Skáldskapur eða ekki?

c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_roth.jpg

Rithöfundurinn Philip Roth hefur verið í fremstu röð bandarískra rithöfunda allt frá því að smásagnasafn hans Goodbye Columbus kom út árið 1959. Í ár eru 25 ár frá því að fyrsta bók hans í Zuckerman þríleiknum svokallaða kom út.

 

ÞAÐ var öllum ljóst þegar Goodbye Columbus kom út að þar færi fullþroska rithöfundur sem ætti eftir að láta að sér mikið kveða. Roth hlaut hin eftirsóttu National Book Award fyrir smásagnasafnið en samfélag gyðinga í Bandaríkjunum var ekki skemmt. Roth var fljótlega úthrópaður fyrir andgyðinglegan áróður í sögum sínum og skipti þá engu máli að Roth var og er, gyðingur sjálfur.

 

Zuckerman þríleikur Philps Roth hefst á nóvellunni The Ghost Writer sem kom út árið 1979. Umfjöllunarefnið er eins og í svo mörgum skáldsögum Roth, gyðingdómurinn en einnig fer mikið fyrir spurningunni hvað felist í því að vera rithöfundur og hver sú ábyrgð er sem rithöfundar verða að axla þegar það kemur að ritlistinni. Skáldsagan segir frá Nathan Zuckerman, ungum og upprennandi rithöfundi sem dvelst í sólarhring á heimili annars rithöfundar E.I. Lonoff, eiginkonu hans Hope og ungri stúlku sem hjónin hafa tekið að sér og reynist vera hin eina og sanna Anne Frank, eða það vill sögumaður alla vega sannfæra lesandann um. Samræður Lonoffs og Zuckermans eru dásamlega skrifaðar eins og Roth er von og vísa og þá sérstaklega þegar Lonoff og Zuckerman fikra sig á hálli braut kurteisishjalsins sem reynist mörgum erfið við fyrstu kynni. Þegar líður kvöldið og söguna sjálfa byrjar þó að örla á dýpri samræðu sem öðru fremur snýst um iðju rithöfundarins.

 

Stuttu eftir að skáldsagan kom út voru bókmenntafræðingar fljótir að eigna rithöfundinum Bernardi Malamud persónu E.I. Lonoffs og sjálfur viðurkenndi Roth í viðtölum að persóna Lonoffs væri einskonar bræðingur Malamuds og annars rithöfundar sem Roth dáði, Sauls Bellow. Hins vegar er margt í karakter Lonoffs sem ýtir stoðum undir þá kenningu að ef Lonoff er byggður á Malamud og Bellow þá sé heldur stóran hluta af Roth sjálfum að finna í þeim bræðingi.

 

Ágætt dæmi um það er þegar Lonoff útskýrir fyrir hinum unga Zuckerman hvað það raunverulega sé sem hann geri:

“I turn sentences around. That´s my life. I write a sentence and then I turn it around. Then I look at and I turn it around again. Then I have lunch. Then I come back in and write another sentence. Then I have tea and turn the new sentence around. Then I read the two sentences over and turn them both around. Then I lie down on my sofa and think. Then I get up and throw them out and start from the beginning.(18)

Sannleikurinn er að þessi skondnu en um leið vægðarlausu vinnubrögð, eru mjög lík þeim sem Roth hefur sjálfur viðurkennt að hann stundi og það sem meira er, Roth hefur sagt í viðtölum að fyrir hverja bók sem hann gefi út, skrifi hann iðulega aðra sem endi í ruslatunnunni. Þá segir ástkona Roths á þessum tíma, leikkonan Claire Bloom í ævisögu sinni, Leaving a Doll´s House að þrátt fyrir að Roth hafi ekki viðurkennt það opinberlega að Lonoff væri í raun hans annað sjálf, hefði það skinið í gegn þegar hún las söguna.

 

Sá hluti ævisögu Claire Bloom sem snýr að Roth er ákaflega upplýsandi um persónu rithöfundarins sem virðist eins og svo margir andans menn, hafa verið gjörsamlega óþolandi í einkalífinu og líkari ofdekruðum krakka en fullorðnum manni. En ævisagan gefur manni einnig áhugaverða innsýn í vinnubrögð Roths sem vaknaði ávallt mjög snemma til að skrifa og skrifaði svo fram að kvöldmat áður en hann lauk deginum með lestri skáldsagna. Þessi rútína var honum allt að því heilög og andlega heilsa hans var undir þessu vinnulagi komið, eins og Claire Bloom fékk að finna fyrir.

 

Önnur frásögn Bloom frá því þegar Roth vann að The Ghost Writer og varpar ljósi á vinnubrögð Roths, segir frá því þegar hann kom einn daginn óvenjulega snemma heim frá vinnustofu sinni og spyr Bloom hvort hún sé til í að lýsa því fyrir honum hvernig það sé að búa með rithöfundi upp í sveit. Bloom segir í bókinni að hún hafi ákveðið að halda hvergi aftur af skoðunum sínum enda orðin langþreytt á líferninu. Bloom ákveður að taka hann á orðinu og lætur allt flakka sem hingað til hafði farið í taugarnar á henni. Segir hún að þrátt fyrir að þau hafi bæði hlegið að loknu harmkveini hennar, hafi Roth greinilega tekið hvert einasta orð til sín, því í skáldsögunni birtist þau nánast orðrétt af munni Hope, eiginkonu E.I. Lonoff.

 

Eins og þetta dæmi sannar hafa skilin milli eiginlegrar persónu Philips Roth og söguhetja hans, nánast aldrei verið skýr og Roth hefur alla tíð alið á þessum sífelldu vangaveltum lesenda og gagnrýnenda. Annað lítið dæmi um þetta er að nokkrum árum eftir bókin kom út var gerð sjónvarpsmynd eftir The Ghost Writer og í hlutverk Hope var ráðin engin önnur en leikkonan og ástkona rithöfundarins, Claire Bloom. Þessi ráðahagur var eflaust undan rifjum Roths runninn, því annars hefði hann aldrei fallist á að Bloom tæki að sér hlutverk í myndinni. Þegar myndin var svo sýnd ýtti hún að sjálfsögðu undir grun lesenda Roths að það sem gerðist í sögum hans væri endursögn úr hans eigin lífi - sem er að vísu rétt, upp að vissu marki.

 

Hins vegar reyndust tilgátur manna um að persóna Hope hefði að öllum hluta verið skrifuð með Claire Bloom í huga vera rangar, því eins og Bloom segir í ævisögu sinni var persóna hennar byggð á skáldkonunni Janet Hobhouse sem Roth átti í ástarsambandi ári áður en hann kynnist Bloom. Það sem gerir þessa Hobhouse enn merkilegri í hugum aðdáenda Roths er að ári áður en Hobhouse lést árið 1991 hafði hún skrifað lykilskáldsöguna The Furies sem kom út að henni látinni. Þar kemur Philip Roth við sögu og samkvæmt Claire Bloom eru lýsingar Hobhouse á Roth afar beinskeyttar en fyrst og fremst sannleikanum samkvæmar.

(pistillinn birtist áður í Lesbók Morgunblaðsins)


Enn á vegum úti

Jack Kerouac
Á dögunum var sagt frá því að til stæði að gefa út “upprunalega og óbreytta” útgáfu skáldsögunnar On the Road eftir bandaríska rithöfundinn Jack Kerouac. Með upprunalegri og óbreyttri útgáfu er líklegast átt við þá útgáfu sögunnar sem Kerouac skrifaði í apríl 1951, þá 29 ára gamall. Verkið skrifaði hann í einum rykk á 20 dögum og notaði til þess 120 feta pappírsrúllu sem hann hafði útbúið með því að líma saman sex tuttugu feta renninga af japönskum pappír. Ástæðan kvað vera sú að honum leiddist það að þurfa sífellt að skipta um pappír í ritvélinni eftir hverja blaðsíðu og taldi það bæði hægja á verkinu og raska þeirri hrynjandi sem hann vildi ná fram í skrifunum.

 

Þó Kerouac sé yfirleitt eignuð þessi uppfinning vita færri að Trotskíistinn og súrrealistinn, Victor Serge hafði sama hátt á þegar hann skrifaði sínar bækur, nokkrum áratugum áður en Kerouac til varnar, eru afar litlar líkur á að hann hafi vitað af vinnuaðferðum kollega síns hinum megin við Atlantshafið. 

 

Nú hefur þessi upprunalega útgáfa Kerouac af On the Road ekki komið fyrir margra sjónir. Ef mig minnir rétt var það sterkefnaður Texasbúi sem keypt handritið á uppboði en síðan hefur það verið á einskonar handritaferðalagi þar sem það flakkar á milli bókasafna og háskóla í Bandaríkjunum, efalaust í vel fægðu glerbúri og með nýtísku rakamæli. Í sjálfu sér er það furðulegt að það hafi ekki fyrr verið gefið út en á hinn bóginn er það mat þeirra sem lesið hafa upprunalega handritið að sú útgáfa sem nú er í umferð sé langtum betri en sú benzedrin-drifna orðahríð sem Kerouac spýtti út úr sér vorið 1951.

 

Í gegnum tíðina hafa bókmenntafræðingar og aðrir áhugamenn vísað til On the Road sem dæmigerðrar skáldsögu þar sem svokallað stream of consciousness sé að finna, þ.e.a.s. skáldverks þar sem ótruflað flæði hugsana er fest á blað án nokkurra yfirvegaðra breytinga, á meðan og eftir að verkið hefur verið samið. Að einhverju leyti er það rétt að þegar Kerouac settist niður til að skrifa On the Road, hafi hann ákveðið að láta sig smáatriði eins og stafsetningu og fastheldna, rökræna frásagnaraðferð litlu varða. En að halda því fram að verkið hafi hann fullskapað með jafn skyndilegum hætti og Seifur fæddi börn, er skemmtileg saga svo ekki sé dýpra í árinni tekið.  Sannleikurinn er sá að Kerouac hafði gengið með söguna í maganum í allnokkurn tíma þegar hann ákvað loksins að ráðast í gerð hennar og raunverulegt flakk hans um Bandaríkin þver og endilöng var alltaf skipulagt með það í huga að við ferðalok hefði hann efni í bók. Eini vandinn var að Kerouac hafði ekki hugmynd um hvaða frásagnarstíl hann átti að velja sögunni. Í örvæntingu sinni lagðist hann í lestur á evrópskum bókmenntum sem hefur örugglega verið þrautin þyngri vegna þess hve lengi hann var að lesa og í framhaldi prófaði hann mismunandi stíla, án árangurs.

 

Það var svo ekki fyrr en að Keroauc barst bréf frá Neil Cassady, fyrirmynd Dean Moriarty í On the Road (nafnið væntanlega fengið að láni frá Arthur Conan Doyle) að hann dettur niður á frásagnarstíl sem hann treystir sér til að nota. Í bréfinu á Cassady að hafa reifað ævi sína í 23 þúsund orðum á svipaðan hátt og vinur segir öðrum sögu, án allra flúryrða eða hefðbundinna stílreglna og þar sem engu er haldið aftur í lýsingum á svæsnum kynlífsfrásögnum eða hlutum sem alla jafna kæmu niður á sögumanni. Kerouac lýsti þessu bréfi sem snilldarverki sem tæki framar frásagnargáfu Celine, Wolfe og stæðist fullkominn samanburð við Dostojevskí. Umrætt bréf er nú orðið goðsagnakennt í hugum margra Kerouac-aðdáenda því að það er tapað með öllu (fauk víst á haf út), en ráðlegt er að taka orð Kerouacs með töluverðum fyrirvara. Hitt er annað mál að ástæðulaust er að rengja þau orð Kerouacs að með þessu bréfi uppgötvað hann þann stíl sem notaður er í On the Road og hefur umfram allt annað, gert bókina að einni vinsælustu “cult”-bók allra tíma.  

 

Manni dettur í hug að þegar fyrrnefndar fréttir heyrðust af fyrirhugaðri útgáfu á On the Road, hafi margir hugsað með sér sem svo að loksins fengi það verk að koma út sem Kerouac hafði ætlað til útgáfu. Hvort sem það er satt eða ekki, átti Kerouac ekki í miklum erfiðleikum með að endurskrifa skáldsöguna að áeggjan vina og með hjálp ritstjóra, þó að kröfur þeirra um fleiri punkta- og kommusetningar hafi stundum farið í taugarnar á honum. Til að mynda var ein frægasta setning bókarinnar: “The only people for me are the mad ones, the ones who are mad to live, mad to talk ... “ ekki skrifuð inn í söguna fyrr en mörgum mánuðum eftir að hann lauk við handritið sem nú á að koma út.

 

Jack Kerouac er einn þeirra rithöfunda sem hver einasta kynslóð þarf að uppgötva að sjálfsdáðum og gera að sinni í svo og svo langan tíma. Enn í dag ferðast ungt fólk um heiminn innspírerað eftir lestur á On the Road og þrátt fyrir að Kerouac hafi ekki fundið upp “vegasöguna” er On the Road orðinn samnefnari fyrir slíkar tegundir bókmennta. Eins og F Scott Fitzgerald, sem var rödd hinnar svokölluðu “Lost Generation” í Bandaríkjunum, var Kerouac rödd hinnar svokölluðu “Beat Generation” en kynslóðirnar eiga það sameiginlegt að rísa upp úr rústum heimsstyrjaldar og neyðast til að enduruppgötva tilgang lífsbaráttunnar í frekar vonlausum  heimi. Það er því ef til vill ekki tilviljun að vegferð þeirra beggja einskorðist að mestu við eina bók – og að í þeim báðum spili djassinn stóra rullu.


Djöfuls klípa

Ég ferðaðist til Ísrael fyrir um átta árum, ( frekar en níu ) og hef búið að þeirri reynslu síðan. Við fórum tveir, ég og Kári vinur minn og ég minnist þess að við höfðum enga hugmynd um hvert við værum að fara. Gott ef Ísrael varð ekki fyrir valinu því að veðurspáin þar var sú besta þegar við gáðum að.

Alla vega. Síðan þá hef ég ekki litið deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafsins sömu augum.

En nú held ég að ég hafi aldrei átt í meiri vandræðum með að velja hinn réttláta frá hinum rangláta í þessu proxy-stríði í Líbanon

Það er vonandi enginn í vafa um að mannrán Hizbollah (eða hvernig er það aftur skrifað) hafi verið ögrun (líklega að áeggjan Írana og Sýrlendinga) og að viðbrögð Ísraela hafi verið réttlætanleg.

En nú þegar maður heyrir af drápum á friðargæsluliðum SÞ renna á mann tvær grímur. Það að saklausir borgarar verði fyrir sprengjum Ísraela er hræðilegt en þetta er nú það sem Hizbollah treystir á. Þeir stilla sínum skotpöllum upp í miðju íbúðahverfi og kenna síðan Ísraelum um þegar saklaust fólk verður fyrir gagnárás. En ef Mossad þekkir ekki munin á hryðjuverkamönnum og friðargæsluliðum þá er eitthvað ekki í lagi.

Það hefur aftur og aftur sannað sig að þegar háttsettir menn í Hizbollah eða Hamas verða hræddir um sitt eigið líf, þá semja þeir um vopnahlé. Þeim er ekki hugað um líf saklausra borgara, ekki frekar en sjálfsmorðssprengjumenn (þvílíkt orð) og mann grunar að þegar herfylkingar Ísraela nálgast höfuðstöðvar Hizbolla muni Íranir eða aðrir skerast í leikinn. Sjáum til.

Þetta er ljót og ósanngjörn deila sem enginn endir virðist vera á en manni finnst eins og að þeir sem geti haft áhrif á hana og jafnvel leyst hana séu ekki að reyna í raun. Clinton reyndi og hann reyndi oftar en flestir gera sér grein fyrir en hann var líka svolítið bláeygður þegar það kom að Arafat.

Hvað Bush varðar, verð ég að játa að ég hef aldrei náð honum fullkomlega. Ég hef enga trú á því að hálfviti komist til valda í lýðræðisríki en hingað til hefur honum ekki tekist það vel til að sannfæra mig um hið gagnstæða.

Ekki frekar en Blair.


Nafn rósarinnar

Þýðing Thors Vilhjálmssonar á Nafni rósarinnar eftir Umberto Eco var endurútgefin á dögunum. Endurútgáfunni fagna margir því þýðingin var svo gott sem ófáanleg í bókabúðum landsins og sömu sögu var að segja um bókasöfnin þar sem um bókina var setið. Þeir sem hafa lesið íslensku þýðinguna á Nafni rósarinnar vita hvers lags stórvirki Thor Vilhjálmsson vann með henni og á þessum síðustu og verstu tímum þegar erlendum bókum er meira eða minna snarað upp á íslensku verður þýðing á borð við Nafn rósarinnar að fágætum dýrgrip sem aftur og aftur má draga fram úr hillu og dást að. En nóg um það, mig langaði að tala um bókina sjálfa og þá sér í lagi nafn bókarinnar sem er eins og skáldsagan ekki öll þar sem hún er séð.

Af hverju Umberto Eco ákvað að skíra skáldsöguna Nafn rósarinnar hefur verið vinsælt umræðu- og rannsóknarefni frá því að bókin kom út árið 1980. Í sögunni sjálfri er ekki minnst á rós í þeim skilningi að hún getur útskýrt nafn bókarinnar, nema á síðustu blaðsíðunni þegar sögumaðurinn Adso frá Melk segir í hexametrískum hætti: Stat rosa pristina nomine, nomina tuda tenemus. Sem útleggst svo á íslensku: Af rósinni forðum stendur nafnið eitt, vér höldum aðeins í nakin nöfn. Hvað Adso á við með þessu er ekki auðséð enda er skáldverkið svo gegnsýrt af vísunum hingað og þangað í fornar aldir og rykfallnar arkir að ómögulegt er að vita nokkuð með vissu án þess að spyrja Eco beint út. En það hefur svo sem oft verið gert þó færra hafi verið um svör.

Í fyrsta lagi má rekja þessar línur (og þetta hefur Eco staðfest) til kvæðisins De contemptu mundi sem er eignað munknum Bernardi frá Morlay sem var uppi á þrettándu öld. Kvæðið byggir á vinsælu miðaldastefi sem hefst á latnesku orðunum Ubi sunt (ísl. hvar eru). Í því kvæði og öðrum svipuðum er sunginn óður til þess sem áður var en er ekki lengur og í kvæði Bernard segir að í reynd skilji hlutirnir ekkert eftir sig, “nema nafnið eitt”. Í stuttu máli má rekja þessar ljóðlínur eða hugmyndaheiminn að baki þeim til frumspeki Aristótelesar þar sem tilraun er gerð til að útskýra eðlið og muninn á því einstaka og altæka.

 Þessi speki Aristótelesar var dregin í efa á 12. öld af heimspekingnum Peter Abelard en Abelard þessi kemur við sögu Nafn rósarinnar eftir svolitlum krókaleiðum því yfirlýstur skoðanabróðir Abelards, Vilhjálmur af Ockham (sá hinn sami og rakhnífur Ockhams er kenndur við) er sagður í skáldsögunni hafa verið lærifaðir Vilhjálms af Baskerville, söguhetju bókarinnar. Svolítið flókið en við hæfi þegar um Nafn rósarinnar er að ræða.Abelard hélt því fram, þvert á hugmyndir Aristotelesar, að ekkert væri altækt í veröldinni nema í mannlegri hugsun og máli og að nöfn (takið eftir) hafi merkingu í hugsuninni þótt hlutinn sjálfan skorti. Þessa kenningu sannaði hann með því að ella væri setningin “engin rós er til” merkingarlaus.

Ockham tók upp þráðinn þar sem Abelard skildi við hann og síðar átti Ockham eftir að hafa mikil áhrif á skólaspeki miðalda og þá sér í lagi með tilliti til guðfræðinnar en um guðfræði og fátækt krists er töluvert rætt í Nafni rósarinnar. Þó sumum kunni að finna það langsótt má hugsa sér að í þessum kenningum megi finna þann hugmyndafræðilega og heimspekilega bakgrunn sem að nafni bókarinnar er, enda Eco fróðari en flestir um miðaldafræði Evrópu.

Önnur útskýring sem gengur nær eiginlegum söguþræði bókarinnar er sú að þegar Adso lætur þessi orð falla í niðurlagi bókarinnar, þá sé hann að vísa til stúlkunnar sem hann verður ástfanginn af í klaustrinu og er að lokum pyntuð og brennd fyrir galdra án þess að Adso lærði nokkurn tímann nafn hennar. Þessu til stuðnings segir vinsæl þjóðsaga á miðöldum frá því að fyrir kraftaverk hafi fyrstu rósirnar sprottið í Betlehem eftir að hrein og fögur mey var brennd á báli fyrir rangar sakir Þá má einnig geta þess að María mey var kölluð hin helga rós í kristni.


Af mishelgu fólki

st_george.jpg
Í vikunni verður áhugavert mál tekið til umræðu á prestastefnu ensku biskupakirkjunnar sem gæti haft víðtæk áhrif á enska kirkjumenningu, en einnig á ásjónu stuðningsmanna enska landsliðsins í knattspyrnu - eins skringilega og það hljómar.

Um er að ræða tillögu Philips Chesters, sóknarprests í Westminster, um að heilagur Alban verði gerður að verndardýrlingi ensku biskupakirkjunnar við hlið heilags Georgs sem Philip og aðrir stuðningsmenn tillögunnar segja of herskáan og særandi í garð múslima - og útlendinga almennt.

Það sem gerir málið ef til vill áhugaverðara en ella er að angar þess teygja sig bæði aftur til forsögulegra tíma og til þeirrar framtíðar sem kristið fólk vill skapa í fjölmenningarríkinu Englandi.

Tillaga Chesters og félaga verður að teljast nokkuð djörf þar sem heilagur Georg hefur verið höfuðdýrlingur Englendinga allt frá miðöldum þegar krossfarar fluttu píslarsögu hans með sér frá landinu helga. Í dag er hann án efa einn frægasti dýrlingur hins kristna heims - ekki síst fyrir tilstuðlan teiknimyndasagna þar sem hann er sívinsæll í hlutverki drekabanans mikla. Hann er verndardýrlingur kristinna manna í Búlgaríu, Makedóníu, Rússlandi, Georgíu, Eþíópíu og Svíþjóð auk Englands en svo er hann dýrlingur enn fleiri borga og málefna um víða Evrópu - á hann er til að mynda heitið þegar fólk vill læknast af herpes og öðrum húðsjúkdómum.

Það merkilega við heilagan Georg er að það hefur ekki verið sannað með óhyggjandi hætti að hann hafi í raun og veru verið til en hann er talinn hafa verið uppi um aldamót þriðju og fjórðu aldar e.kr., í Litlu-Asíu. Í píslarsögunni segir að Georg, sem þá var hermaður í þjónustu rómverska keisarans Díokletían, hafi neitað að framfylgja skipun keisarans um að ofsækja kristna menn og hlotið að launum dauðadóm. Sagan hermir að maður einn, sem varð vitni að því þegar Georg var bæði pyntaður og hálshöggvinn, hafi sannfært Alexöndru keisaraynju og heiðinn prest, Aþanasíus nokkurn, um að taka kristna trú en þar með hlutu þau bæði dauðadóm og liðu eigin píslarvætti.

Eins og áður sagði er goðsagan (eða ævintýrið) um Georg drekabana þekktari en píslarsagan en þar er líklega um að ræða goðsögu sem á sér fyrirmynd í enn eldri goðsögum, indóevrópskum. Fyrir þá sem muna hana illa hefst hún á því að mannýgur dreki hreiðrar um sig við vatnsból konungsdæmis og í kjölfarið verða þegnar þess að færa drekanum eina mannfórn á dag svo þeim leyfist að sækja sér vatn. Hverjum skal fórnað er ákveðið með (ó)happadrætti og án andmæla - allt þar til að dóttir konungsins er dregin út. Í örvæntingu sinni býður hann þegnum sínum hálft konungdæmið gegn því að lífi dóttur hans verði þyrmt en án árangurs. Í þann mund ríður heilagur Georg á hvítum fáki um konungdæmið og heyrir af vanda konungs. Hann berst við drekann og leysir prinsessuna úr prísundinni en til að sýna þakklæti sitt taka konungur og þegnar hans kristna trú og jafnskjótt öðlast vatnsbólið mikinn lækningamátt - sér í lagi á húðsjúkdómum.

St AlbanSt Alban

Þrátt fyrir að píslarsagan leggi ekki jafnmikið upp úr drápum Georgs og ævintýrið af drekanum hefur helgi hans ætíð verið tengd hernaði og myndir af honum er að finna á skjaldarmerkjum herfylkinga um allan heim. Hann er eini dýrlingurinn sem sést í miðjum bardaga á helgimyndum og þá oftar en ekki í rómverskum herklæðum. Það er því líklega þess vegna og ekki síst fyrir þá staðreynd að það voru krossfararnir sem héldu minningu og helgi Georgs á lofti að prestar eins Philip Chester kalla nú eftir því að heilagur Alban verði settur á jafnháan stall og heilagur Georg (og helst hærri). Og í raun og veru hefur helgi Albans mun meira með England nútímans að gera. Fyrir það fyrsta er það vitað með vissu að umræddur Alban var uppi - einhvern tímann í upphafi fjórðu aldar e.kr., og það sem meira er, hann leið sitt píslarvætti á enskri grundu (í Hertfordskíri norður af London) og er þ.a.l. fyrsti enski dýrlingurinn. Sagan segir að Alban hafi veitt kristnum presti, sem var á flótta undan rómverskum hermönnum, felustað á heimili sínu og að presturinn hafi í kjölfarið veitt Alban skírn. Til að villa um fyrir Rómverjunum skiptu þeir Alban og presturinn á klæðum sem varð svo til þess að rómversku hermennirnir handtóku Alban í misgripum fyrir prestinn. Þegar upp um það komst urðu þeir æfir og spurðu Alban hvort hann hefði snúist til kristni en við því svaraði Alban: "Ég tilbið og dýrka hinn sanna, lifandi guð, skapara himins og jarðar." Þrátt fyrir pyntingar Rómverjanna neitaði Alban að ljóstra upp um felustað prestsins og svo fór að hann var dreginn út fyrir borgarmörkin og upp á hæð þar sem hann var hálshöggvinn. Á þeim stað stendur í dag dómkirkja heilags Albans.

Í inngangi pistilsins talaði ég um að niðurstaða prestaþingsins gæti mögulega haft áhrif á það hvernig enskir stuðningsmenn koma okkur hinum fyrir sjónir á keppnismótum framtíðarinnar. Þar á ég við kross heilags Georgs (rauður kross á hvítum fleti) sem enskir stuðningsmenn flagga ótt og títt og er þjóðfáni Englands. Fáninn á uppruna sinn í krossferðunum eins og svo margt annað en eins og Philip Chester og aðrir hugsa til með hryllingi máluðu riddararnir krossinn með blóði þeirra múslima sem drepnir voru á vígvellinum.

Kross heilags Albans er aftur á móti tvær gular skálínur á bláum fleti og menn geta því auðveldlega ímyndað sér keðjuverkunina af því ef heilagur Alban verður settur skör hærra en Georg.

Á hinn bóginn gætu enskar fótboltabullur huggað sig við það að flóttinn undan óeirðalögreglunni yrði hægur leikur innan um saklausa, sænska stuðningsmenn.


Fleiri myndir

Lofsöngvar á HM

HM

Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu er í algleymingi um þessar mundir. Þrjátíu og tvö knattspyrnulið jafnmargra þjóðlanda eru samankomin í Þýskalandi og innan mánaðar (9. júlí) mun ein þjóð standa uppi sem sigurvegari í vinsælustu íþrótt veraldar.

Menningarvitar um allan heim keppast nú við að listgera knattspyrnuna eins og lög gera ráð fyrir á póstmódernískum tímum og sýnist sitt hverjum um þær tilraunir. Ég hef svo sem lítið út á þá umræðu að setja þó að í mínum huga sé knattspyrna fyrst og síðast keppnisíþrótt og tæplega vill nokkur menningarviti heimfæra það upp á listirnar - eða hvað?

En það er önnur listgrein sem töluvert fer fyrir á heimsmeistarakeppninni í Þýskalandi. Nefnilega tónlist. Áhorfendur að keppninni gera sér e.t.v. ekki grein fyrir því en nákvæmlega 128 sinnum verða þjóðsöngvar landanna fluttir í Þýskalandi - níutíu og sex sinnum í riðlakeppninni og þrjátíu og tvisvar sinum í úrslitakeppninni. Þá hefja tugþúsundir áhorfenda sem mættir eru á völlinn upp raust sína og kyrja sönginn með stolt í brjósti við undirleik lúðrasveitar. Það má svo eflaust halda því fram - ef gert er ráð fyrir að stór hluti almennings í hverju landi syngi með fyrir framan sjónvarpstækin - að á þessum 30 dögum sem keppnin fer fram muni einn sögulegasti fjöldaflutningur á þjóðsöngvum fara fram.

Sögu þjóðsöngsins má rekja aftur til síðari hluta 16. aldar þegar hollenskir héraðshöfðingjar risu upp gegn spænskri stjórn í stríði sem síðar var kallað 80 ára stríðið. Söngurinn, sem enn er sunginn í Hollandi, var kallaður "Het Wilhelmus" í höfuðið á Vilhjálmi frá Nassau (e.t.v. betur þekktur sem Vilhjálmur af Óraníu) en textinn er byggður upp "akrostískt" þar sem fyrstu stafir hvers erindis mynda orðin Villem van Nassov.

Með fjölgun þjóðríkja í Evrópu á síðustu og þarsíðustu öld tóku æ fleiri þjóðir upp sinn eigin þjóðsöng og þegar nýlenduþjóðirnar fóru tilneyddar að taka upp innflutta siði voru þjóðsöngvar samdir að evrópskri fyrirmynd - eins og margir hafa eflaust tekið eftir í tilviki Afríkuþjóðanna á HM. Nú til dags eru aðeins örfáar þjóðir utan Evrópu sem byggja þjóðsöngva sína á innlendri tónlistarhefð en þær eru Japan, Kosta Ríka, Íran, Sri Lanka og Búrma.

Þvert á hugmyndir margra hafa fáir þjóðsöngvar verið samdir af þekktum tónskáldum. Fáir kannast til dæmis við Claude Joseph Rouget de Lisle, sem samdi "La Marseillaise", og þá var laglínan við bandaríska þjóðsönginn, "The Star-Spangled Banner", fengin að láni frá öðru lagi sem kallast "To Anacreon in Heaven" eftir hið annars óþekkta enska tónskáld John Stafford Smith. Merkilegra er þó kannski að enski þjóðsöngurinn, "God Save the Queen", var saminn af manni, hvers nafn er fyrir löngu fallið í gleymskunnar dá. (Sama laglína er sungin við vísuna "Eldgamla Ísafold" eftir Bjarna Thorarensen og var um tíma eiginlegur þjóðsöngur okkar.)

Á hinn bóginn var þýski þjóðsöngurinn, "Gott erhalte Franz den Kaiser" (í dag "Das Lied der Deutschen"), saminn af hinu þekkta tónskáldi Joseph Haydn og svo vilja Austurríkismenn trúa því að sjálfur Wolfgang Amadeus Mozart hafi samið þjóðsöng þeirra þó að skotheldar heimildir finnist ekki víða um það.

Hér á landi hefur þjóðsöngurinn lengi verið umdeildur. Margir agnúast út í laglínuna, sem er eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, en hún þykir mjög erfið til söngs þar sem tónbilið (frá dýpsta tóni til þess hæsta) spannar víðara söngsvið en hinn almenni söngvari ræður við. Enn aðrir hafa látið texta lagsins fara fyrir brjóstið á sér en þar er um sálm að ræða, og trúarlegan mjög, sem sumum finnst ekki við hæfi. Þess utan hefur athygli verið vakin á því að í fyrsta erindi gerist Matthías Jochumsson sekur um hugsunarvillu þar sem eilíft smáblóm deyr; "...eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár/sem tilbiður guð sinn og deyr."

Hann er væntanlega ekki sá eini sem gerist sekur um slíkt í sögu kristinnar hugmyndafræði.

En hvort sá dagur rennur upp að "Lofsöngur" Matthíasar og Sveinbjörns verði sunginn á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu skal ósagt látið.

Það er í það minnsta nægur tími til að íhuga aðra kosti.


Sigið til hnignunar

bitlarnir.jpg
Í dómi sem ég skrifaði um tónleika Supergrass á tónlistarhátíðinni Reykjavík Trópík, og birtist í Morgunblaðinu í gær, minntist ég á þá umræðu sem nú fer fram um hnignun hljómleikaiðnaðarins á Íslandi. Skipuleggjendur tónleika með erlendum hljómsveitum, virðast í síauknum mæli, vegna dræmrar miðasölu, neyðast til að flytja tónleika úr stórum íþróttamannvirkjum í smærri samkomuhús eða einfaldlega blása tónlistarviðburðinn af, eins og gerðist með tónlistarhátíðina Reykjavík Rokkar sem fara átti fram um mánaðamótin júní, júlí. Þessi þróun hlýtur að vera þessum sömu skipuleggjendum mikið áhyggjuefni því eins og gefur að skilja, eru háar fjárhæðir eru í húfi. En hvað veldur?
 
Eftir dulitla umhugsun hygg ég að grundvallarþættir núverandi ástands séu þrír:
Í fyrsta lagi ber að nefna það sem kalla má „upplýsta hegðun neytenda“, þ.e.a.s. að íslenskir tónleikagestir séu orðnir betur upplýstir um gæði framboðsins og velti því frekar fyrir sér hvort það sé fyrirhafnarinnar virði að sækja einstaka tónleika með tilliti til tíma og fjárhags. Hér áður fyrr má segja að Íslendingar hafi snobbað fyrir erlendum tónlistarmönnum og undantekning var ef illa seldist á hljómleika þeirra. Nú er öldin önnur – aukið framboð síðustu missera hefur mettað markaðinn með þeim afleiðingum að þær forsendur sem skipuleggjendur tónleika gáfu sér áður, reynast úreltar í dag.
Í þessu sambandi skiptir varan (hljómsveitin) aðalmáli.
 
Önnur ástæðan kemur í beinu framhaldi af þeirri fyrstu og gengur út á hæfileika skipuleggjandans til að lesa í eftirspurnina, umfang markaðarins og haga þannig kostnaði við hljómleikana í samræmi við þá spá. Þeir Íslendingar sem farið hafa á tónleika með vinsælum tónlistarmönnum í útlöndum furða sig stundum á því að meðalaðsókn er ekki mikið meiri en 3.000 tónleikagestir. Vinsælir tónleikastaðir á borð við Razzmatas í Barcelona, Palladium og Dominium í London taka rétt rúmlega 2.000 gesti en þar koma stórar hljómsveitir fram á hverju ári. Og þá liggur beint við að spyrja; af hverju ættu fleiri íslenskir tónleikagestir að sækja slíka hljómleika?
Það sem áður hefur verið kallað hnignun hljómleikamarkaðarins, gæti þess vegna í raun verið tilhneigin hans til að rétta sig af með tilliti til raunverulegs fjölda neytenda.
Í þessu sambandi skiptir staðsetning tónleikanna aðalmáli.
 
Þriðja og síðasta ástæðan er bundin við ákveðið ástand í þjóðfélaginu sem snýr að fjárhag heimilanna. Í ljósi aukinnar skuldastöðu almennings og spár um válynda tíma í efnahagsmálum þjóðarinnar, er ekki óvitlaust að gera ráð fyrir því að þeir markaðir sem að algerum hluta snúast um dægradvöl, séu þeir fyrstu til að fara halloka – og öfugt, ef um mikla hagsæld er að ræða.
Iðnaður á borð við hljómleikaiðnaðinn er afar viðkvæmur fyrir sveiflum í hagkerfinu og þegar skóinn kreppir (eða þá að blikur séu á lofti um að það muni hann gera) er almenningur gjarn á að láta hluti eins og leikhús, tónleika og kvikmyndahús mæta afgangi.
Í þessu sambandi skiptir miðaverð á tónleikana aðalmáli.
 
Að sjálfsögðu verða allir þessir þættir að ganga upp svo að einstakir hljómleikar standist væntingar og aðrir hlutir á borð við auglýsingar og tímasetningu geta einnig skipt töluverðu máli.
Hins vegar má af þessari greiningu sjá að í stað þess að talað sé um hnignun hljómleikamarkaðarins á Íslandi, væri réttara að segja að hann hefði nú fyrst náð jafnvægi – nú fyrst hagar hann sér eins og hljómleikamarkaðir annars staðar í heiminum.


Kunnuglegur söngur eftir Evróvisjón

Lordi
Það er ekki laust við að maður finni fyrir svolitlum Evróvisjón-timburmönnum þessa dagana. Ég var eins og margir öruggur um að Silvía kæmist áfram í lokakeppnina en eftir að atriði hennar sleppti á sviðinu í Aþenu runnu á mig tvær grímur. Fyrir það fyrsta var söngurinn ekki jafnkraftmikill og lagviss og í undankeppninni hér heima og svo ruglaði sviðsmyndin mig frekar í ríminu en hitt, að hún bætti einhverju við atriðið.

Þegar það var svo ljóst að Silvía kæmist ekki áfram fann maður fyrir svipaðri líðan og þegar maður skyndilega uppgötvar að maður hefur setið of lengi í samkvæmi sem var manni kannski ekkert sérstaklega að skapi til að byrja með - en þá er líka yfirleitt farið að renna af manni.

Fyrstu dagana eftir keppnina heyrði maður og las (í fjölmiðlum og á bloggsíðum) margar skýringar á því hvers vegna framlag Íslands hefði ekki hlotið náð fyrir augum Evrópubúa. Oftast heyrði maður þá fullyrðingu að Ísland ætti engan sjens í keppninni lengur því að henni væri í raun stjórnað af þjóðum Austur-Evrópu. "Það er ljóst að Austur-Evrópa er í tísku núna. Mörg lög þaðan komast í gegn án þess að eiga það skilið," sagði Selma Björnsdóttir í viðtali við Morgunblaðið þann 19. maí og í öðru viðtali við Jón Jósep Snæbjörnsson sagði Jónsi eitthvað á þá leið að réttast væri að kalla keppnina "Balkanvisjón" eða "Júgóvisjón".

Eflaust hafa margir tekið undir þessar fullyrðingar fullir af heilagri Evróvisjón-reiði og svona fullyrðingar hljóma mjög vel þegar mann svíður hvað mest undan tapsárindunum.

En stenst þetta nánari skoðun?

Mér reiknast það til að 37 Evrópuþjóðir hafi tekið þátt í keppninni í ár; 16 Austur-Evrópuþjóðir, 19 Vestur-Evrópuþjóðir (þar með talin smáríkin Andorra og Mónakó) og svo Ísrael og Tyrkland, sem ég kann satt að segja ekki að flokka í þessu sambandi.

23 þjóðir kepptu í undankeppninni; 12 Austur-Evrópuþjóðir og af þeim komust sex áfram, og 11 Vestur-Evrópuþjóðir (Tyrkland þar með talið) en af þeim komust fjórar áfram.

Varla dettur nokkrum manni í hug að segja að hlutfallið þar hafi verið sérstaklega óeðlilegt.

Í úrslitakeppninni kepptu svo aðrar 24 þjóðir: 10 Austur-Evrópuþjóðir og 14 Vestur-Evrópuþjóðir og í tíu efstu sætunum lentu svo að lokum sex Austur-Evrópuþjóðir og fjórar Vestur-Evrópuþjóðir.

Nú er ég enginn líkindafræðingur en þegar þetta hlutfall er skoðað er varla hægt að halda því fram af mikilli hörku að það sé skítalykt af þessu öllu saman - sérstaklega ekki þegar haft er í huga að Vestur-Evrópuþjóðin Finnland fór með sigur af hólmi - og með nokkrum yfirburðum meira að segja.

En fyrir þá sem hafa gaman af samsæriskenningum þá er rétt að benda á það að eitt landsvæði í Evrópu sker sig úr og á þetta benti Stefán Pálsson á síðu sinni daginn fyrir aðalkeppnina:

"Fjögur af Norðurlöndunum fimm verða með í úrslitakeppninni annað kvöld. Það er 80%. Þetta er augljóslega galið hlutfall og ætti að kalla á umræður um það hvort ekki sé einhver meinsemd í keppnisfyrirkomulaginu sem hygli lögum frá Skandinavíu sérstaklega.

En nei - vegna þess að eitt Norðurlandanna fimm féll úr keppni, þannig að þau ná ekki 100% þátttökuhlutfalli í úrslitum, þá er þetta orðin Söngvakeppni Austur-Evrópu..."


