Er enn setið að sumbli?

Um miðja 19. öld sátu nokkur frönsk tónskáld að sumbli á veitingastað í Parísarborg. Þegar kom að því að gera upp í lok kvölds varð tónskáldunum ljóst að þeir áttu ekki fyrir reikningnum sem var orðinn allhár. Datt þá einu tónskáldanna það snjallræði í hug að í raun væri ekki þörf á að greiða fyrir veitingarnar því að nokkur af tónverkum þeirra er þar höfðu drukkið, höfðu verið leikin á staðnum um kvöldið og þar af leiðandi ættu þeir kröfu á greiðslu sem ekki væri lægri en skuld þeirra við veitingastaðinn. Málið endaði fyrir dómara sem að lokum dæmdi tónskáldunum í vil á grundvelli höfundalaga sem sett höfðu verið í Frakklandi um hálfri öld áður, en hafði að mestu verið dauður bókstafur fram að þessu.

Þessi einstaki viðburður þykir marka tímamót í höfundarréttarbaráttu tónskálda því í kjölfarið fór af stað bylgja í Evrópu sem endaði með stofnun höfundarréttarsamtaka tónskálda í flestum Evrópulandanna. Hér náði bylgjan ekki ströndum fyrr en 100 árum síðar. Án þess að ég ætli hér að rekja sögu STEFs í smáatriðum er ljóst að mikill styr hefur staðið um sambandið frá stofnun þess árið 1948. Fram að því hafði fólk litið á tónlist sem almenningseign og það væri merki um mikilmennskubrjálæði og í sumum tilvikum græðgi að tónsmiðir krefðust greiðslna fyrir flutning á höfundarverkum sínum. Mikið vatn hefur runnið til sjávar á síðustu 60 árum þó að margt sé enn óunnið í þeim málum, svo sem mismunun á vægi tiltekinna tegunda tónverka. En það er önnur saga.

Í Morgunblaðinu á sunnudag (20.janúar) kom fram í viðtali við Kára Sturluson umboðsmann, að tónskáld sem hann er í forsvari fyrir eru ósátt við samning sem STEF hefur gert við ljósvakamiðla og gerir miðlunum kleift að nota höfundarverk þeirra í dagskrárauglýsingum að tónskáldunum forspurðum. Vill Kári meina að bæði siðferðisleg og fjárhagsleg rök mæli gegn slíkum samningi. Kári hefur að mínu mati nokkuð til síns máls. Í nútíma markaðssamfélagi eru tengsl milli vörumerkja orðin æ mikilvægari og það getur haft mikil áhrif á vinsældir og markaðssetningu tónverka að rétt sé haldið á vörumerkjastjórnun (brand management) þeirra. Í þessu sambandi getur það verið tónskáldi til vansa að tónverk þess sé tengt vörumerki – í þessu tilviki dagskrárlið – sem er því (eða markhópi þess) ekki að skapi. Þetta kallar Kári á mannamáli, siðferðileg rök.

Það sem Kári kallar fjárhagsleg rök eru þessari vörumerkjastjórnun einnig tengd. Fyrirtæki gæti haft augastað á að tengja sig ákveðnu tónskáldi sem nýtur vinsælda og fyrir leyfi til þess að nota tónverk tónskáldsins í sjónvarpsauglýsingu er fyrirtækið tilbúið til að reiða af hendi töluverðar fjárhæðir. En hvaða áhrif ætli það hafi á áhuga fyrirtækisins þegar Sjónvarpið byrjar stuttu áður að nota sama tónverk í dagskrárauglýsingu fyrir Kastljósið? Svarið er augljóst og þær fjárhæðir sem tónskáldið færi á mis við yrðu töluverðar. Með öðrum orðum, markaðsvirði tónverksins hefur rýrnað og samningur STEFs hlýtur að vera orsök þeirrar rýrnunar. Hver er til dæmis skaðabótaréttur tónskáldsins í þessu sambandi? Gæti einhver spurt sig.

Eftir því sem næst verður komist felur umræddur samningur í sér að ljósvakamiðlum er heimilt að flytja hvaða tónlist sem er, innlenda sem erlenda, þ.á.m. í kynningum á einstökum sjónvarpsþáttum. Fyrir þessa heimild greiðir ljósvakamiðill STEFi umsamda fjárhæð á ári hverju og samtökin úthluta svo höfundaréttargreiðslum til hlutaðeigandi höfunda. Eiríkur Tómasson, framkvæmdastjóri STEFs, telur þennan samning góðan en augljóst er að því eru ekki allir félagsmenn í STEFi sammála. Hvert er hins vegar svar Eiríks Tómassonar við gagnrýninni. Jú, hann réttir ljósvakamiðlunum kurteislega vopnin og segir að ef STEF fari að rugga bátnum sé það ljósvakamiðlunum í lófa lagt að krefjast þess að þeir greiddu minna til STEFs!

Ég hefði nú getað bent framkvæmdastjóranum á skynsamlegri viðbrögð við óánægjuröddum skjólstæðinga sinna. Og þá er ég ekki byrjaður að ræða samningatækni framkvæmdastjórans sem getur varla talist hans sterka hlið í ljósi ummælanna.

Markaðsherferðir ljósvakamiðla eru aðrar og umfangsmeiri nú en þær voru árið 1987 þegar STEF gerði samning sinn við Ríkisútvarpið. Liggur það ekki í augum uppi? Og er þá ekki eðlilegt að hagsmunir tónskálda og eigenda flutningsréttir séu endurskoðaðir með þessar breytingar í huga? Öll svör um að slíkt sé erfitt, of flókið eða þar fram eftir götunum eru ótæk. Það ættu þeir sem standa vörð um hagsmuni félagsmanna STEFs að vita. Eða þurfa íslensk tónskáld enn að bíða þess að slompaðir kollegar þeirra í Parísarborg ryðji veginn?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband