21.3.2007 | 21:38
Meðvituð fávísi
Fékk allsérstaka hringingu niður á Mogga í fyrradag. Í símanum var ungur maður - hann sagði hvorki til nafns né aldurs - sem var afar óánægður með Morgunblaðið fyrir að ljóstra upp um endalok kvikmyndarinnar 300 í fyrirsögn sem hljóðaði svo: "Helköttaðar hetjur deyja".
Eftir að hafa gengið úr skugga um að þarna væri ekki um símaat að ræða, benti ég þessum unga manni á þá staðreynd að orustan á milli Spartverja og Persa hafi í raun átt sér stað og úrslit hennar væru öllum ... eða flestum kunn. Það hafði engin áhrif, honum fannst þetta ömurlegt af okkur og sá heldur enga samsvörun við Titanic eða The Passion of the Christ.
Gott og vel, sagði ég að lokum, þakkaði honum fyrir að hringja og sagðist ætla að taka kvörtun hans til íhugunar.
Sem ég og svo gerði þá um kvöldið þegar ég fór í bíó. Af fjórum myndbrotum sem sýnd voru á undan aðalsýningu gat ég viss um hvernig þrjár þeirra myndu enda og þegar ég fór svo að rifja upp aðrar myndir sem ég hafði leigt á undanförnum vikum, lá það oftast ljóst fyrir á sjálfu umslaginu hvernig tiltekin mynd myndi enda.
Sama átti við um bækur þegar ég hugsaði út í það, svo ekki sé talað um allar stóru heimsbókmenntirnar sem öllum er ljóst hvernig enda. Sem fékk mig svo til að álykta (e.t.v. svolítið seint) að þráin eftir hinu óvænta er, þegar á botninn er hvolft, skilyrt af meðvitaðri fávísi.
Jæja, ... ætli ég láti ykkur ekki fá þetta ókeypis.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:41 | Facebook
Athugasemdir
Ég játa að mér fannst frekar ósmekklegt að láta þetta koma fram í gagnrýni Moggans á svona afgerandi hátt, enda er kvikmyndin byggð á teiknimyndasögu sem er byggð á kvikmynd sem aftur á móti er byggð á sögulegum staðreyndum. Titanic og The Passion of the Christ voru auglýstar á þeim forsendum að allir vissu að Titanic myndu sökkva (en ekki hverjir myndu lifa af) og allir vita að Píslarganga Jesús endar með dauðu og upprisu Jesús. Ekki sambærilegt, og ég hefði sjálfur ekki verið ánægður að lesa þessa gagnrýni áður en ég fór á myndina. Ég var hins vegar það heppinn að sjá hana áður en þessi gagnrýni birtist. Mér finnst að það ætti að forðast svona texta sem getur mögulega spillt söguþræði kvikmynda. Sjálfur þekkti ég ekki þessa sögu um Spartverjana 300 áður en ég sá hana, vissi bara af henni og hafði ekki hugmynd um hvernig hún myndi enda.
Hrannar Baldursson, 22.3.2007 kl. 10:38
Ég las gagnrýnina og sá ekkert athugavert við hana... Því að myndin, sem þrátt fyrir allt, er byggð á atburðum sem áttu sér stað í raunveruleikanum.
Hallgrímur Egilsson, 22.3.2007 kl. 14:47
einmitt hlakkaði ég ógeðslega til að sjá keanu beibí í lake house en svo þegar ég sá treilerinn í annað skiptið fattaði ég plottið og er ekki enn búin að sjá hana. sem er kreisí því keanu er hott!!!
en samt...þú hefur vakið mig til umhugsunar. hvernig dílar hún við dauða hans? verða þau endalaust platónskir elskendur eða bíddu...var hann í fram eða fortí...hann var í fortíð. úúú...það er fullt sem ég get komist að þó ég viti að hann sé dauður.
hössi...takk fyrir þetta!!!! loksins get ég tekið lake house og verið sátt við það. takk!
beta (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 16:11
Saga þessi um Spartverjana þrjú hundruð er reyndar byggð á munnmælum og sögusögnum og trúlega ekki þrjú hundruð vasaklúta virði, þar sem um ætlaða hetjudáð er að ræða. Sannleikurinn í málinu fæst ekki fyrr en dómur gengur í því uppi í Hæstarétti, þegar búið er að dæma þar í Geislabaugsmálinu, og mun sannleikurinn gera oss frjálsa. Nýrri tegund af hetjudáðum ruglar hins vegar nútímafólk í ríminu, hin ameríska hetjudáð sem felst í að lifa dauðann af æ ofan í æ. Slíkt óverlifelsi tókst einungis einum manni hér áður fyrr, og það bara einu sinni, en þetta atriði þótti svo merkilegt að heill trúflokkur var byggður í kringum þennan mann. Hins vegar hefur slík hetjudáð nú sama status og hvert annað ómerkilegt trix og er orðin að algjörrri flatneskju, nema hjá fylgismönnum annars spámanns, sem fórna nú lífi sínu til að öðlast betra líf, þar sem ekki er þverfótað fyrir fimmtíu tommu flatskjám og hreinum meyjum.
Steini Briem (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 00:10
Þetta er samt ekki saga sem allir læra eða hafa sérstakan áhuga á fyrir utan bíómyndina!
Góð regla er að horfa aldrei á auglýsingar úr nýjum myndum, ég loka augum ef auglýst er mynd sem ég hef áhuga á að sjá! Enda er kvikmyndaauglýsingar afburða heimskulega gerðar yfirleitt, nema þessi 300 mynd, hún fékk mjög skemmtilega auglýsingu (trailer) sem sagði ekki mikið en kveikti áhuga hjá mér!
Annars fannst mér flest blöð skrifa OF mikið um myndina og söguna bakvið hana áður en almenningur fékk færi á að sjá hana!
Addi (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 12:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.