Bókaþjóðin sem les ekki bækur

vendetta.jpg
Ég tók eftir því um daginn þegar ég var staddur í ónefndri erlendri borg að varla var til það hverfi sem ekki státaði af að minnsta kosti einni bókabúð. Það sem meira var, þessar bókabúðir voru í flestum tilvikum gríðarlegar að stærð; tugir hillustæða, troðfullar af bókum í öllum mögulegum flokkum lista, fróðleiks og afþreyingar, og stundum var úrvalið slíkt í þessum búðum (sem bera nöfn eins og Barnes & Noble eða Waterstone's), að manni féllust bókstaflega hendur andspænis öllum þessum efnislega undraheimi bókarinnar.

Því miður lendir maður ekki í svipuðum aðstæðum hér á landi. Flestar íslenskar bókabúðir bjóða upp á afar takmarkað úrval bóka og þrátt fyrir að manni þyki mjög vænt um einstakar búðir og geri sér þangað leið af gömlum vana er það æ algengara að maður gangi aftur út tómhentur. Yfirleitt finnur maður ekki það sem maður leitar að, eða þá að verðið er slíkt að maður ákveður að bíða og kaupa frekar bókina í útlöndum (að því gefnu að hún sé á erlendu tungumáli).

Það mætti hugsa sér að fjöldi bókabúða í hverju landi endurspeglaði af nokkurri nákvæmni bókmenntaáhuga þjóðarinnar og ég hef heyrt það frá fólki mér eldra, að í eina tíð hafi bókabúðir verið í hverri einustu verslunargötu í Reykjavík.

Ef leitað er í símaskránni sést að fyrir utan fornbókabúðir eru um tuttugu bókabúðir á Íslandi í dag. Þar af er alla vega helmingur sem sér að miklum hluta um sölu á gjafavöru, ritföngum og/eða námsbókum fyrir skóla. Við erum þá kannski að tala um tíu "alvöru" bókabúðir sem þjónusta 350 þúsund íbúa. Það samsvarar einni bókabúð á hverja 35 þúsund íbúa. Til viðmiðunar bjuggu um 60 milljónir manna í Bretlandi árið 2000 og á sama tíma voru um 3.500 bókabúðir í landinu - eða ein búð á hverja 17 þúsund íbúa. Er af þessu hægt að draga þá ályktun að bókmenntaáhugi Íslendinga sé minni en bresku þjóðarinnar?

Það er ef til vill óréttlátt að miða hinn litla íslenska bókamarkað við stóra markaði á borð við þá sem er að finna í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hér þarf líka að hafa í huga að tungumálið setur okkur nokkrar skorður. Íslendingar vilja fremur lesa á íslensku og úrval bóka á íslensku getur aldrei keppt við það sem finna má í enskumælandi löndum. En hvað þá ef við miðum Ísland við önnur smærri ó-enskumælandi þjóðir: Í Albaníu búa um 3,6 milljónir manna og þar er að finna um 350 bókabúðir eða eina búð á hverja tíu þúsund íbúa. Í Eistlandi er ein búð á hverja 13 þúsund íbúa og í Ungverjalandi ein búð á hverja 16 þúsund íbúa. Á þessum tölum má sjá að Ísland er ekki í neinum sérflokki þegar það kemur að fjölda bókabúða í löndum með annað tungumál en ensku að móðurmáli. Hvað er þá orðið um bókaþjóðina miklu sem við höfum ávallt haldið fram að við séum? Eða hafa bókabúðir ef til vill ekkert með bókaáhuga okkar að gera?

Af illri nauðsyn lesa Íslendingar mikið af erlendum bókum. Þar að auki hefur áhugasvið almennings breikkað á undanförnum árum og fólk sem áður fyrr hryllti við fræðiritum ýmiss konar veigrar sér ekki í dag við að lesa lipurlega skrifaðar bækur um efnahagsmál, markaðsfræði og stjórnmál, svo eitthvað sé nefnt. Líklega hafa stóru bókabúðirnar reiknað það út að það borgi sig ekki að flytja inn fleiri bækur á erlendri tungu, markaðurinn sé of lítill. Þó er þessi hlutur erlendra bóka hér á landi engu að síður töluverður ef litið er til annarra þátta en hefðbundinnar bóksölu. Æ fleiri Íslendingar nýta sér til dæmis bóksölur á netinu og á síðasta ári bárust, samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti, tæplega 40 þúsund póstsendingar frá netversluninni Amazon hingað til lands. Við getum hóflega áætlað tvær bækur í hverri sendingu sem þýðir að hátt í 100 þúsund bækur eða annað lesefni berst hingað til lands á ári hverju. Líklega meira. Til viðmiðunar jókst netsala á bókum í Bretlandi um heil 33% á síðasta ári og var þá um 8% af heildarsölu bóka þar í landi. Þessi prósentutala mun örugglega hækka í framtíðinni - þar og hér.

Það vakti athygli mína á dögunum þegar Félag íslenskra bókaútgefenda, með stuðningi Glitnis, veitti heimilunum í landinu þúsund króna ávísun til bókakaupa. Ég hugsaði með mér að bóklestur hlyti að vera að dragast þó nokkuð mikið saman fyrst gripið væri til slíkra aðferða. Rithöfundar eins og Þorsteinn frá Hamri segja að svo sé og það er í sjálfu sér engin ástæða til að draga það mat í efa. Úrval afþreyingarefnis af öllum mögulegum toga hefur aukist á síðustu árum og eins lengi og klukkutímunum í sólarhringnum fjölgar ekki er rökrétt að draga þá ályktun að hlutur bókarinnar minnki að sama skapi.

Á hinn bóginn segja menn í bókaiðnaðinum hér á landi að markaðurinn sé í raun að stækka og þá flækist málið. Hvernig getur bóklestur farið minnkandi á sama tíma og markaðurinn sjálfur stækkar? Margir segja að aukin útgáfa í kiljuformi sé orsökin og sú þróun er svipuð í öðrum löndum en það er aðra ástæðu að finna sem er í raun mun áhugaverðari.

Félag íslenskra bókaútgefenda hefur á undanförnum árum fengið IMG Gallup til að gera könnun á jólabókagjöfum landsmanna. Þessar kannanir sýna, eins og menn hafa ályktað, að þeim Íslendingum fækkar sem fá bækur í jólagjöf. En það sem þessar kannanir sýna líka er að þeir sem á annað borð fá bókagjafir fá mun fleiri bækur en áður tíðkaðist. Sem sagt; hinn dæmigerði lestrarhestur vegur upp á móti minnkandi bóklestri almennings í landinu. Getur þá verið að bókaþjóðin mikla sé, þegar öllu er á botninn hvolft, ef til vill ekkert annað en afmarkaður hópur bókaorma? Þetta skyldi þó ekki vera sami hópurinn og mætir á bókmenntahátíðirnar, upplestrana og útsölumarkaðina?

Menn vilja oft tengja bóklestur við þekkingu og menntun og ef það er gert á öfugum forsendum, það er að segja að hátt menntunarstig leiði til mikils bóklestrar, er Ísland í enn verri málum. Samkvæmt nýjustu skýrslu OECD um menntamál kemur fram að hlutfall Íslendinga á aldursbilinu 25-34 ára sem lokið hafa framhaldsskólanámi er einungis 64%. Þetta hlutfall er á bilinu 86-95% hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. Í sömu skýrslu kemur einnig fram að af 30 OECD-þjóðum er Ísland í 25. sæti, sem þýðir að flest iðnríki heims eru menntaðri en við.

Af þessum tölum að dæma virðist það nokkuð ljóst að við Íslendingar lesum ekki nóg - þó ekki væri nema námsbækurnar.


Konungur skýjakljúfanna

c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_empire_state.jpg
Þann 1. maí næstkomandi eru 75 ár liðin frá því að Empire State byggingin var opnuð almenningi og af því tilefni gaf The Sunday New York Times út sérstakan blaðauka þar sem farið er yfir sögu byggingarinnar í máli og myndum. Blaðaukinn er listavel unninn og afar fræðandi. Hann ber ekki einungis sögu byggingarinnar gott vitni, heldur lýsir hann einnig vel þeim krafti sem virðist samofinn New York og sér í lagi metnaði þeirra manna sem borgina byggðu – og byggja í dag.
 
Eftir að Tvíburaturnarnir féllu í september árið 2001 varð Empire State byggingin aftur að hæsta skýjakljúfi New Yorkborgar. Þrátt fyrir að margir myndu kalla það vafasaman titil með tilliti til aðstæðna má með sanni segja að Empire State hafi endurheimt þá sérstöðu sem byggingin hafði í rúma hálfa öld frá því að hún reis á kreppuárunum. Á hinn bóginn segja aðrir að Tvíburaturnarnir hafi aldrei fyllilega náð að skyggja á vegsemd Empire State. Bæði hafi lögun þeirra verið slík að þeir skáru sig ekki nægilega úr og svo hafi staðsetning þeirra (við suðurhöfn Manhattan) verið mun lakari en staðsetning Empire State sem er á 35. stræti og fimmtu breiðgötu og myndar ákveðinnn miðpunkt á Manhattan með ótrúlegu útsýni til allra átta.
 
Empire State byggingin sjálf er 381 metri á hæð. Til marks um stærð hennar tekur það heila þrjá mánuði að þrífa alla glugga byggingarinnar og um leið og síðasti glugginn hefur verið gljáfægður er strax hafist handa við þann fyrsta á ný. Útvarpsloftnet sem stendur á toppi byggingarinnar eykur hæð hennar um rúma 62 metra en eldra loftnet sem stóð á byggingunni frá 1951 til 1984 var fimm og hálfum metra hærra. Núverandi hæð hennar er á við sex Hallgrímskirkjur og á heiðskírum degi er fjarlægðin sem augað eygir, 130 kílómetrar. Empire State byggingin reis á undraverðum 13 mánuðum og í ágúst 1930 þegar á hápunkti framkvæmdanna stóð, voru 3.439 iðnaðarmenn við störf. Það sem gerir þennan mikla hraða enn merkilegri er að bygging var byggð án nokkurrar yfirvinnu. Vinna hófst klukkan átta að morgni og henni lauk stundvíslega kl. 16.30. Eins og svo margar ljósmyndir sýna frá þessum tíma voru öryggisstaðlarnir litlir sem engir. Iðnaðarmenn báru ekki harðhatta, né voru öryggisnet höfð uppi ef svo óheppilega vildi til að einhverjum skrikaði fótur. Þrátt fyrir það létust einungis 12 manns við framkvæmdina – mun færri en venja var við byggingu háhýsa á þessum árum.
 
Empire State byggingin aflar umtalsverðra tekna á þeim fjórum milljónum gesta sem ár hvert njóta útsýnisins frá 86. hæð skýjakljúfsins (annar útsýnispallur við 102. hæð opnaði aftur síðasta haust eftir að hafa verið lokaður í nokkur ár en er smærri í sniðum og minna sóttur) en sem skrifstofubygging hefur Empire State eiginlega aldrei náð tilætluðum árangri. Eins og áður sagði opnaði byggingin tveimur árum eftir að verðbréfamarkaðurinn hrundi á Wall Street árið 1929 og því var spurn eftir skrifstofurými í lágmarki. Fljótlega fékk byggingin viðurnefnið „Empty State Building“ og jafnvel þann dag í dag eru rúm 18% skrifstofurýmisins ónotuð. Þrátt fyrir það skipar byggingin ótvíræðan sess í hugum New Yorkbúa og aðrar tekjur byggingarinnar en leigutekjur eru slíkar að auða skrifstofurýmið er eigendum byggingarinnar ekki mikið áhyggjuefni.
 
Eins og önnur há mannvirki hefur Empire State ekki farið varhluta af því að verða síðasti áfangastaður þeirra sem ákveða að binda enda á eigið líf. Fleiri en þrjátíu manns hafa varpað sér fram af byggingunni og nú síðast í febrúar á þessu ári stökk ungur maður til jarðar af 66. hæð. Fyrsta sjálfsvígið varð hins vegar nokkrum vikum fyrir opnun byggingarinnar þegar smíðasveinn stökk af 78. hæð og næstu tvo áratugi þar á eftir, varð tíðnin svo há að öryggisvörðunum var skipað að hafa auga með undarlegri hegðun gestanna. Árið 1947 voru ellefu óeinkennisklæddir öryggisverðir staðsettir á útsýnispallinum á 86. hæð og á tveimur mánuðum komu þeir í veg fyrir fimm einstaklingar næðu að klifra yfir eins og hálfs metra girðingu út í opinn dauðann. Sama ár var stærðarinnar stálgirðingingu komið upp sem átti að vera ókleif en það var hún að sjálfsögðu ekki.
 
Haft er eftir William Starrett sem fór fyrir verktakafyrirtækinu sem reisti Empire State, að bygging skýjakljúfa væri á friðartímum það afrek sem kæmist næst umfangi styrjalda. Þessi líking segir meira en mörg orð um það andrúmsloft sem einkenndi fyrri hluta síðustu aldar í New Yorkborg. Fjársterkir aðilar voru ekki hræddir við að leggjast í framkvæmdir sem oft á tíðum verkuðu brjálaðar á almenning en þessir sömu aðilar vissu einnig að auglýsingagildi skýjakljúfsins myndi auka hróður fyrirtækisins sem þeir stýrðu. Á nítjándu öld var viss hópur áhrifamanna í New York, afar andvígur háhýsum og kröfðust þess að lög væru sett sem takmörkuðu hæð þeirra. Til allrar hamingju varð þessum öflum ekki að ósk sinni því annars eru góðar líkur á að Empire State byggingin stæði ekki þar sem hún stendur í dag. Á hinn bóginn er ástæða til að velta fyrir sér orðum eins pistlahöfundur New York Times sem kemst svo að orði í umræddum blaðauka: "Það eins og með guð almáttugan og Empire State bygginguna; hvort sem guð er til eður ei, þá mun maðurinn alltaf sjá ástæðu til að búa hann til."

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband