25.7.2007 | 13:58
Hetjan sem hataði Hitler
Skömmu eftir miðnætti þann 21. júlí 1944 var Claus von Stauffenberg, undirofursti í þýska hernum (Wehrmacht) leiddur af vopnuðum hermönnum nasista út í hallargarð Stríðsskrifstofunnar í Berlín. Andartaki áður en Stauffenberg var skotinn til bana fyrir landráð, er sagt að hann hafi hrópað: "Es lebe unser geheimes Deutschland" (Lengi lifi okkar leynda Þýskaland). Þessi setning og þá sérstaklega orðið "geheimes" er uppspretta bókar þeirra Michael Baigent og Richard Leigh um hugmyndaheim eins frægasta andófsmanns Þriðja ríkisins; Secret Germany: Stauffenberg and the Mystical Crusade Against Hitler.
Stauffenberg var, eins og frægt er orðið, leiðtogi nokkurra háttsettra, þýskra hermanna sem hugðust ráða Adolf Hitler af dögum í Úlfagreninu, höfuðstöðvum Hitlers í Póllandi. (Hann sést hér lengst til vinstri á myndinni fyrir utan Úlfagrenið þann 15. júlí. Hann hafði þá meðferðis sprengju en ákvað að sprengja hana ekki því Himmler hafði afboðað sig á síðustu stundu. Nauðsynlegt taldist að myrða Himmler líka svo nasistar næðu ekki að endurskipuleggja sig.)
Af þeim rúmlega 40 morðtilraunum sem Hitler lifði af í valdatíð sinni var það sprengjutilræði Stauffenbergs að morgni 20. júlí 1944, sem komst næst því að granda nasistaleiðtoganum og binda þar með enda á seinni heimsstyrjöldina. Hans er enn í dag minnst fyrir hugrekki sitt og réttsýni í Þýskalandi.
Michael Baigent og Richard Leigh eru líklega frægastir fyrir bókina The Holy blood and the Holy Grail sem Dan Brown á að hafa farið ófrjálsri hendi um í Da Vinci lyklinum. Þrátt fyrir að maður ímyndi sér að þeir félagar séu ekki mikið lesnir við sagnfræðiskor Háskóla Íslands er nokkuð ljóst að töluverðar rannsóknir liggja að baki bókinni og þá ekki síst hvað varðar greiningu á þýsku þjóðarsálinni (allt frá dögum Friðriks I Prússakeisara) og þeim hugmyndafræðilega jarðvegi sem ungir menn á borð við Stauffenberg spruttu úr á fyrri hluta 20. aldar.
Hins vegar verður að segjast að leyndardómurinn sjálfur sem lesandanum er lofað í bókartitli ("Mystical Crusade") reynist að lokum ekki eins æðisgenginn og vonir standa til. En bókin er engu að síður upplýsandi um þá tvíhyggju sem finna má í þýsku þjóðinni og birtist meðal annars í einstakri rökhyggju og skipulagshæfni en um leið í andlegri óreiðu og dulhyggju. Hún veitir þar að auki áhugaverða greiningu á helstu lista- og fræðimönnum Þjóðverja á 18., 19. og 20. öldinni með tilliti til þessarar tvíhyggju.
Bókin er ágætlega skrifuð á köflum og þeim Baigent og Leigh tekst nokkuð vel að varpa ljósi á persónu Stauffenbergs. Löstur hennar er þó byggingin sjálf sem er ekki til þess fallin að hinn almenni lesandi haldi út til enda og má ímynda sér að sökin liggi í samstarfi þeirra Baigent og Leigh annað hvort hafi þeir ekki komið sér saman um byggingu bókarinnar eða of lítill tími gefist til að tvinna kaflana saman svo úr yrði heildstæð frásögn.
Saga undirofurstans Claus von Stauffenbergs er merkileg, ekki síst fyrir þær sakir að í persónu Stauffenbergs er að finna þann hluta þýsku þjóðarinnar sem sá í gegnum glæpastjórn Hitlers og fyrirleit allt það sem hún stóð fyrir. Það skal hins vegar látið liggja milli hluta hverju þessi bók bætir við þá sögu.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Góð grein, annars er Erwin Rommel sem bandamenn bundu vonir við að yrði kanslari ef júlítilræðið hefði tekist og var hann orðaður við það.
Svo er það hinn arfaslappi leikari Tom Cruise sem á að leika Claus von Stauffenberg í myndinni Valkirjan og passar hann enganveginn í hutverkið.
Sjá myndir á www.kvikmyndir.is
Kveðja,
Ólafur
ps.
Gott Blogg!
Ólafur Kristján Sveinsson (IP-tala skráð) 25.7.2007 kl. 17:58
Nokkuð góð grein sem lýsir gáfumanni miklum..
Færð 9,5 fyrir stílbragð og 9 fyrir nákvæmni.. þ.e.a.s. ef ég væri prófessor við Sagnfræðideild Háskólans.. sem ég er ekki og hef þ.a.l. ekki hugmynd um hvert þú ert að fara..
En samt.. athyglisvert..
Björg F (IP-tala skráð) 29.7.2007 kl. 16:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.