Skuggahliðar hagfræðinnar

AND-amerískar bókmenntir hafa notið mikilla vinsælda á undanförnum árum og svo margar eru útgáfurnar á ári hverju, að byrjað er að tala um sérstakt "genre" eða svið bókmennta. Ljóst er að stefna Bush-stjórnarinnar í utanríkismálum hefur ýtt undir þann and-ameríska áróður sem hvarvetna má heyra í umræðunni en þvert á það sem margir halda er Bush-stjórnin ekki upphaf alls "ills".

Utanríkisstefna Bandaríkjanna hefur í stórum dráttum ekki breyst mikið á síðustu 200 árum en það hefur heimurinn aftur á móti gert og með auknum viðskiptum landa í milli og tækniframförum, eru átök sem áður afmörkuðust við heimshluta byrjuð að hafa víðtæk áhrif um heim allan.

John PerkinsBókin Confessions of an Economic Hit Man er ólík öðrum and-amerískum bókum að því leyti að í stað "fræðilegrar" úttektar á hinu "illa" stórveldi er hér um að ræða endurminningar viðskiptafræðingsins Johns Perkins (sjá mynd) sem starfaði fyrir bandaríska ráðgjafafyrirtækið Chas T. Main Inc. (MAIN) sem á sjöunda og áttunda áratugnum annaðist rannsóknir á hagkerfum ýmissa þróunarlanda fyrir fjármálastofnanir á borð við Alþjóðabankann.

Perkins var sendur út af örkinni til landa á borð við Indónesíu, Ekvador, Íran, Kúvæt og Panama og í stað þess að meta raunverulegar þarfir ríkjanna var honum gert að ofmeta þessar sömu þarfir og kostnað vegna tilheyrandi uppbyggingar og þróunaraðstoðar.

Að sögn Perkins var tilgangurinn tvískiptur. Annars vegar var hann sá að fá ráðamenn þessara ríkja til að samþykkja himinhá lán alþjóðabanka sem voru bundin þeim skilmálum að uppbyggingunni yrði stýrt af bandarískum verkfræðifyrirtækjum á borð við Bechtel, Enron og Halliburton. Hins vegar var hugsunin sú að ýta þessum löndum út í slíkt skuldafen að þegar kæmi að skuldadögum og ljóst væri að ríkin gætu ekki reitt af hendi borgun, væru þau þvinguð til að opna hagkerfi sitt fyrir bandarískum iðnaði og/eða leggja til stuðning sinn við stefnu Bandaríkjanna á alþjóðasviðinu – svo sem í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

James MonroePerkins dregur upp afskaplega mannfjandsamlega mynd af stefnu bandarískra stjórnvalda sem hann kallar "corporatocrazy", sem útleggst e.t.v. sem fyrirtækjaræði. Hún helgast af því að í gegnum árin (og við þessu vöruðu þeir menn sem smíðuðu stjórnarskrá Bandaríkjanna) hefur stórfyrirtækjunum tekist að má út þau mörk sem í upphafi voru sett á milli alríkisins og þeirra sjálfstæðu fjármálastofnana sem innan ríkisins starfa.

Þannig hafa hagsmunir bandarískra stórfyrirtækja í fjarlægum löndum verið verndaðir af bandarískum stjórnvöldum í krafti pólitískra áhrifa og hermáttar. Þessi stefna er nú á tímum mjög skýr, að mati Perkins og áhrifa hennar má sjá í Írak, Sádi-Arabíu og mörgum löndum Mið-Ameríku; en þar og í Suður-Ameríku hafa Bandaríkin – allt frá stjórnartíð James Monroe (sjá mynd) 1817-1825 – áskilið sér rétt til að ráðast inn í hvert það ríki sem ekki styður bandaríska stefnu í álfunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Bragi Kjartansson

Nú er ég hissa!! ég hef nú alltaf verið í hópi þeirra sem hafa haldið að Bandarísk stjórnvöld væru í einlægri baráttu fyrir frelsi og mannréttindum, en í þeim hópi er fólk eins og fyrrum ráðamenn þjóðarinnar; Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson og þeir núverandi reyndar líka að manni virðist.

Þetta hlýtur bara að vera einhver kommúnisti a la Michael More eða eitthvað ;-)

Bjarni Bragi Kjartansson, 22.6.2007 kl. 10:52

2 identicon

Takk fyrir þessa fræðandi og "skemmtilegu" færsu. Mér finnst maður aldrei hafa verið viss hvar maður hefur Bandaríkin á Alþjóðavettvangi en eftir Íraksstríðið og svo augljós tengsl milli stríðsins og fyrirtækja manna eins og Dick Cheny´s fer maður að efast margt. Þessi grein þín styrkir grun manns endanlega að allt snýst þetta um völd hjá US and A. Það sem vekur mest reiði manns er af hverju þessu er ekki gefið meiri gaum og gert eitthvað í málunum. En maður ræðst kannski ekki á ljónin nema með pottþétt plan..

Jóna Rún (IP-tala skráð) 23.6.2007 kl. 18:02

3 identicon

Það er alltaf ráðlegt að efast um allar hliðar á málum.  Lesið um Perkins.  Ég mæli með Wikipedia.   Hann hefur sitt eigið agenda og margar af yfirlýsingum hans standast ekki nánari skoðun.  Það þýðir samt ekki að multinationals hafi ekki ýmislegt óhreint í pokahorninu.

Anton (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 15:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband