Sigið til hnignunar

bitlarnir.jpg
Í dómi sem ég skrifaði um tónleika Supergrass á tónlistarhátíðinni Reykjavík Trópík, og birtist í Morgunblaðinu í gær, minntist ég á þá umræðu sem nú fer fram um hnignun hljómleikaiðnaðarins á Íslandi. Skipuleggjendur tónleika með erlendum hljómsveitum, virðast í síauknum mæli, vegna dræmrar miðasölu, neyðast til að flytja tónleika úr stórum íþróttamannvirkjum í smærri samkomuhús eða einfaldlega blása tónlistarviðburðinn af, eins og gerðist með tónlistarhátíðina Reykjavík Rokkar sem fara átti fram um mánaðamótin júní, júlí. Þessi þróun hlýtur að vera þessum sömu skipuleggjendum mikið áhyggjuefni því eins og gefur að skilja, eru háar fjárhæðir eru í húfi. En hvað veldur?
 
Eftir dulitla umhugsun hygg ég að grundvallarþættir núverandi ástands séu þrír:
Í fyrsta lagi ber að nefna það sem kalla má „upplýsta hegðun neytenda“, þ.e.a.s. að íslenskir tónleikagestir séu orðnir betur upplýstir um gæði framboðsins og velti því frekar fyrir sér hvort það sé fyrirhafnarinnar virði að sækja einstaka tónleika með tilliti til tíma og fjárhags. Hér áður fyrr má segja að Íslendingar hafi snobbað fyrir erlendum tónlistarmönnum og undantekning var ef illa seldist á hljómleika þeirra. Nú er öldin önnur – aukið framboð síðustu missera hefur mettað markaðinn með þeim afleiðingum að þær forsendur sem skipuleggjendur tónleika gáfu sér áður, reynast úreltar í dag.
Í þessu sambandi skiptir varan (hljómsveitin) aðalmáli.
 
Önnur ástæðan kemur í beinu framhaldi af þeirri fyrstu og gengur út á hæfileika skipuleggjandans til að lesa í eftirspurnina, umfang markaðarins og haga þannig kostnaði við hljómleikana í samræmi við þá spá. Þeir Íslendingar sem farið hafa á tónleika með vinsælum tónlistarmönnum í útlöndum furða sig stundum á því að meðalaðsókn er ekki mikið meiri en 3.000 tónleikagestir. Vinsælir tónleikastaðir á borð við Razzmatas í Barcelona, Palladium og Dominium í London taka rétt rúmlega 2.000 gesti en þar koma stórar hljómsveitir fram á hverju ári. Og þá liggur beint við að spyrja; af hverju ættu fleiri íslenskir tónleikagestir að sækja slíka hljómleika?
Það sem áður hefur verið kallað hnignun hljómleikamarkaðarins, gæti þess vegna í raun verið tilhneigin hans til að rétta sig af með tilliti til raunverulegs fjölda neytenda.
Í þessu sambandi skiptir staðsetning tónleikanna aðalmáli.
 
Þriðja og síðasta ástæðan er bundin við ákveðið ástand í þjóðfélaginu sem snýr að fjárhag heimilanna. Í ljósi aukinnar skuldastöðu almennings og spár um válynda tíma í efnahagsmálum þjóðarinnar, er ekki óvitlaust að gera ráð fyrir því að þeir markaðir sem að algerum hluta snúast um dægradvöl, séu þeir fyrstu til að fara halloka – og öfugt, ef um mikla hagsæld er að ræða.
Iðnaður á borð við hljómleikaiðnaðinn er afar viðkvæmur fyrir sveiflum í hagkerfinu og þegar skóinn kreppir (eða þá að blikur séu á lofti um að það muni hann gera) er almenningur gjarn á að láta hluti eins og leikhús, tónleika og kvikmyndahús mæta afgangi.
Í þessu sambandi skiptir miðaverð á tónleikana aðalmáli.
 
Að sjálfsögðu verða allir þessir þættir að ganga upp svo að einstakir hljómleikar standist væntingar og aðrir hlutir á borð við auglýsingar og tímasetningu geta einnig skipt töluverðu máli.
Hins vegar má af þessari greiningu sjá að í stað þess að talað sé um hnignun hljómleikamarkaðarins á Íslandi, væri réttara að segja að hann hefði nú fyrst náð jafnvægi – nú fyrst hagar hann sér eins og hljómleikamarkaðir annars staðar í heiminum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur N. Sigurðsson

Skuldastaða heimilinna hefur ekkert með þetta að gera..

Það er rétt að svona solid tónleikastaðir úti allaveganna í evrópu eru oftast ekkert að taka meira en 2500 manns inn, en samt sem áður er megnið af vinsælum böndum frá bandaríkjunum þarsem svona festivöl eru að ríða feitum hesti þarsem 35.000 manns mæta kannski eða eitthvað..

En hvað varðar dræmt gengi hérna á tónleika þá er bara ein einföld ástæða fyrir því .. menn eru alveg algerlega ekki með púlsinn á hvað er heitt í dag. Bara sorrí, ætla ekki að móðga neinn .. en Motorhead? come on.

Veit ekki hvað þetta lið er að pæla, ef þeir vilja fara fá einhverja sure hitters þá þurfa þeir að fara kynna sér meira hvað er heitt, og reyna að koma því það hratt í verk að það verði ekki ó-heitt áður en tónleikarnir koma.

Svo ég meina .. væri alveg vel til í að sjá einhvern leggja í að halda _almennilegt_ rokkfestival hérna, fá einhver 3-4 erlend bönd og svona 6 íslensk og gera bara solid dagskrá frá segjum 16.00 - 24.00.

Þetta snýst allt um að hugsa bara aðeins :D

Ólafur N. Sigurðsson, 6.6.2006 kl. 18:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband