Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Af mishelgu fólki

st_george.jpg
Í vikunni verður áhugavert mál tekið til umræðu á prestastefnu ensku biskupakirkjunnar sem gæti haft víðtæk áhrif á enska kirkjumenningu, en einnig á ásjónu stuðningsmanna enska landsliðsins í knattspyrnu - eins skringilega og það hljómar.

Um er að ræða tillögu Philips Chesters, sóknarprests í Westminster, um að heilagur Alban verði gerður að verndardýrlingi ensku biskupakirkjunnar við hlið heilags Georgs sem Philip og aðrir stuðningsmenn tillögunnar segja of herskáan og særandi í garð múslima - og útlendinga almennt.

Það sem gerir málið ef til vill áhugaverðara en ella er að angar þess teygja sig bæði aftur til forsögulegra tíma og til þeirrar framtíðar sem kristið fólk vill skapa í fjölmenningarríkinu Englandi.

Tillaga Chesters og félaga verður að teljast nokkuð djörf þar sem heilagur Georg hefur verið höfuðdýrlingur Englendinga allt frá miðöldum þegar krossfarar fluttu píslarsögu hans með sér frá landinu helga. Í dag er hann án efa einn frægasti dýrlingur hins kristna heims - ekki síst fyrir tilstuðlan teiknimyndasagna þar sem hann er sívinsæll í hlutverki drekabanans mikla. Hann er verndardýrlingur kristinna manna í Búlgaríu, Makedóníu, Rússlandi, Georgíu, Eþíópíu og Svíþjóð auk Englands en svo er hann dýrlingur enn fleiri borga og málefna um víða Evrópu - á hann er til að mynda heitið þegar fólk vill læknast af herpes og öðrum húðsjúkdómum.

Það merkilega við heilagan Georg er að það hefur ekki verið sannað með óhyggjandi hætti að hann hafi í raun og veru verið til en hann er talinn hafa verið uppi um aldamót þriðju og fjórðu aldar e.kr., í Litlu-Asíu. Í píslarsögunni segir að Georg, sem þá var hermaður í þjónustu rómverska keisarans Díokletían, hafi neitað að framfylgja skipun keisarans um að ofsækja kristna menn og hlotið að launum dauðadóm. Sagan hermir að maður einn, sem varð vitni að því þegar Georg var bæði pyntaður og hálshöggvinn, hafi sannfært Alexöndru keisaraynju og heiðinn prest, Aþanasíus nokkurn, um að taka kristna trú en þar með hlutu þau bæði dauðadóm og liðu eigin píslarvætti.

Eins og áður sagði er goðsagan (eða ævintýrið) um Georg drekabana þekktari en píslarsagan en þar er líklega um að ræða goðsögu sem á sér fyrirmynd í enn eldri goðsögum, indóevrópskum. Fyrir þá sem muna hana illa hefst hún á því að mannýgur dreki hreiðrar um sig við vatnsból konungsdæmis og í kjölfarið verða þegnar þess að færa drekanum eina mannfórn á dag svo þeim leyfist að sækja sér vatn. Hverjum skal fórnað er ákveðið með (ó)happadrætti og án andmæla - allt þar til að dóttir konungsins er dregin út. Í örvæntingu sinni býður hann þegnum sínum hálft konungdæmið gegn því að lífi dóttur hans verði þyrmt en án árangurs. Í þann mund ríður heilagur Georg á hvítum fáki um konungdæmið og heyrir af vanda konungs. Hann berst við drekann og leysir prinsessuna úr prísundinni en til að sýna þakklæti sitt taka konungur og þegnar hans kristna trú og jafnskjótt öðlast vatnsbólið mikinn lækningamátt - sér í lagi á húðsjúkdómum.

St AlbanSt Alban

Þrátt fyrir að píslarsagan leggi ekki jafnmikið upp úr drápum Georgs og ævintýrið af drekanum hefur helgi hans ætíð verið tengd hernaði og myndir af honum er að finna á skjaldarmerkjum herfylkinga um allan heim. Hann er eini dýrlingurinn sem sést í miðjum bardaga á helgimyndum og þá oftar en ekki í rómverskum herklæðum. Það er því líklega þess vegna og ekki síst fyrir þá staðreynd að það voru krossfararnir sem héldu minningu og helgi Georgs á lofti að prestar eins Philip Chester kalla nú eftir því að heilagur Alban verði settur á jafnháan stall og heilagur Georg (og helst hærri). Og í raun og veru hefur helgi Albans mun meira með England nútímans að gera. Fyrir það fyrsta er það vitað með vissu að umræddur Alban var uppi - einhvern tímann í upphafi fjórðu aldar e.kr., og það sem meira er, hann leið sitt píslarvætti á enskri grundu (í Hertfordskíri norður af London) og er þ.a.l. fyrsti enski dýrlingurinn. Sagan segir að Alban hafi veitt kristnum presti, sem var á flótta undan rómverskum hermönnum, felustað á heimili sínu og að presturinn hafi í kjölfarið veitt Alban skírn. Til að villa um fyrir Rómverjunum skiptu þeir Alban og presturinn á klæðum sem varð svo til þess að rómversku hermennirnir handtóku Alban í misgripum fyrir prestinn. Þegar upp um það komst urðu þeir æfir og spurðu Alban hvort hann hefði snúist til kristni en við því svaraði Alban: "Ég tilbið og dýrka hinn sanna, lifandi guð, skapara himins og jarðar." Þrátt fyrir pyntingar Rómverjanna neitaði Alban að ljóstra upp um felustað prestsins og svo fór að hann var dreginn út fyrir borgarmörkin og upp á hæð þar sem hann var hálshöggvinn. Á þeim stað stendur í dag dómkirkja heilags Albans.

Í inngangi pistilsins talaði ég um að niðurstaða prestaþingsins gæti mögulega haft áhrif á það hvernig enskir stuðningsmenn koma okkur hinum fyrir sjónir á keppnismótum framtíðarinnar. Þar á ég við kross heilags Georgs (rauður kross á hvítum fleti) sem enskir stuðningsmenn flagga ótt og títt og er þjóðfáni Englands. Fáninn á uppruna sinn í krossferðunum eins og svo margt annað en eins og Philip Chester og aðrir hugsa til með hryllingi máluðu riddararnir krossinn með blóði þeirra múslima sem drepnir voru á vígvellinum.

Kross heilags Albans er aftur á móti tvær gular skálínur á bláum fleti og menn geta því auðveldlega ímyndað sér keðjuverkunina af því ef heilagur Alban verður settur skör hærra en Georg.

Á hinn bóginn gætu enskar fótboltabullur huggað sig við það að flóttinn undan óeirðalögreglunni yrði hægur leikur innan um saklausa, sænska stuðningsmenn.


Fleiri myndir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband