Færsluflokkur: Tónlist

Of gott til að vera satt

Afskaplega áhugaverð frétt er nú á mbl.is þar sem vitnað er til skrifa Gísla Tryggvsonar á vef hans þar sem hann veltir upp þeirri spurningu hvort réttlætanlegt sé að neytendur greiði oft fyrir sama afnotaréttinn að tónlist eða mynd.

Þar segir hann að þegar hljóm- eða mynddiskar eyðileggist - ekki síst diskar með barnaefni - sé það „ekki bara vandamál neytenda enda er „varan“ sem maður kaupir ekki bara diskurinn; hann er bara eins konar fylgihlutur til þess að njóta megi tónlistarinnar eða myndarinnar“.

Enn fremur segir í fréttinni (og á vef Gísla sem ég finn ekki):

Rökin eru þau að langstærsti hluti verðsins fyrir slíkan disk er fyrir afnotarétt að hugverkinu og öðrum höfundarétti á innihaldinu. Mjög lítill hluti verðsins er gjald fyrir hinar áþreifanlegu umbúðir, diskinn, eða afgreiðslu hans. Um þetta mætti e.t.v. semja með heildarsamningum við samtök höfundaréttarhafa tónlistar og myndefnis.“

Það mætti svo sem heimfæra þetta líka upp á bækur og tölvuleiki en ég sé ekki fyrir mér að þessi frumlega hugmynd eigi upp á pallborðið hjá samtökum höfundarrétthafa, hvað þá útgáfufyrirtækjum sem treysta eflaust á þessa rýrnun. Ekki nema að gjald fyrir hvern disk hækki á móti. Og hver vill það?

Svo má líka velta fyrir sér útfærslunni á þessari hugmynd. Hvað ef tiltekinn diskur er uppseldur og verður ekki endurútgefinn? Mætti ég þá velja mér einhvern annan disk (höfundarverk)? Yrði hann ekki að vera sambærilegur eða á sambærilegu verði. Og yrði það á verðlaginu í dag eða þegar hann var keyptur upphaflega? Og hvað með allan peninginn sem fer í umslagið, hönnunina?

Þetta er skemmtilega geggjuð hugmynd og líklega of góð til að verða að veruleika.


Morgunblaðið hneykslar

Fréttablaðið birti í síðasta mánuði (20. september 2006) frétt þar sem fullyrt var að tónlistarmenn væri ósáttir við Morgunblaðið vegna notkunar þess á erlendu lagi í sjónvarpsauglýsingu. Í fréttinni var haft eftir tónlistarmanninum og framkvæmdastjóra FTT, Magnúsi Kjartanssyni, að síðasta vígið væri fallið og þeir hjá Morgunblaðinu ættu að velta því fyrir sér hvort ekki væri réttast að skrifa blaðið bara á ensku. Var haft eftir Magnúsi að ályktunar væri að vænta frá FTT á næstunni og talaði Magnús um málið sem hið mesta hneyksli.

Undirritaður bjóst fastlega við því að einhvers konar umræða myndi skapast um málið, sérstaklega í ljósi þess að hér væri um "hið mesta hneyksli" að ræða, en nú, tæpum mánuði síðar, bólar hvorki á umræðunni né ályktun FTT.

Á undanförnum árum hefur það verið brýnt fyrir landsmönnum að "velja íslenskt" og styðja þar með við bakið á iðnaðinum í landinu. Nú dettur varla nokkrum manni í hug að hér sé um ósanngjörn hvatningaróp að ræða frá Samtökum iðnaðarins, enda þjóðlyndi okkur í blóð borið. Þar að auki segir almenn skynsemi okkur að ef iðnaðurinn í landinu legðist af væru flestar forsendur fyrir búsetu hér á landi brostnar.

Tónlist er eins og aðrar listgreinar iðnaður og það er oft talað um tónlistariðnað í því samhengi. Þetta veit Magnús Kjartansson og sem formaður FTT er það skylda hans að hvetja Íslendinga til að "velja íslenskt". Það sýnist mér alla vega að liggi að baki gagnrýni framkvæmdastjórans.

Hitt er svo annað mál að þrátt fyrir að tónlistariðnaðurinn lúti sömu markaðslögmálum og hver annar iðnaður í landinu, lýtur hann einnig lögmálum listarinnar, sem segja að hver einasta listsköpun sé einstök. Leikrit Göthes og Marlowes um Dr. Faustus eru bæði einstök og annað getur ekki komið í stað hins. Hið sama gildir um tónlistina, eitt lag getur ekki komið í stað annars og þá á ég ekki við flutning á tónverki.

Það að við Íslendingar svörum kalli Samtaka iðnaðarins um að kaupa frekar íslenskan ost en danskan er eðlilegt. En að við séum krafin um að hlusta frekar á íslenska tónlist en erlenda er fjarstæðukennt - enda efa ég að nokkur listamaður kysi að vera vinsælastur í þeim heimi þar sem aðrir listamenn eru bannaðir!

Íslensk fyrirtæki hafa ákveðnum skyldum að gegna gagnvart landi og þjóð, það segir sig sjálft. En að listamaður krefjist þess að á hann sé hlýtt, hann lesinn og svo framvegis, eingöngu vegna þess að hann er Íslendingur, er svo allt annað mál - sem vert er að ræða.


Lofsöngvar á HM

HM

Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu er í algleymingi um þessar mundir. Þrjátíu og tvö knattspyrnulið jafnmargra þjóðlanda eru samankomin í Þýskalandi og innan mánaðar (9. júlí) mun ein þjóð standa uppi sem sigurvegari í vinsælustu íþrótt veraldar.

Menningarvitar um allan heim keppast nú við að listgera knattspyrnuna eins og lög gera ráð fyrir á póstmódernískum tímum og sýnist sitt hverjum um þær tilraunir. Ég hef svo sem lítið út á þá umræðu að setja þó að í mínum huga sé knattspyrna fyrst og síðast keppnisíþrótt og tæplega vill nokkur menningarviti heimfæra það upp á listirnar - eða hvað?

En það er önnur listgrein sem töluvert fer fyrir á heimsmeistarakeppninni í Þýskalandi. Nefnilega tónlist. Áhorfendur að keppninni gera sér e.t.v. ekki grein fyrir því en nákvæmlega 128 sinnum verða þjóðsöngvar landanna fluttir í Þýskalandi - níutíu og sex sinnum í riðlakeppninni og þrjátíu og tvisvar sinum í úrslitakeppninni. Þá hefja tugþúsundir áhorfenda sem mættir eru á völlinn upp raust sína og kyrja sönginn með stolt í brjósti við undirleik lúðrasveitar. Það má svo eflaust halda því fram - ef gert er ráð fyrir að stór hluti almennings í hverju landi syngi með fyrir framan sjónvarpstækin - að á þessum 30 dögum sem keppnin fer fram muni einn sögulegasti fjöldaflutningur á þjóðsöngvum fara fram.

Sögu þjóðsöngsins má rekja aftur til síðari hluta 16. aldar þegar hollenskir héraðshöfðingjar risu upp gegn spænskri stjórn í stríði sem síðar var kallað 80 ára stríðið. Söngurinn, sem enn er sunginn í Hollandi, var kallaður "Het Wilhelmus" í höfuðið á Vilhjálmi frá Nassau (e.t.v. betur þekktur sem Vilhjálmur af Óraníu) en textinn er byggður upp "akrostískt" þar sem fyrstu stafir hvers erindis mynda orðin Villem van Nassov.

Með fjölgun þjóðríkja í Evrópu á síðustu og þarsíðustu öld tóku æ fleiri þjóðir upp sinn eigin þjóðsöng og þegar nýlenduþjóðirnar fóru tilneyddar að taka upp innflutta siði voru þjóðsöngvar samdir að evrópskri fyrirmynd - eins og margir hafa eflaust tekið eftir í tilviki Afríkuþjóðanna á HM. Nú til dags eru aðeins örfáar þjóðir utan Evrópu sem byggja þjóðsöngva sína á innlendri tónlistarhefð en þær eru Japan, Kosta Ríka, Íran, Sri Lanka og Búrma.

Þvert á hugmyndir margra hafa fáir þjóðsöngvar verið samdir af þekktum tónskáldum. Fáir kannast til dæmis við Claude Joseph Rouget de Lisle, sem samdi "La Marseillaise", og þá var laglínan við bandaríska þjóðsönginn, "The Star-Spangled Banner", fengin að láni frá öðru lagi sem kallast "To Anacreon in Heaven" eftir hið annars óþekkta enska tónskáld John Stafford Smith. Merkilegra er þó kannski að enski þjóðsöngurinn, "God Save the Queen", var saminn af manni, hvers nafn er fyrir löngu fallið í gleymskunnar dá. (Sama laglína er sungin við vísuna "Eldgamla Ísafold" eftir Bjarna Thorarensen og var um tíma eiginlegur þjóðsöngur okkar.)

Á hinn bóginn var þýski þjóðsöngurinn, "Gott erhalte Franz den Kaiser" (í dag "Das Lied der Deutschen"), saminn af hinu þekkta tónskáldi Joseph Haydn og svo vilja Austurríkismenn trúa því að sjálfur Wolfgang Amadeus Mozart hafi samið þjóðsöng þeirra þó að skotheldar heimildir finnist ekki víða um það.

Hér á landi hefur þjóðsöngurinn lengi verið umdeildur. Margir agnúast út í laglínuna, sem er eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, en hún þykir mjög erfið til söngs þar sem tónbilið (frá dýpsta tóni til þess hæsta) spannar víðara söngsvið en hinn almenni söngvari ræður við. Enn aðrir hafa látið texta lagsins fara fyrir brjóstið á sér en þar er um sálm að ræða, og trúarlegan mjög, sem sumum finnst ekki við hæfi. Þess utan hefur athygli verið vakin á því að í fyrsta erindi gerist Matthías Jochumsson sekur um hugsunarvillu þar sem eilíft smáblóm deyr; "...eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár/sem tilbiður guð sinn og deyr."

Hann er væntanlega ekki sá eini sem gerist sekur um slíkt í sögu kristinnar hugmyndafræði.

En hvort sá dagur rennur upp að "Lofsöngur" Matthíasar og Sveinbjörns verði sunginn á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu skal ósagt látið.

Það er í það minnsta nægur tími til að íhuga aðra kosti.


Sigið til hnignunar

bitlarnir.jpg
Í dómi sem ég skrifaði um tónleika Supergrass á tónlistarhátíðinni Reykjavík Trópík, og birtist í Morgunblaðinu í gær, minntist ég á þá umræðu sem nú fer fram um hnignun hljómleikaiðnaðarins á Íslandi. Skipuleggjendur tónleika með erlendum hljómsveitum, virðast í síauknum mæli, vegna dræmrar miðasölu, neyðast til að flytja tónleika úr stórum íþróttamannvirkjum í smærri samkomuhús eða einfaldlega blása tónlistarviðburðinn af, eins og gerðist með tónlistarhátíðina Reykjavík Rokkar sem fara átti fram um mánaðamótin júní, júlí. Þessi þróun hlýtur að vera þessum sömu skipuleggjendum mikið áhyggjuefni því eins og gefur að skilja, eru háar fjárhæðir eru í húfi. En hvað veldur?
 
Eftir dulitla umhugsun hygg ég að grundvallarþættir núverandi ástands séu þrír:
Í fyrsta lagi ber að nefna það sem kalla má „upplýsta hegðun neytenda“, þ.e.a.s. að íslenskir tónleikagestir séu orðnir betur upplýstir um gæði framboðsins og velti því frekar fyrir sér hvort það sé fyrirhafnarinnar virði að sækja einstaka tónleika með tilliti til tíma og fjárhags. Hér áður fyrr má segja að Íslendingar hafi snobbað fyrir erlendum tónlistarmönnum og undantekning var ef illa seldist á hljómleika þeirra. Nú er öldin önnur – aukið framboð síðustu missera hefur mettað markaðinn með þeim afleiðingum að þær forsendur sem skipuleggjendur tónleika gáfu sér áður, reynast úreltar í dag.
Í þessu sambandi skiptir varan (hljómsveitin) aðalmáli.
 
Önnur ástæðan kemur í beinu framhaldi af þeirri fyrstu og gengur út á hæfileika skipuleggjandans til að lesa í eftirspurnina, umfang markaðarins og haga þannig kostnaði við hljómleikana í samræmi við þá spá. Þeir Íslendingar sem farið hafa á tónleika með vinsælum tónlistarmönnum í útlöndum furða sig stundum á því að meðalaðsókn er ekki mikið meiri en 3.000 tónleikagestir. Vinsælir tónleikastaðir á borð við Razzmatas í Barcelona, Palladium og Dominium í London taka rétt rúmlega 2.000 gesti en þar koma stórar hljómsveitir fram á hverju ári. Og þá liggur beint við að spyrja; af hverju ættu fleiri íslenskir tónleikagestir að sækja slíka hljómleika?
Það sem áður hefur verið kallað hnignun hljómleikamarkaðarins, gæti þess vegna í raun verið tilhneigin hans til að rétta sig af með tilliti til raunverulegs fjölda neytenda.
Í þessu sambandi skiptir staðsetning tónleikanna aðalmáli.
 
Þriðja og síðasta ástæðan er bundin við ákveðið ástand í þjóðfélaginu sem snýr að fjárhag heimilanna. Í ljósi aukinnar skuldastöðu almennings og spár um válynda tíma í efnahagsmálum þjóðarinnar, er ekki óvitlaust að gera ráð fyrir því að þeir markaðir sem að algerum hluta snúast um dægradvöl, séu þeir fyrstu til að fara halloka – og öfugt, ef um mikla hagsæld er að ræða.
Iðnaður á borð við hljómleikaiðnaðinn er afar viðkvæmur fyrir sveiflum í hagkerfinu og þegar skóinn kreppir (eða þá að blikur séu á lofti um að það muni hann gera) er almenningur gjarn á að láta hluti eins og leikhús, tónleika og kvikmyndahús mæta afgangi.
Í þessu sambandi skiptir miðaverð á tónleikana aðalmáli.
 
Að sjálfsögðu verða allir þessir þættir að ganga upp svo að einstakir hljómleikar standist væntingar og aðrir hlutir á borð við auglýsingar og tímasetningu geta einnig skipt töluverðu máli.
Hins vegar má af þessari greiningu sjá að í stað þess að talað sé um hnignun hljómleikamarkaðarins á Íslandi, væri réttara að segja að hann hefði nú fyrst náð jafnvægi – nú fyrst hagar hann sér eins og hljómleikamarkaðir annars staðar í heiminum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband