Hvar var stríðsglæpadómstóllinn þá?

ÞÆR verða ekki oft á vegi okkar sögubækurnar sem umbylta hefðbundnum skilningi manns á tilteknum atburðum og/eða tímabilum í mannkynssögunni. Ég gæti talið þær á fingrum annarrar handar.

Bury My Heart at Wounded Knee eftir Bandaríkjamanninn og bókasafnsfræðinginn Dee Brown er tvímælalaust ein þessara sögubóka og þó að nú séu liðin tæp 40 ár frá útgáfu bókarinnar er hún enn talin með merkustu sagnfræðiritum sem gefin hafa verið út um sögu og átök frumbyggja Norður-Ameríku og bandarískra landnema – átök sem þurrkuðu nærri út þá fjölmörgu og ólíku þjóðflokka sem reikað höfðu um fjöll og sléttur Norður-Ameríku í margar aldir, tiltölulega óáreittir.

Það var ef til vill ekki síst vegna aukinnar andstöðu bandarísks almennings við stríðshernaðinn í Víetnam að bókin hlaut jafn sterk viðbrögð og raun bar vitni. Frásögn Browns var vatn á myllu þeirra er gagnrýndu ríkisstjórnina fyrir að skeyta engu um líf saklausra Víetnama – hvað þá bandarískra hermanna – sem fórnað var á altari heimsvaldastefnunnar.

Jafnvel þó að Dee Brown hafi verið sakaður um að draga um of taum frumbyggjanna í bókinni hefur enginn (svo ég viti til) hrakið þá hræðilegu frásögn sem í bókinni er að finna og óhætt er að segja að með útgáfu hennar hafi bandarískur almenningur í fyrsta sinn horfst í augu við þá meðferð sem frumbyggjarnir hlutu af hálfu bandarískra landnema sem athöfnuðu sig oftar en ekki í skjóli hernaðarmáttar hins „mikla föður“ í Washington eins og frumbyggjarnir kölluðu forseta Bandaríkjanna.

Big FootÞað er einfalt mál í dag að fella dóm yfir grimmd landnemanna og Bandaríkjahers en á þessum tíma voru andlegir yfirburðir hvíta mannsins óumdeildir í hugum þeirra sjálfra. Frumbyggjarnir voru að sama skapi villimenn sem helst þurfti að kristna en að öðrum kosti útrýma.

En það má heldur ekki líta framhjá tvískinnungi stjórnvalda í Washington sem hvöttu til þess, æ ofan í æ, að friðarsamningar væru gerðir við frumbyggjanna en hikuðu svo ekki við að brjóta þá samninga eða túlka eftir á, með hagsmuni hvítra þegna að leiðarljósi.

Enginn áhugamaður um sagnfræði – sér í lagi bandaríska sögu – má láta þessa bók framhjá sér fara.

 

Á myndinni má sjá frosið lík Big Foot, höfðingja Lokota Siouz-indjánanna. 300 föngum, mönnum, konum og börnum var slátrað af hermönnum Bandaríkjahers að Wounded Knee í Suður Dakóta 29. desember 1890.


Fljótandi eyjan

„Gluggar herbergjanna á efri hæðinni snúa út á vatnið sem glæða herbergin bæði náttúrulegu ljósi og ferskum andblæ en viljirðu spara nokkra dali er einnig hægt að panta fábrotin herbergi á neðri hæðinni. Gistiheimilið býður upp á einhverja fallegustu verönd borgarinnar og þar er draumi líkast að sitja með drykk í hönd og fylgjast með undurfögru sólarlaginu speglast á vatninu.“

Svo hljómar lýsing Lonely Planet á gistiheimilinu Fljótandi eyjan (Floating Island) sem er staðsett við Boeng Kak-vatnið í Phnom Penh, höfuðborg Kambódíu. Við hjónin stóðumst að sjálfsögðu ekki þessa lýsingu þegar við undirbjuggum ferðina til höfuðborgarinnar og hugsuðum til þess með tilhlökkun að geta upplifað austurlenskt sólarlag með svalandi drykk í hönd. Ég held ég fari ekki ofan í það hversu ólík lífsreynsla okkar af þessu gistiheimili reyndist að lokum en segja má að fleira hafi verið „fábrotið“ en herbergin á neðri hæðinni.

Þetta er rifjað upp í ljósi frétta sem bárust utan úr heimi á dögunum þess efnis að Thomas Kohnstamm, 32 ára, frá Seattle í Bandaríkjunum, hefði skáldað á annan tug bókarkafla fyrir Lonely Planet-bókaröðina. Kohnstamm skrifaði kafla um Brasilíu, Venesúela og Chile án þess þó að hafa kynnt sér löndin sérstaklega og þegar það kom að því að skrifa inngang að ferðabók um Kólumbíu ráðfærði hann sig við kærustu sína sem var í starfsnámi hjá kólumbíska konsúlnum í San Francisco.

Sama hvað fólki finnst um þessi svik Kohnstamms er ekki annað hægt en að dást að óskammfeilninni. Nú þegar hafa tugir þúsunda ferðamanna ferðast um Suður-Ameríku með bókarkafla Kohnstamms, tekið mið af skrifum hans um vínhéruð Chile, „favellur“ Rio de Janeiro og þjóðvegi Kólumbíu. Saklausir ferðamenn voru teymdir um ímyndaðan heim Kohnstamms og líkaði kannski bara vel. Ósjálfrátt vakna hugrenningatengsl við sögur Jose Luis Borges. Sögur fullar af ímynduðum verum í veröld sem á sér fyrirmynd en þó ekki. Það mætti ef til vill lesa þær sögur samtímis bókarköflum Lonely Planet og finna sambærilega heima – spegilmyndir.

Hvað um það. Kohnstamm var ekki á meðal þeirra höfunda sem ég studdist við í Kambódíu en ég hef svo sem enga tryggingu fyrir því að sá sem skrifaði um gistiheimilið Fljótandi eyjuna hafi stigið þar inn fæti. Örugglega ekki. Trúlega hefur höfundurinn setið á útikaffihúsi í Prag – með svalandi drykk í hönd – og ímyndað sér rauðsprengda sólina speglast á vatnsfleti Boeng Kak. Nafn gistiheimilisins hefur hann svo tekið upp úr skáldsögu eftir Borges sem hann var að enda við að lesa.


Andinn yfir efnið

Sú ómannúðlega mynd sem andstæðingar Vesturlanda rissa upp af okkar heimshluta í baráttu þeirra gegn vestrænum gildum er oft nefnd „Occidentalism“ á ensku (Sá sem er "occidental" er í strangt til tekið maður sem kemur frá Vesturlöndum, sbr. að maður sem er frá Austurlöndum er kallaður "oriental") og svo er nefnd bók þeirra Ian Buruma og Avishai Margalit sem fjallar um sögu and-vestrænnar hugmyndahreyfingar.

Tilurð bókarinnar  er að sjálfsögðu þau átök sem nú eiga sér stað á milli Bandaríkjanna og Evrópu annars vegar og hins íslamska heims hins vegar en öfugt við margar bækur sem fjalla um þessi átök er aðaláherslan lögð á rætur þeirrar andúðar sem Austurlönd hafa haft á Vesturlöndum og má með einföldum hætti rekja aftur til nítjándu aldar og ef til vill enn lengra aftur. 

Í huga flestra Vesturlandabúa er and-vestrænismi (occidentalism) einskorðaður við hinn íslamska hluta Austurlanda en sagan sýnir að andúð austursins á vestrænum gildum hefur voðalega lítið með íslamska trú að gera.

pearl-harborÍ júlí 1942, aðeins sjö mánuðum eftir að Japanir lögðu herskipaflota Bandaríkjamanna í rúst í Pearl Harbor, söfnuðust margir af helstu mennta- og vísindamönnum Japans saman á ráðstefnu í Kyoto þar sem aðeins eitt mál var á dagskrá: Hvernig er hægt að sigrast á nútímanum (e. modern)?

Niðurstaða þingsins var sú að nútíminn kristallaðist í óheilbrigðum aðskilnaði þekkingar sem hefði splundrað austurlenskum hugmynda- og trúarheimi og þar væri vísindunum aðallega um að kenna – en einnig kapítalismanum, ásókn alþýðunnar í nútímatækni og hugmynda um einstaklingsfrelsi og lýðræði. Á öllu þessu þyrfti að sigrast eða eins og einn ráðstefnugestanna orðaði það; „Baráttan er á milli japansks blóðs og vestrænnar skynsemi.“

Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að sjá samsvörun á milli þessarar ráðstefnu í Kyoto um miðja síðustu öld og andúðar íslamista í dag á öllu því sem kallast gæti vestræn siðmenning. En þó má lesa á milli línanna að sjálfur trúarbókstafurinn skiptir ekki meginmáli í þessu sambandi, heldur kjarni siðmenningarinnar, þ.e. trú Vesturlanda á að efnið sé andanum yfirsterkari. Og það gengur þvert á gildi Austurlanda.

Þrátt fyrir að bókin sé um margt vel unnin og fræðandi finnst manni á tíðum að skilin sem þeir skapa á milli austurs og vesturs séu helst til skörp – því niðurstaða bókarinnar er í fáum orðum þessi: Vestræn siðmenning er af efnislegum toga og sigur hennar felst í efnislegum sigri á austrænni siðmenningu. Austræn menning er af andlegum toga og sigur hennar felst í andlegum sigri á vestrænni siðmenningu.

Af lestri bókarinnar að dæma virðist fátt geta brúað það bil sem skilur þessa ólíku hugmyndaheima að og því geta átökin á milli austurs og vesturs einungis ágerst.

Og hvernig ætli slík átök endi? Sagan segir okkur að þau endi með kjarnorkusprengingu.


Robbe-Grillet

Mætti ég aðeins bera í lækinn;

Marienbad

Sá þessa mynd á bloggsíðu Egils Helgasonar og þá rifjaðist þetta allt í einu upp fyrir mér. Takið eftir því að enga skugga leggur frá pýramíðsku limgerðinu, aðeins frá fólkinu sem stendur á hvítri kalksteinamölinni. Sagan segir að Alain Resnais leikstjóri myndarinnar hafi myndað skuggana með því að dreifa svartri möl á þá hvítu. Út kemur þetta flotta skot í annars drepleiðinlegri mynd.

Annars mæli ég eindregið með sjálfsævisögu Alain Robbe-Grillet sem kallast í enskri þýðingu Ghosts in the Mirror. Öðruvísi ævisaga sem veitir manni mjög skemmtilega innsýn í tilurð "nýju skáldsögunnar" og svo náttúrlega í manninn sjálfan sem var þegar á botninn er hvolft, ósköp venjulegur maður. Skelfilega venjulegur meira að segja. 


STEF sér ljósið

Í framhaldi af síðustu bloggfærslu er rétt að benda á að stjórn STEFs ákvað á stjórnarfundi í síðustu viku að leggja það til við ljósvakamiðla að þeir hefðu samráð við tónskáld og eigendur flutningsréttar áður en tónverk þeirra væru notuð í dagskrárauglýsingum.

Það er gott til þess að vita að stjórn STEFs er með lífi.

Hitt ber þó að halda til haga að stjórnin mun ekki fara fram á að samningurinn verði endurskoðaður, heldur aðeins að svokölluðum vinnureglum verði breytt. Mér er það áhyggjuefni að samningurinn sé á svo breiðum, og frjálsum grundvelli að töluverð breyting á réttindum tónskálda kalli ekki á slíkt. 

Hvað ef ljósvakamiðill ákveður einfaldlega að fara ekki að tilmælum STEFs?


Er enn setið að sumbli?

Um miðja 19. öld sátu nokkur frönsk tónskáld að sumbli á veitingastað í Parísarborg. Þegar kom að því að gera upp í lok kvölds varð tónskáldunum ljóst að þeir áttu ekki fyrir reikningnum sem var orðinn allhár. Datt þá einu tónskáldanna það snjallræði í hug að í raun væri ekki þörf á að greiða fyrir veitingarnar því að nokkur af tónverkum þeirra er þar höfðu drukkið, höfðu verið leikin á staðnum um kvöldið og þar af leiðandi ættu þeir kröfu á greiðslu sem ekki væri lægri en skuld þeirra við veitingastaðinn. Málið endaði fyrir dómara sem að lokum dæmdi tónskáldunum í vil á grundvelli höfundalaga sem sett höfðu verið í Frakklandi um hálfri öld áður, en hafði að mestu verið dauður bókstafur fram að þessu.

Þessi einstaki viðburður þykir marka tímamót í höfundarréttarbaráttu tónskálda því í kjölfarið fór af stað bylgja í Evrópu sem endaði með stofnun höfundarréttarsamtaka tónskálda í flestum Evrópulandanna. Hér náði bylgjan ekki ströndum fyrr en 100 árum síðar. Án þess að ég ætli hér að rekja sögu STEFs í smáatriðum er ljóst að mikill styr hefur staðið um sambandið frá stofnun þess árið 1948. Fram að því hafði fólk litið á tónlist sem almenningseign og það væri merki um mikilmennskubrjálæði og í sumum tilvikum græðgi að tónsmiðir krefðust greiðslna fyrir flutning á höfundarverkum sínum. Mikið vatn hefur runnið til sjávar á síðustu 60 árum þó að margt sé enn óunnið í þeim málum, svo sem mismunun á vægi tiltekinna tegunda tónverka. En það er önnur saga.

Í Morgunblaðinu á sunnudag (20.janúar) kom fram í viðtali við Kára Sturluson umboðsmann, að tónskáld sem hann er í forsvari fyrir eru ósátt við samning sem STEF hefur gert við ljósvakamiðla og gerir miðlunum kleift að nota höfundarverk þeirra í dagskrárauglýsingum að tónskáldunum forspurðum. Vill Kári meina að bæði siðferðisleg og fjárhagsleg rök mæli gegn slíkum samningi. Kári hefur að mínu mati nokkuð til síns máls. Í nútíma markaðssamfélagi eru tengsl milli vörumerkja orðin æ mikilvægari og það getur haft mikil áhrif á vinsældir og markaðssetningu tónverka að rétt sé haldið á vörumerkjastjórnun (brand management) þeirra. Í þessu sambandi getur það verið tónskáldi til vansa að tónverk þess sé tengt vörumerki – í þessu tilviki dagskrárlið – sem er því (eða markhópi þess) ekki að skapi. Þetta kallar Kári á mannamáli, siðferðileg rök.

Það sem Kári kallar fjárhagsleg rök eru þessari vörumerkjastjórnun einnig tengd. Fyrirtæki gæti haft augastað á að tengja sig ákveðnu tónskáldi sem nýtur vinsælda og fyrir leyfi til þess að nota tónverk tónskáldsins í sjónvarpsauglýsingu er fyrirtækið tilbúið til að reiða af hendi töluverðar fjárhæðir. En hvaða áhrif ætli það hafi á áhuga fyrirtækisins þegar Sjónvarpið byrjar stuttu áður að nota sama tónverk í dagskrárauglýsingu fyrir Kastljósið? Svarið er augljóst og þær fjárhæðir sem tónskáldið færi á mis við yrðu töluverðar. Með öðrum orðum, markaðsvirði tónverksins hefur rýrnað og samningur STEFs hlýtur að vera orsök þeirrar rýrnunar. Hver er til dæmis skaðabótaréttur tónskáldsins í þessu sambandi? Gæti einhver spurt sig.

Eftir því sem næst verður komist felur umræddur samningur í sér að ljósvakamiðlum er heimilt að flytja hvaða tónlist sem er, innlenda sem erlenda, þ.á.m. í kynningum á einstökum sjónvarpsþáttum. Fyrir þessa heimild greiðir ljósvakamiðill STEFi umsamda fjárhæð á ári hverju og samtökin úthluta svo höfundaréttargreiðslum til hlutaðeigandi höfunda. Eiríkur Tómasson, framkvæmdastjóri STEFs, telur þennan samning góðan en augljóst er að því eru ekki allir félagsmenn í STEFi sammála. Hvert er hins vegar svar Eiríks Tómassonar við gagnrýninni. Jú, hann réttir ljósvakamiðlunum kurteislega vopnin og segir að ef STEF fari að rugga bátnum sé það ljósvakamiðlunum í lófa lagt að krefjast þess að þeir greiddu minna til STEFs!

Ég hefði nú getað bent framkvæmdastjóranum á skynsamlegri viðbrögð við óánægjuröddum skjólstæðinga sinna. Og þá er ég ekki byrjaður að ræða samningatækni framkvæmdastjórans sem getur varla talist hans sterka hlið í ljósi ummælanna.

Markaðsherferðir ljósvakamiðla eru aðrar og umfangsmeiri nú en þær voru árið 1987 þegar STEF gerði samning sinn við Ríkisútvarpið. Liggur það ekki í augum uppi? Og er þá ekki eðlilegt að hagsmunir tónskálda og eigenda flutningsréttir séu endurskoðaðir með þessar breytingar í huga? Öll svör um að slíkt sé erfitt, of flókið eða þar fram eftir götunum eru ótæk. Það ættu þeir sem standa vörð um hagsmuni félagsmanna STEFs að vita. Eða þurfa íslensk tónskáld enn að bíða þess að slompaðir kollegar þeirra í Parísarborg ryðji veginn?


Best af öllu

Vek athygli á kosningu á bestu íslensku plötu allra tíma, sem nú fer fram á forsíðu mbl.is (vinstra megin).

Þetta var nokkuð vandasamt verk en mér tókst að lokum að sættast við eigin smekk og kjósa þær fimm sem mér þykir bera af.

Ef menn finna ekki sína plötu á listanum er einnig hægt að skrifa inn þær plötur sem manni finnst vanta.

Niðurstöðurnar verða svo birtar 9. nóv á Degi íslenskrar tónlistar. 


Ofbeldisfullir rithöfundar

Gabriel Garcia MarquesFann hérna mynd af Gabriel Garcia Marques með glóðaraugað fræga sem hann fékk frá Llosa árið 1976. (Af hverju hann brosir, veit ég ekki).

Llosa á að hafa kýlt hann í kvikmyndahúsi eftir frumsýning á kvikmynd um argentínsku knattspyrnumennina sem brotlentu í Andesfjöllunum og tóku upp mannát til að halda sér á lífi.

Ástæðan mun hafa verið sú að Marques gerði sér dælt við eiginkonu Llosa stuttu eftir að upp úr slitnaði í hjónabandi þeirra. Svoleiðis gera menn ekki!

Fyrir voru þeir Llosa og Marques miklir vinir og til marks um það hafði Llosa skrifað lærða ritgerða (eiginlega bók) um Marques þar sem ritsnilli hans er lofsömuð. En eftir kjaftshöggið var ekki aftur snúið og þeir talast víst ekki saman enn þann dag í dag. Þar fyrir utan hefur Llosa tekið fyrir endurútgáfu á ritgerðinni sem hann skrifaði um vin sinn og eftir því sem ég best veit er hún ófáanleg í dag.

Eins og kom fram í skemmtilegri grein í New York Times fyrr á þessu ári, er þessi hnefabardagi á milli Llosa og Marquesar talinn á meðal þeirra frægustu sem átt hafa sér stað á milli rithöfunda og iðulega rifjaður upp með slagsmálum Vladimirs Nabokov og Edmunds Wilson og rifrildi einu á milli Norman Mailer og Gore Vidal sem endaði með því að Mailer kýldi Vidal í gólfið. Þá eiga þessi fleygu orð að hafa hrotið af blóðugum vörum Vidals: "Words fail Norman Mailer yet again."

 

 


Llosa hittir aftur í mark

Mario Vargas Llosa SAMKVÆMT Gegni (samskrá íslenskra bókasafna) hefur aðeins ein skáldsaga eftir perúska rithöfundinn Mario Vargas Llosa verið þýdd á íslensku. Það hlýtur að þykja undarlegt í ljósi þess að Llosa hefur um langt skeið verið höfuðskáld Perú og skipar sér nú á bekk með Marques, Borges, Rivera og Paz sem einn merkasti rithöfundur Rómönsku-Ameríku.

En þó nafn Llosa hljómi kunnuglega í eyrum margra sem fylgjast með bókmenntum (þá líklega í samhengi við glóðaraugu sem Llosa veitti Gabriel Garcia Marques um árið) eru þeir eflaust færri hér á landi sem hafa lesið í einni af 16 skáldsögum rithöfundarins sem einnig þykir afar flinkur ritgerðasmiður, blaðamaður og listgagnrýnandi.

Í bókinni Making Waves sem kom út árið 1996 er að finna safn greina, fyrirlestra og ritgerða sem Llosa hefur skrifað á sínum ferli og veitir bókin nokkuð góða sýn inn í þau margvíslegu málefni sem Llosa hefur tekið á í skáldverkum sínum. Sem dæmi má nefna innblásna lýsingu á knattleikni Maradona sem Llosa fylgdist með af aðdáun á HM á Spáni árið 1982, grein um óumflýjanlega spillingu kúbversku byltingarinnar, frásögn af heimsókn til spænska kvikmyndagerðarmannsins og súrrealistans Luis Bunuel, greiningu á bandarísku samfélagi með tilliti til John Wayne Bobbitt málsins og hrikalega frásögn af morði á sjö perúskum blaðamönnum sem voru teknir í misgripum fyrir liðsmenn Sendero Luminoso – herskárra samtaka maóista sem héldu stórum hluta Perú í skelfingargreipum í rúman áratug, undir lok síðustu aldar.

Fyrir áhugmenn um bókmenntir er þó fróðlegast að lesa greiningu Llosa á nokkrum helstu rithöfundum vestrænna bókmennta sem hann varpar oftar en ekki nýju ljósi á. Eina grein frá 1988 er til að mynda að finna um nýjasta Nóbelsverðlaunahafann Doris Lessing og skáldverkið The Golden Notebook sem Llosa segir að svipi nokkuð til skáldsögu Simone de Beauvoir Les Mandarins en sé þó mun betur skrifuð og djúpviturri í skilningi sínum á árunum eftir síðari heimsstyrjöld. Í annarri ritgerð tekst Llosa á við smásagnasafn James Joyce, Dubliners og fullyrðir þvert á hefðbundna skoðun manna að "The Dead" sé ekki besta saga bókarinnar. Á öðrum stað finnur hann hliðstæðu á milli samfélags perúskra frumbyggja og samfélags Yoknapatawpha-sýslu í skáldverkum Williams Faulkner og enn annars staðar er að finna stórskemmtileg bréf til rithöfundanna Salmans Rushdie og Gunthers Grass.

Alls 46 greinar og ritgerðir á hátt í 400 blaðsíðum sem synd væri að fara á mis við þrátt fyrir lítinn áhuga íslenskra þýðenda á höfundinum.


Það hlaut að koma að því

Sá rétt í þessu á mbl.is að til stæði að rétta yfir háttsettum leiðtoga Rauðu khmeranna.

Skrifaði þessa grein á sínum tíma um bókina Stay Alive My Son eftir kambódíska verkfræðinginn Pin Yathai, sem ég mæli eindregið með að allir lesi sem hafa áhuga á ógnarstjórn Pol Pots - ef áhugi er þá rétta orðið í þessu sambandi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband