18.3.2006 | 00:00
Hver á söguna
Nú hef ég ekki lesið Holy Blood, Holy Grail en eftir því sem ég best fæ séð er um sagnfræðirit að ræða sem setur fram þá tilgátu að Jesús hafi gifst Maríu Magðalenu, eignast börn og afkomendur þeirra séu enn á meðal vor í dag. Þeir sem hafa lesið Da Vinci-lykilinn vita að þessi kenning er meira eða minna inntak bókarinnar og nú finnst þessum blessuðu sagnfræðingum að þeir hafi verið hlunnfarnir þrátt fyrir að Dan Brown hafi í upphafi bókarinnar tilgreint Holy Blood, Holy Grail sem eina af þeim heimildum sem hann notast við.
Nú er ég ekki sagnfræðingur en tel mig þó vita að þegar best lætur, fjalli sagnfræðin og þ.a.l. sagnfræðingar um söguna með tilliti til staðreynda. Höfundar Holy Blood, Holy Grail hafa þ.a.l. varpað fram tilgátu um fjölskyldulíf Jesú frá Nasaret og svo stutt þá tilgátu með annaðhvort eldri heimildum eða öðrum staðreyndum sem þeim hefur þótt áreiðanlegar. Með öðrum orðum; Það er trú þriggja höfunda Holy Blood, Holy Grail að bókin greini ekki aðeins frá atburðum sem gætu að hafa átt sér stað, heldur atburðum sem ábyggilega áttu sér stað fyrir rúmum tveimur öldum - svo vitnað sé í texta bókarkápunnar. Og nú spyr ég í einfeldni minni: Hvernig getur nokkur maður sakað annan um ritstuld á því sem hann telur vera sagnfræðilega staðreynd?
Segjum svo að sagnfræðingur hér á landi, varpaði fram þeirri tilgátu og styddi hana með staðreyndum að eiginkona Jónasar Hallgrímssonar hefði í raun hrint honum niður tröppurnar í Kaupmannahöfn. Væri mér þá óheimilt að nota þessar sagnfræðilegu uppgötvanir í sögulegri skáldsögu nema með leyfi sagnfræðingsins og ef svo væri, væri þá ekki líka búið að segja að sagnfræðingar hafi einir rétt á þeim sannleika sem þeir grafa upp úr rykföllnum kistum sögunnar. Nú er ég ekki heldur lögfræðingur en ég get ekki séð að slík höfundarréttarlög væru skynsamleg, en það sem meira er, með slíkum lögum væri mögulega búið að kippa fótunum undan þeirri bókmenntastefnu sem kennd er við póstmódernisma.
Ég hef ekki tekið eftir því að þessi réttarhöld sem nú fara fram í London hafi valdið miklum skjálfta á meðal rithöfunda. Ef til vill er ástæðan sú að svipuð mál sem tekin hafa verið fyrir í Bandaríkjunum, hafa öll endað skáldsagnahöfundunum í vil. Breska réttarkerfið hefur að vísu oft tekið á málum með öðrum hætti en annars staðar og því er það í raun ekki fjarstæðukennt að höfundar Holy Blood, Holy Grail fari með sigur af hólmi í London.
En sagnfræðingar hafa að mínu mati verið grunsamlega hljóðlátir, því trúverðugleiki stéttarinnar hlýtur einnig að blandast í málið. Ef sannleikurinn um sögulega atburði er allt í einu orðinn að einkaeign hvers sagnfræðings, er mögulegt að þeir fari að meta sérhagsmuni sína ofar skyldum fræðasamfélagsins. Og þá er ekki langt að bíða þar til að sagnfræðinni allri verði vísað á bug.
Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. mars
Flokkur: Menning og listir | Breytt 29.3.2006 kl. 10:41 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning