14.5.2007 | 17:59
Mafíósar í Evróvisjón
Svipuð orð voru látin falla um Austur-Evrópu í fyrra þegar Silvía Nótt komst ekki áfram en þegar betur var rýnt í úrslitin var ljóst að hlutur Vestur-Evrópuþjóðanna var síst minni, svo ekki sé minnst á að Finnar, sem eru bæði Vestur-Evrópu- og Norðurlandaþjóð, fóru með sigur af hólmi í Aþenu!
En eitt sagði Eiríkur í viðtali við Morgunblaðið í gær sem vakti sérstaka athygli mína og það var að hann hefði alltaf verið á móti sms-kosningu. Með því á hann auðvitað við að íbúar þeirra Evrópuþjóða sem taka þátt í keppninni láti í raun ekki gæði lags eða flutnings ráða því hverjum þeir greiða atkvæði sín þjóðirnar séu í raun vanhæfar til að kjósa eftir bestu samvisku. Hvort þetta á við rök að styðjast veit ég ekki en verður ekki að játast að með þessum ummælum gefi hann líka gott færi á sjálfum sér og fyrirkomulagi undankeppninnar hér heima, því íslenska þjóðin var í raun bullandi vanhæf til að kjósa besta lagið í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Meirihluti þeirra sem ég talaði við í aðdraganda keppninnar hugðist kjósa "Ég les í lófa þínum" (Valentine Lost) út af Eika Hauks hann væri svo góður kall, "flottur rokkari með eldrauðan makka". Lagið sjálft virtist hins vegar ekki skipta miklu máli, enda harla ómerkilegt þegar öllu er á botninn hvolft.
Það er svo sem skiljanlegt að þjóðin og Eiki Hauks séu tapsár eftir fimmtudaginn en er ekki kominn tími til, í ljósi reynslunnar af Evróvisjón, að við lærum að tapa?
Af listum 12.05
Við þetta má svo bæta að í Morgunblaðinu á morgun verður birt áhugaverð tafla yfir úrslit keppninnar ef atkvæði Austantjaldsþjóðanna eru ekki talin með.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:00 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.