11. Þú skalt vera fallegur

Eins og allir alvöruhnakkar vita er Biblía fallega fólksins komin út. Hávar Sigurjónsson, blaðamaður Morgunblaðsins, fór nokkrum orðum um bókina í Lesbókinni um síðustu helgi, og í sjálfu sér er litlu við þá umfjöllun að bæta. En einhverra hluta vegna grunar mig nú samt að sú umfjöllun hafi meira eða minna farið framhjá hnökkunum, og þar af leiðandi markhópi biblíunnar. Ég met það því svo að mér sé óhætt að hafa fleiri orð um þessa blessuðu bók og höfund hennar - að því gefnu að haus pistilsins hreki hvorki "white trash"- né "uppdeituðu white trash"-hnakkana yfir á næstu síðu.

Eins og svo margir aðrir hef ég haft nokkra ánægju af því að fylgjast með hliðarsjálfi Egils Einarssonar undanfarin misseri. Að mörgu leyti virðist hann falla vel að því að vera eins konar karlkynsútgáfa Silvíu Nóttar, þegar maður veltir fyrir sér þeirri ríku áherslu sem Gilzenegger leggur á útlitið og aðra úthverfari þætti mannlegs atgervis - en þó ekki alveg. Á sama tíma og Silvía Nótt leitast við að holdgera það sem í daglegu máli kallast hégómi og um leið velta upp stórum spurningum um nútímagildismat virðist það frekar vera hlutverk Gilzeneggers að skilgreina hégómann niður í svo margar smáar eindir að spurningarnar sem vakna verða óhjákvæmilega sértækar og lítilfjörlegar. Í stað þess að spurningin snúist um það hvort útlitið skipti mestu máli snýst hún frekar um það hvort það sé eftirsóknarverðara að vera hnakki eða trefill(!)?

Biblía fallega fólksins er líklega merkilegust fyrir þær sakir að hún festir á prent lífsstíl sem virðist njóta síaukinna vinsælda hjá ungu fólki. Æskudýrkunin hefur verið fyrirferðarmikil undanfarna áratugi en nú hefur hún færst upp á næsta stig. Það er ekki lengur nóg að vera ungur. Ungt skal líka vera fallegt; "helköttað" og "heltanað". Líklega hefur þessi líkamsdýrkun ekki verið jafnfyrirferðarmikil síðan Forn-Grikkir hófu að höggva í stein en þar var þó á yfirborðinu hugmyndin um að heilbrigð sál þyrfti verustað í hraustum líkama. Því er ekki beint fyrir að fara í Biblíu fallega fólksins. Sálinni er svo að segja úthýst úr musterinu og jafnvel af meira offorsi en önnur Biblía greinir frá. Gilzenegger lýtur sömu lögmálum og Silvía Nótt að því leyti að skilyrði fyrir tilvist hans er að finna í mótstöðunni. Eins lengi og þeir eru til sem fordæma skoðanir hans og gildismat á opinberum vettvangi fjölgar í hópi þeirra sem telja hann til fyrirmyndar. Þetta segir sig sjálft og gerist hér eins og alls staðar annars staðar þar sem deilt er um lífsstíl.

Það er því óneitanlega kaldhæðnislegt, eins og sannaðist í "raunveruleikriti" Silvíu Nóttar, þegar venjulegt fólk sem á sér einskis ills von sogast í hringiðuna og verður að leiksoppum í handriti sem skrifast jafnóðum og það er leikið. Þeir sem taka það að sér að berjast gegn skoðunum Gilzeneggers eiga álíka mikla von á sigrum og gamli kallinn sem barðist við vindmyllurnar. Það ættu treflarnir í það minnsta að vita.

 Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. mars 2006


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

frábærlega skrifað
AET

AET (IP-tala skráð) 29.3.2006 kl. 17:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband