30.10.2007 | 10:56
Llosa hittir aftur í mark
SAMKVÆMT Gegni (samskrá íslenskra bókasafna) hefur aðeins ein skáldsaga eftir perúska rithöfundinn Mario Vargas Llosa verið þýdd á íslensku. Það hlýtur að þykja undarlegt í ljósi þess að Llosa hefur um langt skeið verið höfuðskáld Perú og skipar sér nú á bekk með Marques, Borges, Rivera og Paz sem einn merkasti rithöfundur Rómönsku-Ameríku.
En þó nafn Llosa hljómi kunnuglega í eyrum margra sem fylgjast með bókmenntum (þá líklega í samhengi við glóðaraugu sem Llosa veitti Gabriel Garcia Marques um árið) eru þeir eflaust færri hér á landi sem hafa lesið í einni af 16 skáldsögum rithöfundarins sem einnig þykir afar flinkur ritgerðasmiður, blaðamaður og listgagnrýnandi.
Í bókinni Making Waves sem kom út árið 1996 er að finna safn greina, fyrirlestra og ritgerða sem Llosa hefur skrifað á sínum ferli og veitir bókin nokkuð góða sýn inn í þau margvíslegu málefni sem Llosa hefur tekið á í skáldverkum sínum. Sem dæmi má nefna innblásna lýsingu á knattleikni Maradona sem Llosa fylgdist með af aðdáun á HM á Spáni árið 1982, grein um óumflýjanlega spillingu kúbversku byltingarinnar, frásögn af heimsókn til spænska kvikmyndagerðarmannsins og súrrealistans Luis Bunuel, greiningu á bandarísku samfélagi með tilliti til John Wayne Bobbitt málsins og hrikalega frásögn af morði á sjö perúskum blaðamönnum sem voru teknir í misgripum fyrir liðsmenn Sendero Luminoso herskárra samtaka maóista sem héldu stórum hluta Perú í skelfingargreipum í rúman áratug, undir lok síðustu aldar.
Fyrir áhugmenn um bókmenntir er þó fróðlegast að lesa greiningu Llosa á nokkrum helstu rithöfundum vestrænna bókmennta sem hann varpar oftar en ekki nýju ljósi á. Eina grein frá 1988 er til að mynda að finna um nýjasta Nóbelsverðlaunahafann Doris Lessing og skáldverkið The Golden Notebook sem Llosa segir að svipi nokkuð til skáldsögu Simone de Beauvoir Les Mandarins en sé þó mun betur skrifuð og djúpviturri í skilningi sínum á árunum eftir síðari heimsstyrjöld. Í annarri ritgerð tekst Llosa á við smásagnasafn James Joyce, Dubliners og fullyrðir þvert á hefðbundna skoðun manna að "The Dead" sé ekki besta saga bókarinnar. Á öðrum stað finnur hann hliðstæðu á milli samfélags perúskra frumbyggja og samfélags Yoknapatawpha-sýslu í skáldverkum Williams Faulkner og enn annars staðar er að finna stórskemmtileg bréf til rithöfundanna Salmans Rushdie og Gunthers Grass.
Alls 46 greinar og ritgerðir á hátt í 400 blaðsíðum sem synd væri að fara á mis við þrátt fyrir lítinn áhuga íslenskra þýðenda á höfundinum.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.