Lofsöngvar á HM

HM

Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu er í algleymingi um þessar mundir. Þrjátíu og tvö knattspyrnulið jafnmargra þjóðlanda eru samankomin í Þýskalandi og innan mánaðar (9. júlí) mun ein þjóð standa uppi sem sigurvegari í vinsælustu íþrótt veraldar.

Menningarvitar um allan heim keppast nú við að listgera knattspyrnuna eins og lög gera ráð fyrir á póstmódernískum tímum og sýnist sitt hverjum um þær tilraunir. Ég hef svo sem lítið út á þá umræðu að setja þó að í mínum huga sé knattspyrna fyrst og síðast keppnisíþrótt og tæplega vill nokkur menningarviti heimfæra það upp á listirnar - eða hvað?

En það er önnur listgrein sem töluvert fer fyrir á heimsmeistarakeppninni í Þýskalandi. Nefnilega tónlist. Áhorfendur að keppninni gera sér e.t.v. ekki grein fyrir því en nákvæmlega 128 sinnum verða þjóðsöngvar landanna fluttir í Þýskalandi - níutíu og sex sinnum í riðlakeppninni og þrjátíu og tvisvar sinum í úrslitakeppninni. Þá hefja tugþúsundir áhorfenda sem mættir eru á völlinn upp raust sína og kyrja sönginn með stolt í brjósti við undirleik lúðrasveitar. Það má svo eflaust halda því fram - ef gert er ráð fyrir að stór hluti almennings í hverju landi syngi með fyrir framan sjónvarpstækin - að á þessum 30 dögum sem keppnin fer fram muni einn sögulegasti fjöldaflutningur á þjóðsöngvum fara fram.

Sögu þjóðsöngsins má rekja aftur til síðari hluta 16. aldar þegar hollenskir héraðshöfðingjar risu upp gegn spænskri stjórn í stríði sem síðar var kallað 80 ára stríðið. Söngurinn, sem enn er sunginn í Hollandi, var kallaður "Het Wilhelmus" í höfuðið á Vilhjálmi frá Nassau (e.t.v. betur þekktur sem Vilhjálmur af Óraníu) en textinn er byggður upp "akrostískt" þar sem fyrstu stafir hvers erindis mynda orðin Villem van Nassov.

Með fjölgun þjóðríkja í Evrópu á síðustu og þarsíðustu öld tóku æ fleiri þjóðir upp sinn eigin þjóðsöng og þegar nýlenduþjóðirnar fóru tilneyddar að taka upp innflutta siði voru þjóðsöngvar samdir að evrópskri fyrirmynd - eins og margir hafa eflaust tekið eftir í tilviki Afríkuþjóðanna á HM. Nú til dags eru aðeins örfáar þjóðir utan Evrópu sem byggja þjóðsöngva sína á innlendri tónlistarhefð en þær eru Japan, Kosta Ríka, Íran, Sri Lanka og Búrma.

Þvert á hugmyndir margra hafa fáir þjóðsöngvar verið samdir af þekktum tónskáldum. Fáir kannast til dæmis við Claude Joseph Rouget de Lisle, sem samdi "La Marseillaise", og þá var laglínan við bandaríska þjóðsönginn, "The Star-Spangled Banner", fengin að láni frá öðru lagi sem kallast "To Anacreon in Heaven" eftir hið annars óþekkta enska tónskáld John Stafford Smith. Merkilegra er þó kannski að enski þjóðsöngurinn, "God Save the Queen", var saminn af manni, hvers nafn er fyrir löngu fallið í gleymskunnar dá. (Sama laglína er sungin við vísuna "Eldgamla Ísafold" eftir Bjarna Thorarensen og var um tíma eiginlegur þjóðsöngur okkar.)

Á hinn bóginn var þýski þjóðsöngurinn, "Gott erhalte Franz den Kaiser" (í dag "Das Lied der Deutschen"), saminn af hinu þekkta tónskáldi Joseph Haydn og svo vilja Austurríkismenn trúa því að sjálfur Wolfgang Amadeus Mozart hafi samið þjóðsöng þeirra þó að skotheldar heimildir finnist ekki víða um það.

Hér á landi hefur þjóðsöngurinn lengi verið umdeildur. Margir agnúast út í laglínuna, sem er eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, en hún þykir mjög erfið til söngs þar sem tónbilið (frá dýpsta tóni til þess hæsta) spannar víðara söngsvið en hinn almenni söngvari ræður við. Enn aðrir hafa látið texta lagsins fara fyrir brjóstið á sér en þar er um sálm að ræða, og trúarlegan mjög, sem sumum finnst ekki við hæfi. Þess utan hefur athygli verið vakin á því að í fyrsta erindi gerist Matthías Jochumsson sekur um hugsunarvillu þar sem eilíft smáblóm deyr; "...eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár/sem tilbiður guð sinn og deyr."

Hann er væntanlega ekki sá eini sem gerist sekur um slíkt í sögu kristinnar hugmyndafræði.

En hvort sá dagur rennur upp að "Lofsöngur" Matthíasar og Sveinbjörns verði sunginn á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu skal ósagt látið.

Það er í það minnsta nægur tími til að íhuga aðra kosti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband