Mafíósar í Evróvisjón

Eurovision Verka Serduchka - Úkraínska lagið"Austantjaldsmakk" og "mafíósa-skapur Balkanþjóðanna" var á meðal þess sem féll af vörum margra vonsvikinna Íslendinga þegar ljóst varð að níu af þeim tíu lögum sem komust áfram í aðalkeppnina sem fram fer í kvöld voru flutt af austur-evrópskum þjóðum. Sjálfur lýsti Eiríkur því yfir í Sjónvarpinu að lokinni undankeppninni og í Morgunblaðinu í gær, að "austanblokkin" ætti orðið keppnina og að við ættum ekki séns í svona mafíu. En broslegast af öllu var nú þegar Eiríkur hvatti landa sína til að beita sömu mafíubrögðum í kosningunni í kvöld – eins og það hafi ekki verið tilfellið hingað til.

Svipuð orð voru látin falla um Austur-Evrópu í fyrra þegar Silvía Nótt komst ekki áfram en þegar betur var rýnt í úrslitin var ljóst að hlutur Vestur-Evrópuþjóðanna var síst minni, svo ekki sé minnst á að Finnar, sem eru bæði Vestur-Evrópu- og Norðurlandaþjóð, fóru með sigur af hólmi í Aþenu!

En eitt sagði Eiríkur í viðtali við Morgunblaðið í gær sem vakti sérstaka athygli mína og það var að hann hefði alltaf verið á móti sms-kosningu. Með því á hann auðvitað við að íbúar þeirra Evrópuþjóða sem taka þátt í keppninni láti í raun ekki gæði lags eða flutnings ráða því hverjum þeir greiða atkvæði sín – þjóðirnar séu í raun vanhæfar til að kjósa eftir bestu samvisku. Hvort þetta á við rök að styðjast veit ég ekki en verður ekki að játast að með þessum ummælum gefi hann líka gott færi á sjálfum sér og fyrirkomulagi undankeppninnar hér heima, því íslenska þjóðin var í raun bullandi vanhæf til að kjósa besta lagið í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Meirihluti þeirra sem ég talaði við í aðdraganda keppninnar hugðist kjósa "Ég les í lófa þínum" (Valentine Lost) út af Eika Hauks – hann væri svo góður kall, "flottur rokkari með eldrauðan makka". Lagið sjálft virtist hins vegar ekki skipta miklu máli, enda harla ómerkilegt þegar öllu er á botninn hvolft.

Það er svo sem skiljanlegt að þjóðin og Eiki Hauks séu tapsár eftir fimmtudaginn en er ekki kominn tími til, í ljósi reynslunnar af Evróvisjón, að við lærum að tapa?

Af listum 12.05

Við þetta má svo bæta að í Morgunblaðinu á morgun verður birt áhugaverð tafla yfir úrslit keppninnar ef atkvæði Austantjaldsþjóðanna eru ekki talin með.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband