23.7.2008 | 11:23
Hvar var stríðsglæpadómstóllinn þá?
ÞÆR verða ekki oft á vegi okkar sögubækurnar sem umbylta hefðbundnum skilningi manns á tilteknum atburðum og/eða tímabilum í mannkynssögunni. Ég gæti talið þær á fingrum annarrar handar.
Bury My Heart at Wounded Knee eftir Bandaríkjamanninn og bókasafnsfræðinginn Dee Brown er tvímælalaust ein þessara sögubóka og þó að nú séu liðin tæp 40 ár frá útgáfu bókarinnar er hún enn talin með merkustu sagnfræðiritum sem gefin hafa verið út um sögu og átök frumbyggja Norður-Ameríku og bandarískra landnema átök sem þurrkuðu nærri út þá fjölmörgu og ólíku þjóðflokka sem reikað höfðu um fjöll og sléttur Norður-Ameríku í margar aldir, tiltölulega óáreittir.
Það var ef til vill ekki síst vegna aukinnar andstöðu bandarísks almennings við stríðshernaðinn í Víetnam að bókin hlaut jafn sterk viðbrögð og raun bar vitni. Frásögn Browns var vatn á myllu þeirra er gagnrýndu ríkisstjórnina fyrir að skeyta engu um líf saklausra Víetnama hvað þá bandarískra hermanna sem fórnað var á altari heimsvaldastefnunnar.
Jafnvel þó að Dee Brown hafi verið sakaður um að draga um of taum frumbyggjanna í bókinni hefur enginn (svo ég viti til) hrakið þá hræðilegu frásögn sem í bókinni er að finna og óhætt er að segja að með útgáfu hennar hafi bandarískur almenningur í fyrsta sinn horfst í augu við þá meðferð sem frumbyggjarnir hlutu af hálfu bandarískra landnema sem athöfnuðu sig oftar en ekki í skjóli hernaðarmáttar hins mikla föður í Washington eins og frumbyggjarnir kölluðu forseta Bandaríkjanna.
Það er einfalt mál í dag að fella dóm yfir grimmd landnemanna og Bandaríkjahers en á þessum tíma voru andlegir yfirburðir hvíta mannsins óumdeildir í hugum þeirra sjálfra. Frumbyggjarnir voru að sama skapi villimenn sem helst þurfti að kristna en að öðrum kosti útrýma.
En það má heldur ekki líta framhjá tvískinnungi stjórnvalda í Washington sem hvöttu til þess, æ ofan í æ, að friðarsamningar væru gerðir við frumbyggjanna en hikuðu svo ekki við að brjóta þá samninga eða túlka eftir á, með hagsmuni hvítra þegna að leiðarljósi.
Enginn áhugamaður um sagnfræði sér í lagi bandaríska sögu má láta þessa bók framhjá sér fara.
Á myndinni má sjá frosið lík Big Foot, höfðingja Lokota Siouz-indjánanna. 300 föngum, mönnum, konum og börnum var slátrað af hermönnum Bandaríkjahers að Wounded Knee í Suður Dakóta 29. desember 1890.
Flokkur: Menning og listir | Breytt 26.7.2008 kl. 19:20 | Facebook
Athugasemdir
Þörf og góð áminning Höskuldur. Ég fjallaði svolítið um þessa atburði við Undað Hné í bloggfærslu fyrir skömmu. Hér ef þú hefur áhuga :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 23.7.2008 kl. 15:18
Mannréttindasáttmálar og Stríðsglæpadómstólar komu fyrst til sögunnar þegar menn áttuðu sig á umfangi og hryllingi gyðingamorða nasista. Það er gott að þú minnir á Wounded Knee. þar sem margt ungt fólk er farið að afneita Helförinni eða misnota hana í þeim tilgangi að réttlæta hryðjuverk og öfgar hreyfinga eins og Hamas og Hizbollah. Minni mannsins er stutt og ef þessi þjóðarmorð og önnur gleymast eða eru "perverteruð" er mikil hætta á því að líkir atburðir gerist aftur.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 23.7.2008 kl. 18:55
Það er gott að Vilhjálmur minnist á Hamas og Hizbollah því þær eru svo sannarlega öfgahreyfingar. Þær eru hins vegar mótsvar við hroðalegri meðferð Ísraela á Palestínu Aröbum. Ég sá í Ríkissjónvarpinu nýlega þegar þingmenn frá Suður Afríku heimsóttu Vesturbakkann. Sumir þessara þingmanna voru reyndar af Gyðingaættum. Þeir sögðu allir sem einn: þetta(meðferð Ísraela á Palestínumönnum) er ekkert annað en Aparheit í sinni verstu mynd. Þetta virtist ekki koma þeim neitt á óvart því þeir höfðu séð slíka hluti í sínu heimalandi en sögðu samt að þetta væri mikið verri tegund af Aparheit. Það má segja það að því miður hafi heimsbyggðin ekki lært nóg af Helförinni til að vara sig en það sem Ísraelsmenn hafa svo sannarlega lært af Helförinni er hvernig á að búa til Gettó(eins og voru í Varsjá í seinna stríðinu) og hvernig á að kúga kynþátt þannig að hann er algerlega undir hælnum á þeim nákvæmlega eins og Þeir(Gyðingarnir) voru í stríðinu undir hælnum á Nasistum. Eini munurinn er að það vantar gasklefana. Þetta er ekkert annað en "hægt og bítandi" þjóðarmorð. Ég hugsa að flestir hópar manna sem farið væri svona með myndu reyna að berjast á móti. Ég veit að ef Íslendingum væri öllum safnaði saman við ömurlegar aðstæður á Reykjanesinu og það boxað af með háum múrum og við geymdir þar í 60 ár, þá myndum við sennilega stofna hópa sem væru verri en Hamas svo mikið er víst.
þorvaldur Þórsson (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 11:36
góð grein Höskuldur. ég á þessa bók og hef gripið niður í hana af og til frá því ég eignaðist hana fyrir 20-25 árum eða svo.
Þorvaldur, farðu varlega þegar þú svarar Villa í köben, hann er öfgamaður af verstu gerð og hikar ekki við að kæra fólk ef það skrifar ekki eins og honum er þóknanlegt.
Óskar Þorkelsson, 24.7.2008 kl. 13:15
Takk fyrir ábendinguna Óskar! Ég er ekki hræddur við öfgamenn og læt þá ekki buga mig. Ég er "öfgafullur" á móti öfgamönnum :) Verði honum af því góða að reyna að kæra mig. Ekkert sem ég sagði að ofan er hægt að véfengja. Hann er öfgafullu zíonisti og eins og þú veist ósköp vel er ekki hægt að rökræða við öfgamaenn að neinu marki. Þeir hafa ALLTAF rétt fyrir sér.
Þorvaldur Þórsson (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 14:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.