í Watergatehneykslinu og er sagður eiga heiðurinn af eftirgrennslan þingmannsins á því "hvað það var sem forsetinn vissi og hvenær hann vissi það" en margir telja að út frá lögfræðilegu sjónarmiðið hafi þessar spurningar ráðið úrslitum um afsögn Richards Nixon.

Árið 1977 tekur Thompson að sér að sækja skaðabótamál fyrir hönd Marie Ragghianti, fyrrum skilorðsnefndarformanns í Tennessee-ríki, sem var bolað úr starfi eftir að hafa neitað að veita þeim föngum skilorð sem síðar komst upp að höfðu mútað aðstoðarmönnum þáverandi ríkisstjóra. Marie sem var á þessum tíma einstæð móðir, var hundelt af pólitískum andstæðingum sínum eftir að hún ljóstraði upp um málið en ríkisstjórinn neyddist að lokum til að segja af sér sem og nokkrir aðstoðarmanna hans sem einnig voru lögsóttir. Mál þetta vakti nokkra athygli í Bandaríkjunum og þegar Roger Donaldson leiksstjóri, hugðist gera kvikmynd um hneykslið tók hann ekki annað í mál en að Thompson léki sjálfan sig í myndinni. Marie var hins vegar leikin af Sissy Spacek og Morgan Freeman og Jeff Daniels voru í aukahlutverkum Með Marie: A True Story hófst kvikmyndaferill Thompsons og síðan hefur hann leikið í á þriðja tug kvikmynda auk þess sem hann hefur verið í aukahlutverki í vinsælum sjónvarpsþáttum á borð við Law & Order og fleirum.

Það er sagt um Ronald Reagan að leikhæfileikar hans hafi öðru fremur komið honum að gagni þegar hann vildi ná til bandarísku þjóðarinnar. En það var einnig sagt um kvikmyndaferil Ronalds Reagan að hann hefði alltaf leikið sjálfan sig og þar af leiðandi verið frekar dapur leikari. Þetta er nokkuð áhugavert ef litið er til leikferils Thompsons (og annars leikara sem nú stýrir áttunda stærsta hagkerfi heims, vestur í Kaliforníu) og segir okkur það að ef leikari hyggst sækjast eftir valdastöðu í bandarískum stjórnmálum, er það líklega skárra að vera lélegur leikari en góður.

Af listum 09.05 


Það er eitthvað í vatninu í Kanada

Rufus WainwrightNýja tónlistarhetjan mín kallast Rufus Wainwright. Fæddur árið 1973 í New York-fylki en ólst upp í Montreal í Kanada og hlaut sína tónlistarmenntun þar.

Tónlistarpressan hefur af einhverjum ástæðum lítið verið að skipta sér af Rufusi og vilja einhverjir meina að það sé vegna samkynhneigðar hans, (sú gamla tugga!). Raunverulega ástæðan er að sjálfsögðu sú að meirihluti þeirra sem skrifar um tónlist hefur afskaplega lítið vit á þessari merku list.

Wainwright sendi á dögunum frá sér plötuna Release the Stars sem ég mæli eindregið með. Sérstaklega bendi ég áhugasömum á lagið "Going to a Town".

Annars er á plötunni að finna áhrif frá Billy Joel, Kurt Weil, Philip Glass, Bernstein-bræðrum og gott ef það örlar ekki svolítið á Dvorcak í einu eða tveimur lögum.

 


Hugsað stórt

Vek athygli á aðsendri grein Atla Heimis Sveinssonar tónskálds  á bls. 32 í Morgunblaðinu í dag.

Eins og talað úr mínum munni.

 


Reykjavík! Ó, Reykjavík

Ég sé satt að segja ekki mikið eftir þeim húsum sem brunnu í gær. Hornhúsið var nú skömminni skárra en það sem hýsti Pravda en hvorugt þeirra var reisulegt.

Villi Vill er að fara á kostum í þessu máli og er orðinn að okkar Guiliani. Ég held hins vegar að hann hafi hlaupið á sig þegar hann lýsti því yfir að hann vildi reisa húsin aftur í sömu eða upprunalegri mynd. Við ættum að nýta þetta tækifæri og reisa húsaröð sem hæfði alvöru miðbæ og best væri nú að hugsa þetta í samhengi við fyrirhugaðar breytingar í miðbænum með tilkomu tónlistarhúss.

En það er nú varla nokkur hætta á að það gerist. Við Íslendingar gerum yfirleitt sömu mistökin tvisvar ef ekki oftar.


Það er ekkert til sem heitir tilviljun

Mannkyninu er umhugað um reglu. Án hennar gengi það af göflunum. Grikkir til forna voru mjög meðvitaðir um þessa tilhneigingu og leituðu því logandi ljósi að einhvers konar alheimsreglu eða formúlu sem virkaði jafnt í náttúrunni og í hinni andlegu tilvist manneskjunnar. Á einhvern hátt áttu vísindin að útskýra tilganginn á sama hátt og trúarbrögðin gera fyrir þorra mannkyns í dag.

Pýþagóras gekk manna lengst í þessu í fornöld og reyndi með afli að sníða veröldina að kenningum sínum um stærðfræðina. Sagan segir að hann hafi með áhrifum sínum orðið nemanda sínum að bana sem ekki gekkst undir kenningar hans.

Tumbler_SnappeÉg rakst á þessa mynd á netinu sem sýnir ef til vill innsta kjarna tilveru okkar. Þetta er atómsprengja einhverjum millisekúndum eftir að hún hefur verið sprengd og yfirborðshiti sprengingarinnar er rúmar 20.000 gráður á celsíus.

Sprotarnir sem ganga niður úr sprengingunni kallast Rope Trick Effect á ensku en það sem heillar mig er lögunin sem sprengikúlan myndar. Ekki mikla reglu eða samhverfu að finna í þessari mynd. Þó gæti verið að hlutfallið milli ummáls og þvermáls kúlunnar sé jafnt og pí og þá yrði Pýþagóras glaður - en ég veit það ekki.

En minn punktur er þessi: Minnir þessi kúla ekki nokkuð á höfuðkúpu?

Tilviljun? Regla? Eða guð að leira?


Ekki fyrir viðkvæma

Hún mun aldrei renna mér úr minni nályktin sem ég fann við "Ground Zero" rúmum tveimur mánuðum eftir að World Trade Center turnarnir hrundu til grunna.

Sjálfur geri ég mér ekki grein fyrir muninum á lyktinni sem berst af rotnandi líki og því sem hefur verið brennt en mig grunar að ég hafi fundið þefinn af hvoru tveggja.

Af hverju er ég að minnast þessa? Jú, vegna þess að ég rakst á forvitnilega grein á Slate.com þar sem það er útskýrt hvers vegna hold okkar mannanna lyktar öðruvísi þegar það brennur en til að mynda nautasteik eða kótilettur.

Frekar ógeðfellt .... en áhugavert engu að síður.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband