Skáldskapur eða ekki?

c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_roth.jpg

Rithöfundurinn Philip Roth hefur verið í fremstu röð bandarískra rithöfunda allt frá því að smásagnasafn hans Goodbye Columbus kom út árið 1959. Í ár eru 25 ár frá því að fyrsta bók hans í Zuckerman þríleiknum svokallaða kom út.

 

ÞAÐ var öllum ljóst þegar Goodbye Columbus kom út að þar færi fullþroska rithöfundur sem ætti eftir að láta að sér mikið kveða. Roth hlaut hin eftirsóttu National Book Award fyrir smásagnasafnið en samfélag gyðinga í Bandaríkjunum var ekki skemmt. Roth var fljótlega úthrópaður fyrir andgyðinglegan áróður í sögum sínum og skipti þá engu máli að Roth var og er, gyðingur sjálfur.

 

Zuckerman þríleikur Philps Roth hefst á nóvellunni The Ghost Writer sem kom út árið 1979. Umfjöllunarefnið er eins og í svo mörgum skáldsögum Roth, gyðingdómurinn en einnig fer mikið fyrir spurningunni hvað felist í því að vera rithöfundur og hver sú ábyrgð er sem rithöfundar verða að axla þegar það kemur að ritlistinni. Skáldsagan segir frá Nathan Zuckerman, ungum og upprennandi rithöfundi sem dvelst í sólarhring á heimili annars rithöfundar E.I. Lonoff, eiginkonu hans Hope og ungri stúlku sem hjónin hafa tekið að sér og reynist vera hin eina og sanna Anne Frank, eða það vill sögumaður alla vega sannfæra lesandann um. Samræður Lonoffs og Zuckermans eru dásamlega skrifaðar eins og Roth er von og vísa og þá sérstaklega þegar Lonoff og Zuckerman fikra sig á hálli braut kurteisishjalsins sem reynist mörgum erfið við fyrstu kynni. Þegar líður kvöldið og söguna sjálfa byrjar þó að örla á dýpri samræðu sem öðru fremur snýst um iðju rithöfundarins.

 

Stuttu eftir að skáldsagan kom út voru bókmenntafræðingar fljótir að eigna rithöfundinum Bernardi Malamud persónu E.I. Lonoffs og sjálfur viðurkenndi Roth í viðtölum að persóna Lonoffs væri einskonar bræðingur Malamuds og annars rithöfundar sem Roth dáði, Sauls Bellow. Hins vegar er margt í karakter Lonoffs sem ýtir stoðum undir þá kenningu að ef Lonoff er byggður á Malamud og Bellow þá sé heldur stóran hluta af Roth sjálfum að finna í þeim bræðingi.

 

Ágætt dæmi um það er þegar Lonoff útskýrir fyrir hinum unga Zuckerman hvað það raunverulega sé sem hann geri:

“I turn sentences around. That´s my life. I write a sentence and then I turn it around. Then I look at and I turn it around again. Then I have lunch. Then I come back in and write another sentence. Then I have tea and turn the new sentence around. Then I read the two sentences over and turn them both around. Then I lie down on my sofa and think. Then I get up and throw them out and start from the beginning.(18)

Sannleikurinn er að þessi skondnu en um leið vægðarlausu vinnubrögð, eru mjög lík þeim sem Roth hefur sjálfur viðurkennt að hann stundi og það sem meira er, Roth hefur sagt í viðtölum að fyrir hverja bók sem hann gefi út, skrifi hann iðulega aðra sem endi í ruslatunnunni. Þá segir ástkona Roths á þessum tíma, leikkonan Claire Bloom í ævisögu sinni, Leaving a Doll´s House að þrátt fyrir að Roth hafi ekki viðurkennt það opinberlega að Lonoff væri í raun hans annað sjálf, hefði það skinið í gegn þegar hún las söguna.

 

Sá hluti ævisögu Claire Bloom sem snýr að Roth er ákaflega upplýsandi um persónu rithöfundarins sem virðist eins og svo margir andans menn, hafa verið gjörsamlega óþolandi í einkalífinu og líkari ofdekruðum krakka en fullorðnum manni. En ævisagan gefur manni einnig áhugaverða innsýn í vinnubrögð Roths sem vaknaði ávallt mjög snemma til að skrifa og skrifaði svo fram að kvöldmat áður en hann lauk deginum með lestri skáldsagna. Þessi rútína var honum allt að því heilög og andlega heilsa hans var undir þessu vinnulagi komið, eins og Claire Bloom fékk að finna fyrir.

 

Önnur frásögn Bloom frá því þegar Roth vann að The Ghost Writer og varpar ljósi á vinnubrögð Roths, segir frá því þegar hann kom einn daginn óvenjulega snemma heim frá vinnustofu sinni og spyr Bloom hvort hún sé til í að lýsa því fyrir honum hvernig það sé að búa með rithöfundi upp í sveit. Bloom segir í bókinni að hún hafi ákveðið að halda hvergi aftur af skoðunum sínum enda orðin langþreytt á líferninu. Bloom ákveður að taka hann á orðinu og lætur allt flakka sem hingað til hafði farið í taugarnar á henni. Segir hún að þrátt fyrir að þau hafi bæði hlegið að loknu harmkveini hennar, hafi Roth greinilega tekið hvert einasta orð til sín, því í skáldsögunni birtist þau nánast orðrétt af munni Hope, eiginkonu E.I. Lonoff.

 

Eins og þetta dæmi sannar hafa skilin milli eiginlegrar persónu Philips Roth og söguhetja hans, nánast aldrei verið skýr og Roth hefur alla tíð alið á þessum sífelldu vangaveltum lesenda og gagnrýnenda. Annað lítið dæmi um þetta er að nokkrum árum eftir bókin kom út var gerð sjónvarpsmynd eftir The Ghost Writer og í hlutverk Hope var ráðin engin önnur en leikkonan og ástkona rithöfundarins, Claire Bloom. Þessi ráðahagur var eflaust undan rifjum Roths runninn, því annars hefði hann aldrei fallist á að Bloom tæki að sér hlutverk í myndinni. Þegar myndin var svo sýnd ýtti hún að sjálfsögðu undir grun lesenda Roths að það sem gerðist í sögum hans væri endursögn úr hans eigin lífi - sem er að vísu rétt, upp að vissu marki.

 

Hins vegar reyndust tilgátur manna um að persóna Hope hefði að öllum hluta verið skrifuð með Claire Bloom í huga vera rangar, því eins og Bloom segir í ævisögu sinni var persóna hennar byggð á skáldkonunni Janet Hobhouse sem Roth átti í ástarsambandi ári áður en hann kynnist Bloom. Það sem gerir þessa Hobhouse enn merkilegri í hugum aðdáenda Roths er að ári áður en Hobhouse lést árið 1991 hafði hún skrifað lykilskáldsöguna The Furies sem kom út að henni látinni. Þar kemur Philip Roth við sögu og samkvæmt Claire Bloom eru lýsingar Hobhouse á Roth afar beinskeyttar en fyrst og fremst sannleikanum samkvæmar.

(pistillinn birtist áður í Lesbók Morgunblaðsins)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband