11.2.2006 | 00:00
Sirkus Silvíu Nóttar
Ég er að sjálfsögðu að tala um Silvíu Nótt, (fyrirsögnin kom ykkur á sporið, var það ekki?) lagið hennar "Til hamingju, Ísland" og þau sterku viðbrögð sem atriði hennar hefur fengið, frá bæði fjölmiðlum og almenningi. Það þurfti líklega viðburð á stærð við Söngvakeppni Sjónvarpsins til að umræðan tæki á sig þessa skringilegu mynd en auk þess verður að segjast að vopn sumra, sem fyrir stuttu ætluðu að leggja stein í götu lagsins, hafi í raun snúist í höndum þeirra og í staðinn fyrir að Silvíu væri fleygt út úr keppninni, fékk hún fjölmiðlaumfjöllun sem allir hinir höfundarnir og flytjendurnir gátu aðeins leyft sér að dreyma um.
Það væri of mikil einföldun að segja að gúrkutíð fjölmiðla eða uppsláttarfyrirsagnir sumra blaða væru mótandi afl í þessum sirkus því eins og allir þeir sem sótt hafa slíkar "erlendar" skemmtanir er alltaf einhver sem kynnir trúðana inn í hringinn. Þeir sem sáu atriði Silvíu Nóttar, umstangið í kringum komu hennar út á Fiskislóð, lífverðina, skínandi svarta bílana og svo náttúrlega atriðið sjálft, geta sagt sér það sjálfir að svona uppákoma krefst vandlegrar skipulagningar. Hér þarf að hugsa fyrir öllu, hámarka athyglina og gera sirkusgestum það ljóst að atriðið sem verið er að kynna sé engu öðru líkt. Í ljósi þeirrar athygli sem lagið hefur fengið er óhætt að segja að sirkusstjórinn hafi leyst þetta vel af hendi. Maður hefur heyrt sögur af því að krakkar allt niður í fimm ára hlaupi um í barnaafmælum syngjandi hástöfum "Til hamingju, Ísland" og nú þegar Nylon-flokkurinn er horfinn til útlanda og Birgitta - ja, hefur einhver rekist á hana? - þá er ekki ólíklegt að innan skamms verði drjúgur hluti yngstu skólabarnanna búinn að tileinka sér hegðun og atferli Silvíu Nóttar.
En aftur að sirkusnum og viðleitni fjölmiðla til að taka þátt í viðburði sem er greinilega - og öllum er það vonandi ljóst - uppdiktaður. Hvað er það til dæmis sem fær fjölmiðil eins og þennan til að gleypa það með húð og hári að á sviðinu út á Granda standi Silvía Nótt en ekki Ágústa Eva Erlendsdóttir? Er það þörf hans fyrir að taka þátt í leik sem allir aðrir virðast leika (og þar með kannski forða honum frá því að vera púkó) eða er þetta frekar í ætt við það sem við kynnumst á hverju ári þegar viðtöl er tekin við jólasveininn. Þessi þátttökuvilji fjölmiðla náði áður óséðum hæðum þegar fréttamaður NFS reyndi að fá - og takið nú eftir - viðbrögð Silvíu Nóttar við stjórnsýsluákæru sem lögð var fram á hendur útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins. Segjum nú svo að útvarpsstjóri hefði neyðst til að segja af sér í kjölfarið, hefði NFS þá kannski fundist það við hæfi að fá viðbrögð Silvíu Nóttar við afsögninni? Að sjálfsögðu ekki en það fær mann samt til að velta því fyrir sér að ef línan á milli raunveruleikans og hins ímyndaða er til, eru allir með það á hreinu hvar hún liggur?
Ágústa Eva Erlendsdóttir og önnur foreldri Silvíu Nóttar vilja náttúrlega umfram allt að þessi umrædda lína þurrkist út og vegna þess að flestir eru á því að þessi leikur sé, enn sem komið er skemmtilegur, höfum við gert með okkur þegjandi samkomulag um að hann fái að halda áfram. Hvort þetta samkomulag hafi spilað einhvern þátt í ákvörðun útvarpsstjóra að lag Silvíu Nóttar fékk að halda áfram í keppninni er erfitt að segja en það hlýtur óneitanlega að hafa verið skrítið fyrir Kristján Hreinsson og co. að halda uppi málflutningi gegn einhverju sem í raun og veru er ekki til.
Franski fræðimaðurinn Roland Barthes skrifaði um miðja síðustu öld, ritgerð um bandaríska fjölbragðaglímu en fyrir þá sem ekki þekkja umrædda glímu, þá á hún meira skylt með leiksýningum en íþróttum. Þar heldur Barthes því fram að áhorfendurnir hafi í raun engan áhuga á því hvort úrslit glímunnar séu fyrir fram ákveðin eða ekki, því að þeir hafi þegar ofurselt sig frumforsendu sýningarinnar; það sem máli skiptir er ekki hvað áhorfendurnir halda, aðeins hvað þeir sjá.
Hringir þetta einhverjum bjöllum?
Það að Barthes hafi valið að skrifa um fjölbragðaglímu er nokkuð áhugavert því að á síðustu öld var einnig uppi maður sem gerði veröld fjölbragðaglímunnar og viðbrögð fólks við henni að áratugalöngu grínatriði. Maðurinn hét Andy Kaufman og var einn áhrifamesti skemmtikraftur sem uppi hefur verið. Kaufman var upptekinn af því sem stundum hefur verið nefnt "anti-humor" og snýst í raun og veru um að ganga of langt með brandara; svo langt að hann hættir að vera fyndinn, verður svo aftur fyndinn, hættir því og svo koll af kolli. Þetta gerði hann stundum með því að búa til persónur sem iðulega voru fráhrindandi, óforskammaðar og dónalegar en svo yfirgengilegar sem slíkar að þær urðu stórkostlega fyndnar. Grínið sem Kaufmann skóp í kringum fjölbragðaglímuna entist honum til dauðadags og því hæpið að útskýra það hér í fáum orðum en kjarni þess var í einu orði sagt, öfgar. Kaufmann reyndi alltaf að ganga lengra og umfram það sem síðustu hlátrasköll gáfu tilefni til. Áðurnefnd grein Rolands Barthes hefst á þessum orðum: "Dyggð fjölbragðaglímunnar er sú að hún er sýning öfganna." Kaufmann skyldi þó ekki hafa lesið Barthes - eða þá Ágústa Eva?
Veröld sirkussins er á köldum dögum sem þessum nokkuð heillandi. Hún er veröld skærra lita, stórra svipbrigða, töfra, húmors og hættu. Súrefnið í tjaldinu er annað en það sem við öndum að okkur dagsdaglega og þar er hvorki tími né rúm fyrir smásálarlegar tilfinningar. Maður heldur með þessum trúð og maður er á móti hinum. Sirkusinn vill skemmta og maður vill láta skemmta sér. Hversu lengi þessi tiltekna sýning getur gengið, veltur náttúrlega á færni sirkusstjórans til að gera okkur móttækileg og spennt fyrir næsta atriði. Hingað til hefur allt gengið eins og í sögu en ef það er ein regla sem allir alvöru sirkusstjórar telja að sé ófrávíkjanleg, þá er hún þessi: Stórkostlegasta atriðið kemur alltaf síðast.
Nú er að bíða og sjá.
Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 11. febrúar 2006
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.