28.3.2007 | 17:06
Það er ekkert til sem heitir tilviljun
Mannkyninu er umhugað um reglu. Án hennar gengi það af göflunum. Grikkir til forna voru mjög meðvitaðir um þessa tilhneigingu og leituðu því logandi ljósi að einhvers konar alheimsreglu eða formúlu sem virkaði jafnt í náttúrunni og í hinni andlegu tilvist manneskjunnar. Á einhvern hátt áttu vísindin að útskýra tilganginn á sama hátt og trúarbrögðin gera fyrir þorra mannkyns í dag.
Pýþagóras gekk manna lengst í þessu í fornöld og reyndi með afli að sníða veröldina að kenningum sínum um stærðfræðina. Sagan segir að hann hafi með áhrifum sínum orðið nemanda sínum að bana sem ekki gekkst undir kenningar hans.
Ég rakst á þessa mynd á netinu sem sýnir ef til vill innsta kjarna tilveru okkar. Þetta er atómsprengja einhverjum millisekúndum eftir að hún hefur verið sprengd og yfirborðshiti sprengingarinnar er rúmar 20.000 gráður á celsíus.
Sprotarnir sem ganga niður úr sprengingunni kallast Rope Trick Effect á ensku en það sem heillar mig er lögunin sem sprengikúlan myndar. Ekki mikla reglu eða samhverfu að finna í þessari mynd. Þó gæti verið að hlutfallið milli ummáls og þvermáls kúlunnar sé jafnt og pí og þá yrði Pýþagóras glaður - en ég veit það ekki.
En minn punktur er þessi: Minnir þessi kúla ekki nokkuð á höfuðkúpu?
Tilviljun? Regla? Eða guð að leira?
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:52 | Facebook
Athugasemdir
Kannski Einstein hafi haft rétt fyrir sér eftir allt saman að guð kasti ekki teningum
Hafþór H Helgason, 28.3.2007 kl. 18:04
Mér sýnist nú þetta vera nokkuð fullkomið form að brjótast úr ham annars forms. Það er einskonar sporöskjulaga hnöttur. Þenslan er meiri út til hliðanna og nálgast raunlögun jarðar í sjálfu sér. (fóstur var einnig eitthvað, sem kom í hugann).
Mögnuð mynd og segir okkur kannski meira um stærra samhengi heimsins en stórir sjónaukar.
Jón Steinar Ragnarsson, 28.3.2007 kl. 18:40
Þetta er ekki tilviljun, þetta er pareidolia !
Matthías Ásgeirsson
Matti (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 23:20
En þar með heldurðu því fram að þetta sé tilviljun, ekki satt?
Höskuldur Ólafsson (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 23:25
Pareolia?? Það er jú tilviljun Mattías. Svo sér enginn neitt geistlegt við þetta held ég. Ekki einu sinni tröllsandlit eða fossbúa.
Annars vildiég bara bæta við að ég hef séð myndir af sprengingum í vatni, sem sýna svipaðan effekt.
Jón Steinar Ragnarsson, 29.3.2007 kl. 02:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.