6.4.2006 | 22:39
Af fegurð engla
Hvílíkt snilldarverk er maðurinn! svo ágætur að vitsmunum! svo takmarkalaus að gáfum! í svip og háttum svo snjall og dásamur! í athöfn englum líkur! í hugsun goðum líkur! prýði veraldar, afbragð alls sem lifir." Þetta lét þunglyndur danaprins eitt sinn hafa eftir sér og gott ef hann skaut ekki nokkuð nálægt markinu.
Ég hef verið að endurskoða afstöðu mína til fegurðarsamkeppna. Ekki svo að skilja að ég hafi haft mjög ákveðnar hugmyndir um tilvist þeirra en þó. Síðan ég man eftir mér hafa fegurðarsamkeppnir virkað mjög skringilega á mig. Sá hugmyndafræðilegi grunnur sem þær byggja á er æði valtur og ég held að flestir taki undir það. En um leið og hugtök eins og hégómi og hallæri koma upp í hugann þegar keppnir í fegurð eru annars vegar, hefur mér líka fundist það einum of auðvelt að afskrifa þær með hjálp slíkra sleggjudóma. Það er margt annað í samfélaginu sem virkar skringilega á mig þó ég leiði það yfirleitt hjá mér. Ég get nefnt hjónabandið sem dæmi og erfðaskattinn en kannski væri andlitsförðun nærtækara dæmi þegar um huglæga hluti á borð við fegurð er að ræða.
Þegar fegurðarsamkeppnir ber á góma er oftar ekki langt að bíða þar til einhver grípur til grísku goðsögunnar um þrætueplið, fyrstu fegurðasamkeppninnar þar sem gyðjurnar Aþena, Afródíta og Hera, börðust með klækjum um hylli Parísar og að með þessari goðsögu sannist að fegurðarsamkeppnir hafi fylgt manninum frá örófi alda. Sem er líklega satt. Fegurð -og mat á fegurð - hefur fylgt mannkyninu frá upphafi og þetta snýst ekki síst um það hvernig mannsheilinn virkar. Hvernig við löðumst frekar að samhverfu en andhverfu. Lífeðlisfræðileg lögmál liggja hér að baki skilst mér, og hver erum við þá að halda því fram að fegurð sé afstæð, ef annað segir heilinn?
Án efa hefur réttindabarátta kvenna orðið til þess að viðhorf okkar til fegurðarsamkeppna hefur breyst. Hér áður fyrr var keppnin samtvinnuð þjóðernisvitundinni alveg eins og aflsmunir Jóns Páls. Við áttum fegurstu konur veraldar og sterkustu karlmennina. Við vorum ósigranleg, fullvalda og stolt af því. En svo fór að halla undan fæti, tíundi áratugurinn gekk í garð og fegurð og aflsmunir féllu í skuggann af Björk - jæja, kannski ekki alveg. Réttindabaráttan barði það inn í hausinn á okkur að kroppasýningar eins og fegurðasamkeppnir ýttu, með einum og öðrum hætti, undir ójöfnuð kynjanna. Nokkuð til í því. Þess ber þó að geta að keppnin um fegursta karlmann Íslands hlýtur að skekkja þá röksemdarfærslu að einhverju leyti. Eða var það allt kannski eitursnjall mótleikur nokkurra dónakalla á Broadway sem vildu halda í kroppasýningarnar?
Annað sem ég held að tengist þessu er að pólitísk rétthugsun hefur tröllriðið vestrænum samfélögum á undanförnum árum og ekki eru allir á eitt sáttir með þá þróun. Á mörgum sviðum samfélagsins er þessi rétthugsun orðin þvingandi. Og hún á ekki síst sök á því að fegurðarsamkeppnir eru í dag taldar hallærislegar. Þær eru taldar óhæfar á þann hátt að í þeim felst staðhæfing sem ekki er pólitísk rétthugsuð, þ.e.a.s. að fegurðin sé ekki afstæð - hún spásseri meira segja á sviðinu þarna, í bikiníi. Svoleiðis hugsunarháttur getur ekki gengið í samfélögum þar sem allir eru jafnir frammi guði. Féllumst við á slíkan hugsunarhátt, væri ekki langt þar til að stéttaskipting kæmist aftur á og það viljum við ekki eða hvað?
En svona hugsun, eða hegðun réttara sagt, á sér samt stað, jafnvel þó að hún sé ekki viðurkennd. Hana má sjá á efnisvali fjölmiðla, í auglýsingum, í stjórnmálum og alls staðar annars staðar þar sem manneskjan sjálf er notuð sem söluvara. Fegurðin er viðurkennd - ekki bara sem afstæður hlutur heldur sem fastmótað form. Að vísu getur þetta form breyst lítillega eftir því hvernig vindar tískunnar blása en þeir vindar blása yfirleitt bara í eina átt í einu. Blaðið í gegnum þetta blað og önnur í nokkra daga og ég fullvissa ykkur um að þið komist á raun um að fallega fólkið fær fleiri dálksentimetra en aðrir. Dálæti okkar mannanna á fegurð er óseðjandi, svo einfalt er það.
Vandamálið með fegurðarsamkeppnis-umræðuna sem reglulega skýtur upp kollinum, er að hún skiptist ávallt í átök tveggja fylkinga. Þetta verður til þess að annað hvort er maður brennimerktur sem femínisti eða það sem á ensku kallast sexist og er illþýðanlegt. Ég á erfitt með að tengjast hvorum hópnum. Óræð tengsl kvenlegrar fegurðar og undirgefni við karlkynið er tímaskekkja sem þyrfti að útrýma úr okkar menningu hið fyrsta en fegurðin sem slík er ekki af hinu illa. Ef þeir eru til þeir sem dreymir um að keppa í fegurð er það þeirra mál. Fyrir mér er það einfaldlega spurning um lífsstíl.
"Prýði veraldar, afbragð alls sem lifir," er haft eftir prinsinum danska í upphafi pistilsins en tilvitnunin er í heild sinni lengri og endar svo; "og þó hvers virði er mér þessi duftsins kostakjarni? Maður er ekki mitt gaman; nei ekki kona heldur." Ég held barasta að ég sé honum líka sammála þar.
Bloggar | Breytt 7.4.2006 kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2006 | 00:00
Hver á söguna
Nú hef ég ekki lesið Holy Blood, Holy Grail en eftir því sem ég best fæ séð er um sagnfræðirit að ræða sem setur fram þá tilgátu að Jesús hafi gifst Maríu Magðalenu, eignast börn og afkomendur þeirra séu enn á meðal vor í dag. Þeir sem hafa lesið Da Vinci-lykilinn vita að þessi kenning er meira eða minna inntak bókarinnar og nú finnst þessum blessuðu sagnfræðingum að þeir hafi verið hlunnfarnir þrátt fyrir að Dan Brown hafi í upphafi bókarinnar tilgreint Holy Blood, Holy Grail sem eina af þeim heimildum sem hann notast við.
Nú er ég ekki sagnfræðingur en tel mig þó vita að þegar best lætur, fjalli sagnfræðin og þ.a.l. sagnfræðingar um söguna með tilliti til staðreynda. Höfundar Holy Blood, Holy Grail hafa þ.a.l. varpað fram tilgátu um fjölskyldulíf Jesú frá Nasaret og svo stutt þá tilgátu með annaðhvort eldri heimildum eða öðrum staðreyndum sem þeim hefur þótt áreiðanlegar. Með öðrum orðum; Það er trú þriggja höfunda Holy Blood, Holy Grail að bókin greini ekki aðeins frá atburðum sem gætu að hafa átt sér stað, heldur atburðum sem ábyggilega áttu sér stað fyrir rúmum tveimur öldum - svo vitnað sé í texta bókarkápunnar. Og nú spyr ég í einfeldni minni: Hvernig getur nokkur maður sakað annan um ritstuld á því sem hann telur vera sagnfræðilega staðreynd?
Segjum svo að sagnfræðingur hér á landi, varpaði fram þeirri tilgátu og styddi hana með staðreyndum að eiginkona Jónasar Hallgrímssonar hefði í raun hrint honum niður tröppurnar í Kaupmannahöfn. Væri mér þá óheimilt að nota þessar sagnfræðilegu uppgötvanir í sögulegri skáldsögu nema með leyfi sagnfræðingsins og ef svo væri, væri þá ekki líka búið að segja að sagnfræðingar hafi einir rétt á þeim sannleika sem þeir grafa upp úr rykföllnum kistum sögunnar. Nú er ég ekki heldur lögfræðingur en ég get ekki séð að slík höfundarréttarlög væru skynsamleg, en það sem meira er, með slíkum lögum væri mögulega búið að kippa fótunum undan þeirri bókmenntastefnu sem kennd er við póstmódernisma.
Ég hef ekki tekið eftir því að þessi réttarhöld sem nú fara fram í London hafi valdið miklum skjálfta á meðal rithöfunda. Ef til vill er ástæðan sú að svipuð mál sem tekin hafa verið fyrir í Bandaríkjunum, hafa öll endað skáldsagnahöfundunum í vil. Breska réttarkerfið hefur að vísu oft tekið á málum með öðrum hætti en annars staðar og því er það í raun ekki fjarstæðukennt að höfundar Holy Blood, Holy Grail fari með sigur af hólmi í London.
En sagnfræðingar hafa að mínu mati verið grunsamlega hljóðlátir, því trúverðugleiki stéttarinnar hlýtur einnig að blandast í málið. Ef sannleikurinn um sögulega atburði er allt í einu orðinn að einkaeign hvers sagnfræðings, er mögulegt að þeir fari að meta sérhagsmuni sína ofar skyldum fræðasamfélagsins. Og þá er ekki langt að bíða þar til að sagnfræðinni allri verði vísað á bug.
Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. mars
Menning og listir | Breytt 29.3.2006 kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2006 | 00:00
11. Þú skalt vera fallegur
Eins og allir alvöruhnakkar vita er Biblía fallega fólksins komin út. Hávar Sigurjónsson, blaðamaður Morgunblaðsins, fór nokkrum orðum um bókina í Lesbókinni um síðustu helgi, og í sjálfu sér er litlu við þá umfjöllun að bæta. En einhverra hluta vegna grunar mig nú samt að sú umfjöllun hafi meira eða minna farið framhjá hnökkunum, og þar af leiðandi markhópi biblíunnar. Ég met það því svo að mér sé óhætt að hafa fleiri orð um þessa blessuðu bók og höfund hennar - að því gefnu að haus pistilsins hreki hvorki "white trash"- né "uppdeituðu white trash"-hnakkana yfir á næstu síðu.
Eins og svo margir aðrir hef ég haft nokkra ánægju af því að fylgjast með hliðarsjálfi Egils Einarssonar undanfarin misseri. Að mörgu leyti virðist hann falla vel að því að vera eins konar karlkynsútgáfa Silvíu Nóttar, þegar maður veltir fyrir sér þeirri ríku áherslu sem Gilzenegger leggur á útlitið og aðra úthverfari þætti mannlegs atgervis - en þó ekki alveg. Á sama tíma og Silvía Nótt leitast við að holdgera það sem í daglegu máli kallast hégómi og um leið velta upp stórum spurningum um nútímagildismat virðist það frekar vera hlutverk Gilzeneggers að skilgreina hégómann niður í svo margar smáar eindir að spurningarnar sem vakna verða óhjákvæmilega sértækar og lítilfjörlegar. Í stað þess að spurningin snúist um það hvort útlitið skipti mestu máli snýst hún frekar um það hvort það sé eftirsóknarverðara að vera hnakki eða trefill(!)?
Biblía fallega fólksins er líklega merkilegust fyrir þær sakir að hún festir á prent lífsstíl sem virðist njóta síaukinna vinsælda hjá ungu fólki. Æskudýrkunin hefur verið fyrirferðarmikil undanfarna áratugi en nú hefur hún færst upp á næsta stig. Það er ekki lengur nóg að vera ungur. Ungt skal líka vera fallegt; "helköttað" og "heltanað". Líklega hefur þessi líkamsdýrkun ekki verið jafnfyrirferðarmikil síðan Forn-Grikkir hófu að höggva í stein en þar var þó á yfirborðinu hugmyndin um að heilbrigð sál þyrfti verustað í hraustum líkama. Því er ekki beint fyrir að fara í Biblíu fallega fólksins. Sálinni er svo að segja úthýst úr musterinu og jafnvel af meira offorsi en önnur Biblía greinir frá. Gilzenegger lýtur sömu lögmálum og Silvía Nótt að því leyti að skilyrði fyrir tilvist hans er að finna í mótstöðunni. Eins lengi og þeir eru til sem fordæma skoðanir hans og gildismat á opinberum vettvangi fjölgar í hópi þeirra sem telja hann til fyrirmyndar. Þetta segir sig sjálft og gerist hér eins og alls staðar annars staðar þar sem deilt er um lífsstíl.
Það er því óneitanlega kaldhæðnislegt, eins og sannaðist í "raunveruleikriti" Silvíu Nóttar, þegar venjulegt fólk sem á sér einskis ills von sogast í hringiðuna og verður að leiksoppum í handriti sem skrifast jafnóðum og það er leikið. Þeir sem taka það að sér að berjast gegn skoðunum Gilzeneggers eiga álíka mikla von á sigrum og gamli kallinn sem barðist við vindmyllurnar. Það ættu treflarnir í það minnsta að vita.
Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. mars 2006
Bækur | Breytt 29.3.2006 kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.2.2006 | 00:00
Sirkus Silvíu Nóttar
Ég er að sjálfsögðu að tala um Silvíu Nótt, (fyrirsögnin kom ykkur á sporið, var það ekki?) lagið hennar "Til hamingju, Ísland" og þau sterku viðbrögð sem atriði hennar hefur fengið, frá bæði fjölmiðlum og almenningi. Það þurfti líklega viðburð á stærð við Söngvakeppni Sjónvarpsins til að umræðan tæki á sig þessa skringilegu mynd en auk þess verður að segjast að vopn sumra, sem fyrir stuttu ætluðu að leggja stein í götu lagsins, hafi í raun snúist í höndum þeirra og í staðinn fyrir að Silvíu væri fleygt út úr keppninni, fékk hún fjölmiðlaumfjöllun sem allir hinir höfundarnir og flytjendurnir gátu aðeins leyft sér að dreyma um.
Það væri of mikil einföldun að segja að gúrkutíð fjölmiðla eða uppsláttarfyrirsagnir sumra blaða væru mótandi afl í þessum sirkus því eins og allir þeir sem sótt hafa slíkar "erlendar" skemmtanir er alltaf einhver sem kynnir trúðana inn í hringinn. Þeir sem sáu atriði Silvíu Nóttar, umstangið í kringum komu hennar út á Fiskislóð, lífverðina, skínandi svarta bílana og svo náttúrlega atriðið sjálft, geta sagt sér það sjálfir að svona uppákoma krefst vandlegrar skipulagningar. Hér þarf að hugsa fyrir öllu, hámarka athyglina og gera sirkusgestum það ljóst að atriðið sem verið er að kynna sé engu öðru líkt. Í ljósi þeirrar athygli sem lagið hefur fengið er óhætt að segja að sirkusstjórinn hafi leyst þetta vel af hendi. Maður hefur heyrt sögur af því að krakkar allt niður í fimm ára hlaupi um í barnaafmælum syngjandi hástöfum "Til hamingju, Ísland" og nú þegar Nylon-flokkurinn er horfinn til útlanda og Birgitta - ja, hefur einhver rekist á hana? - þá er ekki ólíklegt að innan skamms verði drjúgur hluti yngstu skólabarnanna búinn að tileinka sér hegðun og atferli Silvíu Nóttar.
En aftur að sirkusnum og viðleitni fjölmiðla til að taka þátt í viðburði sem er greinilega - og öllum er það vonandi ljóst - uppdiktaður. Hvað er það til dæmis sem fær fjölmiðil eins og þennan til að gleypa það með húð og hári að á sviðinu út á Granda standi Silvía Nótt en ekki Ágústa Eva Erlendsdóttir? Er það þörf hans fyrir að taka þátt í leik sem allir aðrir virðast leika (og þar með kannski forða honum frá því að vera púkó) eða er þetta frekar í ætt við það sem við kynnumst á hverju ári þegar viðtöl er tekin við jólasveininn. Þessi þátttökuvilji fjölmiðla náði áður óséðum hæðum þegar fréttamaður NFS reyndi að fá - og takið nú eftir - viðbrögð Silvíu Nóttar við stjórnsýsluákæru sem lögð var fram á hendur útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins. Segjum nú svo að útvarpsstjóri hefði neyðst til að segja af sér í kjölfarið, hefði NFS þá kannski fundist það við hæfi að fá viðbrögð Silvíu Nóttar við afsögninni? Að sjálfsögðu ekki en það fær mann samt til að velta því fyrir sér að ef línan á milli raunveruleikans og hins ímyndaða er til, eru allir með það á hreinu hvar hún liggur?
Ágústa Eva Erlendsdóttir og önnur foreldri Silvíu Nóttar vilja náttúrlega umfram allt að þessi umrædda lína þurrkist út og vegna þess að flestir eru á því að þessi leikur sé, enn sem komið er skemmtilegur, höfum við gert með okkur þegjandi samkomulag um að hann fái að halda áfram. Hvort þetta samkomulag hafi spilað einhvern þátt í ákvörðun útvarpsstjóra að lag Silvíu Nóttar fékk að halda áfram í keppninni er erfitt að segja en það hlýtur óneitanlega að hafa verið skrítið fyrir Kristján Hreinsson og co. að halda uppi málflutningi gegn einhverju sem í raun og veru er ekki til.
Franski fræðimaðurinn Roland Barthes skrifaði um miðja síðustu öld, ritgerð um bandaríska fjölbragðaglímu en fyrir þá sem ekki þekkja umrædda glímu, þá á hún meira skylt með leiksýningum en íþróttum. Þar heldur Barthes því fram að áhorfendurnir hafi í raun engan áhuga á því hvort úrslit glímunnar séu fyrir fram ákveðin eða ekki, því að þeir hafi þegar ofurselt sig frumforsendu sýningarinnar; það sem máli skiptir er ekki hvað áhorfendurnir halda, aðeins hvað þeir sjá.
Hringir þetta einhverjum bjöllum?
Það að Barthes hafi valið að skrifa um fjölbragðaglímu er nokkuð áhugavert því að á síðustu öld var einnig uppi maður sem gerði veröld fjölbragðaglímunnar og viðbrögð fólks við henni að áratugalöngu grínatriði. Maðurinn hét Andy Kaufman og var einn áhrifamesti skemmtikraftur sem uppi hefur verið. Kaufman var upptekinn af því sem stundum hefur verið nefnt "anti-humor" og snýst í raun og veru um að ganga of langt með brandara; svo langt að hann hættir að vera fyndinn, verður svo aftur fyndinn, hættir því og svo koll af kolli. Þetta gerði hann stundum með því að búa til persónur sem iðulega voru fráhrindandi, óforskammaðar og dónalegar en svo yfirgengilegar sem slíkar að þær urðu stórkostlega fyndnar. Grínið sem Kaufmann skóp í kringum fjölbragðaglímuna entist honum til dauðadags og því hæpið að útskýra það hér í fáum orðum en kjarni þess var í einu orði sagt, öfgar. Kaufmann reyndi alltaf að ganga lengra og umfram það sem síðustu hlátrasköll gáfu tilefni til. Áðurnefnd grein Rolands Barthes hefst á þessum orðum: "Dyggð fjölbragðaglímunnar er sú að hún er sýning öfganna." Kaufmann skyldi þó ekki hafa lesið Barthes - eða þá Ágústa Eva?
Veröld sirkussins er á köldum dögum sem þessum nokkuð heillandi. Hún er veröld skærra lita, stórra svipbrigða, töfra, húmors og hættu. Súrefnið í tjaldinu er annað en það sem við öndum að okkur dagsdaglega og þar er hvorki tími né rúm fyrir smásálarlegar tilfinningar. Maður heldur með þessum trúð og maður er á móti hinum. Sirkusinn vill skemmta og maður vill láta skemmta sér. Hversu lengi þessi tiltekna sýning getur gengið, veltur náttúrlega á færni sirkusstjórans til að gera okkur móttækileg og spennt fyrir næsta atriði. Hingað til hefur allt gengið eins og í sögu en ef það er ein regla sem allir alvöru sirkusstjórar telja að sé ófrávíkjanleg, þá er hún þessi: Stórkostlegasta atriðið kemur alltaf síðast.
Nú er að bíða og sjá.
Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 11. febrúar 2006
Bloggar | Breytt 29.3.2006 kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)