Fljótandi eyjan

„Gluggar herbergjanna á efri hæðinni snúa út á vatnið sem glæða herbergin bæði náttúrulegu ljósi og ferskum andblæ en viljirðu spara nokkra dali er einnig hægt að panta fábrotin herbergi á neðri hæðinni. Gistiheimilið býður upp á einhverja fallegustu verönd borgarinnar og þar er draumi líkast að sitja með drykk í hönd og fylgjast með undurfögru sólarlaginu speglast á vatninu.“

Svo hljómar lýsing Lonely Planet á gistiheimilinu Fljótandi eyjan (Floating Island) sem er staðsett við Boeng Kak-vatnið í Phnom Penh, höfuðborg Kambódíu. Við hjónin stóðumst að sjálfsögðu ekki þessa lýsingu þegar við undirbjuggum ferðina til höfuðborgarinnar og hugsuðum til þess með tilhlökkun að geta upplifað austurlenskt sólarlag með svalandi drykk í hönd. Ég held ég fari ekki ofan í það hversu ólík lífsreynsla okkar af þessu gistiheimili reyndist að lokum en segja má að fleira hafi verið „fábrotið“ en herbergin á neðri hæðinni.

Þetta er rifjað upp í ljósi frétta sem bárust utan úr heimi á dögunum þess efnis að Thomas Kohnstamm, 32 ára, frá Seattle í Bandaríkjunum, hefði skáldað á annan tug bókarkafla fyrir Lonely Planet-bókaröðina. Kohnstamm skrifaði kafla um Brasilíu, Venesúela og Chile án þess þó að hafa kynnt sér löndin sérstaklega og þegar það kom að því að skrifa inngang að ferðabók um Kólumbíu ráðfærði hann sig við kærustu sína sem var í starfsnámi hjá kólumbíska konsúlnum í San Francisco.

Sama hvað fólki finnst um þessi svik Kohnstamms er ekki annað hægt en að dást að óskammfeilninni. Nú þegar hafa tugir þúsunda ferðamanna ferðast um Suður-Ameríku með bókarkafla Kohnstamms, tekið mið af skrifum hans um vínhéruð Chile, „favellur“ Rio de Janeiro og þjóðvegi Kólumbíu. Saklausir ferðamenn voru teymdir um ímyndaðan heim Kohnstamms og líkaði kannski bara vel. Ósjálfrátt vakna hugrenningatengsl við sögur Jose Luis Borges. Sögur fullar af ímynduðum verum í veröld sem á sér fyrirmynd en þó ekki. Það mætti ef til vill lesa þær sögur samtímis bókarköflum Lonely Planet og finna sambærilega heima – spegilmyndir.

Hvað um það. Kohnstamm var ekki á meðal þeirra höfunda sem ég studdist við í Kambódíu en ég hef svo sem enga tryggingu fyrir því að sá sem skrifaði um gistiheimilið Fljótandi eyjuna hafi stigið þar inn fæti. Örugglega ekki. Trúlega hefur höfundurinn setið á útikaffihúsi í Prag – með svalandi drykk í hönd – og ímyndað sér rauðsprengda sólina speglast á vatnsfleti Boeng Kak. Nafn gistiheimilisins hefur hann svo tekið upp úr skáldsögu eftir Borges sem hann var að enda við að lesa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hannibal Garcia Lorca

Getur ekki líka bara verið að Borges hafi skrifað þetta og arfleitt Kohnstamm að sögunni - og kími nú í gröfinni yfir því hversu trúverðugur vísindaskáldskapurinn hans hafi reynst ...

Hannibal Garcia Lorca, 22.4.2008 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband