Færsluflokkur: Dægurmál
22.2.2007 | 21:26
Guði sé lof fyrir Blaðið
Þetta Kroniku-blað er því miður að valda mér miklum vonbrigðum. Ég bjóst við miklu beittara blaði því að eins og Sigríður Dögg talaði fyrir útgáfu blaðsins, þá taldi ég að Kronikan myndi opna fyrir mér heilan heim af málum sem hefðu legið undir yfirborðinu í skjóli pláss-, tíma- og metnaðarleysis annarra blaða.
Eina greinin sem ég staldraði við í dag var eftir fyrrum kollega minn á Morgunblaðinu, Kristján Torfa, um jenið og krónuna. Mjög fín og auðskiljanleg grein og Kristján er frábær penni eins og sannaðist oft í Viðhorfspistlum hans í Mogganum.
En annað greip mig ekki. Ekki enn í það minnsta.
Í dag heyrði ég svo prentarana vera að hrósa DV svo að ég hugsaði mér gott til glóðarinnar þar, en allt fyrir ekki. Sama tóbakið enn og aftur. Engin hugmyndaauðgi í framsetningu eða efnisvali.
Guði sé lof fyrir Blaðið.
Djók!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.5.2006 | 14:31
Kunnuglegur söngur eftir Evróvisjón
Þegar það var svo ljóst að Silvía kæmist ekki áfram fann maður fyrir svipaðri líðan og þegar maður skyndilega uppgötvar að maður hefur setið of lengi í samkvæmi sem var manni kannski ekkert sérstaklega að skapi til að byrja með - en þá er líka yfirleitt farið að renna af manni.
Fyrstu dagana eftir keppnina heyrði maður og las (í fjölmiðlum og á bloggsíðum) margar skýringar á því hvers vegna framlag Íslands hefði ekki hlotið náð fyrir augum Evrópubúa. Oftast heyrði maður þá fullyrðingu að Ísland ætti engan sjens í keppninni lengur því að henni væri í raun stjórnað af þjóðum Austur-Evrópu. "Það er ljóst að Austur-Evrópa er í tísku núna. Mörg lög þaðan komast í gegn án þess að eiga það skilið," sagði Selma Björnsdóttir í viðtali við Morgunblaðið þann 19. maí og í öðru viðtali við Jón Jósep Snæbjörnsson sagði Jónsi eitthvað á þá leið að réttast væri að kalla keppnina "Balkanvisjón" eða "Júgóvisjón".
Eflaust hafa margir tekið undir þessar fullyrðingar fullir af heilagri Evróvisjón-reiði og svona fullyrðingar hljóma mjög vel þegar mann svíður hvað mest undan tapsárindunum.
En stenst þetta nánari skoðun?
Mér reiknast það til að 37 Evrópuþjóðir hafi tekið þátt í keppninni í ár; 16 Austur-Evrópuþjóðir, 19 Vestur-Evrópuþjóðir (þar með talin smáríkin Andorra og Mónakó) og svo Ísrael og Tyrkland, sem ég kann satt að segja ekki að flokka í þessu sambandi.
23 þjóðir kepptu í undankeppninni; 12 Austur-Evrópuþjóðir og af þeim komust sex áfram, og 11 Vestur-Evrópuþjóðir (Tyrkland þar með talið) en af þeim komust fjórar áfram.
Varla dettur nokkrum manni í hug að segja að hlutfallið þar hafi verið sérstaklega óeðlilegt.
Í úrslitakeppninni kepptu svo aðrar 24 þjóðir: 10 Austur-Evrópuþjóðir og 14 Vestur-Evrópuþjóðir og í tíu efstu sætunum lentu svo að lokum sex Austur-Evrópuþjóðir og fjórar Vestur-Evrópuþjóðir.
Nú er ég enginn líkindafræðingur en þegar þetta hlutfall er skoðað er varla hægt að halda því fram af mikilli hörku að það sé skítalykt af þessu öllu saman - sérstaklega ekki þegar haft er í huga að Vestur-Evrópuþjóðin Finnland fór með sigur af hólmi - og með nokkrum yfirburðum meira að segja.
En fyrir þá sem hafa gaman af samsæriskenningum þá er rétt að benda á það að eitt landsvæði í Evrópu sker sig úr og á þetta benti Stefán Pálsson á síðu sinni daginn fyrir aðalkeppnina:
"Fjögur af Norðurlöndunum fimm verða með í úrslitakeppninni annað kvöld. Það er 80%. Þetta er augljóslega galið hlutfall og ætti að kalla á umræður um það hvort ekki sé einhver meinsemd í keppnisfyrirkomulaginu sem hygli lögum frá Skandinavíu sérstaklega.
En nei - vegna þess að eitt Norðurlandanna fimm féll úr keppni, þannig að þau ná ekki 100% þátttökuhlutfalli í úrslitum, þá er þetta orðin Söngvakeppni Austur-Evrópu..."
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)