Af fegurð engla

c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_paris_4.jpg
c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_paris_3.jpg
c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_paris.jpg

Hvílíkt snilldarverk er maðurinn! svo ágætur að vitsmunum! svo takmarkalaus að gáfum! í svip og háttum svo snjall og dásamur! í athöfn englum líkur! í hugsun goðum líkur! prýði veraldar, afbragð alls sem lifir." Þetta lét þunglyndur danaprins eitt sinn hafa eftir sér og gott ef hann skaut ekki nokkuð nálægt markinu.

Ég hef verið að endurskoða afstöðu mína til fegurðarsamkeppna. Ekki svo að skilja að ég hafi haft mjög ákveðnar hugmyndir um tilvist þeirra en þó. Síðan ég man eftir mér hafa fegurðarsamkeppnir virkað mjög skringilega á mig. Sá hugmyndafræðilegi grunnur sem þær byggja á er æði valtur og ég held að flestir taki undir það. En um leið og hugtök eins og hégómi og hallæri koma upp í hugann þegar keppnir í fegurð eru annars vegar, hefur mér líka fundist það einum of auðvelt að afskrifa þær með hjálp slíkra sleggjudóma. Það er margt annað í samfélaginu sem virkar skringilega á mig þó ég leiði það yfirleitt hjá mér. Ég get nefnt hjónabandið sem dæmi og erfðaskattinn en kannski væri andlitsförðun nærtækara dæmi þegar um huglæga hluti á borð við fegurð er að ræða.

Þegar fegurðarsamkeppnir ber á góma er oftar ekki langt að bíða þar til einhver grípur til grísku goðsögunnar um þrætueplið, fyrstu fegurðasamkeppninnar þar sem gyðjurnar Aþena, Afródíta og Hera, börðust með klækjum um hylli Parísar og að með þessari goðsögu sannist að fegurðarsamkeppnir hafi fylgt manninum frá örófi alda. Sem er líklega satt. Fegurð -og mat á fegurð - hefur fylgt mannkyninu frá upphafi og þetta snýst ekki síst um það hvernig mannsheilinn virkar. Hvernig við löðumst frekar að samhverfu en andhverfu. Lífeðlisfræðileg lögmál liggja hér að baki skilst mér, og hver erum við þá að halda því fram að fegurð sé afstæð, ef annað segir heilinn?

Án efa hefur réttindabarátta kvenna orðið til þess að viðhorf okkar til fegurðarsamkeppna hefur breyst. Hér áður fyrr var keppnin samtvinnuð þjóðernisvitundinni alveg eins og aflsmunir Jóns Páls. Við áttum fegurstu konur veraldar og sterkustu karlmennina. Við vorum ósigranleg, fullvalda og stolt af því. En svo fór að halla undan fæti, tíundi áratugurinn gekk í garð og fegurð og aflsmunir féllu í skuggann af Björk - jæja, kannski ekki alveg. Réttindabaráttan barði það inn í hausinn á okkur að kroppasýningar eins og fegurðasamkeppnir ýttu, með einum og öðrum hætti, undir ójöfnuð kynjanna. Nokkuð til í því. Þess ber þó að geta að keppnin um fegursta karlmann Íslands hlýtur að skekkja þá röksemdarfærslu að einhverju leyti. Eða var það allt kannski eitursnjall mótleikur nokkurra dónakalla á Broadway sem vildu halda í kroppasýningarnar?

Annað sem ég held að tengist þessu er að pólitísk rétthugsun hefur tröllriðið vestrænum samfélögum á undanförnum árum og ekki eru allir á eitt sáttir með þá þróun. Á mörgum sviðum samfélagsins er þessi rétthugsun orðin þvingandi. Og hún á ekki síst sök á því að fegurðarsamkeppnir eru í dag taldar hallærislegar. Þær eru taldar óhæfar á þann hátt að í þeim felst staðhæfing sem ekki er pólitísk rétthugsuð, þ.e.a.s. að fegurðin sé ekki afstæð - hún spásseri meira segja á sviðinu þarna, í bikiníi. Svoleiðis hugsunarháttur getur ekki gengið í samfélögum þar sem allir eru jafnir frammi guði. Féllumst við á slíkan hugsunarhátt, væri ekki langt þar til að stéttaskipting kæmist aftur á og það viljum við ekki eða hvað?

En svona hugsun, eða hegðun réttara sagt, á sér samt stað, jafnvel þó að hún sé ekki viðurkennd. Hana má sjá á efnisvali fjölmiðla, í auglýsingum, í stjórnmálum og alls staðar annars staðar þar sem manneskjan sjálf er notuð sem söluvara. Fegurðin er viðurkennd - ekki bara sem afstæður hlutur heldur sem fastmótað form. Að vísu getur þetta form breyst lítillega eftir því hvernig vindar tískunnar blása en þeir vindar blása yfirleitt bara í eina átt í einu. Blaðið í gegnum þetta blað og önnur í nokkra daga og ég fullvissa ykkur um að þið komist á raun um að fallega fólkið fær fleiri dálksentimetra en aðrir. Dálæti okkar mannanna á fegurð er óseðjandi, svo einfalt er það.

Vandamálið með fegurðarsamkeppnis-umræðuna sem reglulega skýtur upp kollinum, er að hún skiptist ávallt í átök tveggja fylkinga. Þetta verður til þess að annað hvort er maður brennimerktur sem femínisti eða það sem á ensku kallast sexist og er illþýðanlegt. Ég á erfitt með að tengjast hvorum hópnum. Óræð tengsl kvenlegrar fegurðar og undirgefni við karlkynið er tímaskekkja sem þyrfti að útrýma úr okkar menningu hið fyrsta en fegurðin sem slík er ekki af hinu illa. Ef þeir eru til þeir sem dreymir um að keppa í fegurð er það þeirra mál. Fyrir mér er það einfaldlega spurning um lífsstíl. 

"Prýði veraldar, afbragð alls sem lifir," er haft eftir prinsinum danska í upphafi pistilsins en tilvitnunin er í heild sinni lengri og endar svo; "og þó hvers virði er mér þessi duftsins kostakjarni? Maður er ekki mitt gaman; nei ekki kona heldur." Ég held barasta að ég sé honum líka sammála þar.


c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_paris_4.jpg
c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_paris_2.jpg

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband