Mér finnst ég skrifa heillandi bækur.

c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_bubbi_morthens_lmb.jpg

Þetta er ekki árátta, bara tilviljun en ....

... finnst engum það fyndið nema mér að Jón Atli Jónasson, rödd JPV útgáfu, skuli lesa inn á sjónvarpsauglýsingu fyrir sína eigin bók, Ballöðunni um Bubba og kalla hana "draumkennda og heillandi sögu"?

Ætli hann semji textann líka?

Þegar stórt er spurt ...  svo ég vitni nú í skúbbóðan bloggara!


Hámarkinu náð!

Talandi um lélegar útvarpssauglýsingar ...

Ingvar Helgason á skilið peningaverðlaun fyrir ömurlegustu jólaauglýsingu allra tíma.


Órökréttar auglýsingar

c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_ampop.jpg

Um þessar mundir heyrist í útvarpi auglýsing þar sem nýjasta plata Ampop er auglýst og þessi auglýsing fer óskaplega í taugarnar á mér. Þar kemur meðal annars fram að nýja platan sé "rökrétt framhald" af síðustu plötu sveitarinnar. Og nú spyr ég:

Getur tónlist (eða önnur list) nokkurn tímann verið rökrétt?

Segjum svo að manni finnist eins og að einhver plata sé "rökrétt framhald" af fyrri plötu, er sú tilfinning þá ekki um leið byggð á huglægu mati sem hefur, þegar á botninn er hvolft, óskaplega lítið með rök að gera?

"Eðlilegt framhald" fyndist mér skárra.

Hins vegar les ég þau skilaboð út úr þessari auglýsingu að nýja platan sé í raun alveg eins og sú fyrri.

Er þá ekki bara einfaldara að segja það?

Ég gæti haldið áfram á þessum nótum í allan dag þegar það kemur að íslenskum auglýsingum í útvarpi - kvikmyndauglýsingar í sjónvarpi eru svo sér kapítuli út af fyrir sig. Sjaldnast er heildstæða hugsun að finna í því sem menn rjúka með inn í hljóðver. Textinn er yfirleitt illa settur saman, oft á tíðum "órökréttur" eins og ofangreint dæmi sannar og svo held ég að það myndi ekki skemma fyrir ef útvörpin réðu einhvern til að lesa þessar auglýsingar yfir.

Einhvern sem þekkir til dæmis grundvallaratriði íslenskrar mál- og setningarfræði.

Þetta er engum til góðs eins og ástandið er, hvorki útvarpsstöðinni, auglýsendum, auglýsingastofum né hlustendum.


Þetta hrekkur í gang

tolvugrin.jpg

Er fyrst núna að skoða þá möguleika sem blog.is hefur upp á að bjóða. Er ekkert sérstaklega tæknivæddur en reyni svona hægt og rólega að færa mig inn í nútímann.

Er kominn með þennan dýrindis tónlistarspilara og þar er eitt lag að finna.

Reyndi að tengja myndbandsspilara líka en þá fór allt í fokk!

Tók þá á það ráð að færa tvo bloggvini inn sem báðir hafa ákaflega mikið og skemmtilegt fram að færa.

Annar þeirra heitir Árni Matthíasson og er samstarfsfélagi minn á Morgunblaðinu og hinn er Guðmundur Steingrímsson, hljómsveitarfélagi í Ske, pistlahöfundur, bráðaspinner og verðandi þingmaður.

Ég mæli með þeim báðum en þó aðallega bloggsíðum þeirra..


Enn af Tom Waits

c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_tom_waits.jpg

Í Morgunblaðinu í dag er að finna listapistil eftir mig um nýju Waits plötuna, eða réttara sagt plöturnar því að hér er um þrjár fullgildar plötur að ræða. Ég fer ekki ofan af því að þetta er djöfulli góður pakki og eins og mér fannst Waits vera að mála sig út í horn á Real Gone er hann aftur kominn betri en nokkru sinni fyrr.

Eins og kom fram í pistlinum er á fyrstu plötunni að finna lagið "Road To Peace" sem verður að teljast það allra pólitískasta sem Waits hefur látið frá sér. Í laginu vitnar hann meðal annars í fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna og friðarverðlaunahafa Nóbels, Henry Kissinger, sem sagði eitt sinn: America has no friends, it has only interest. Þessi orð öðlast svolítið framhaldslíf eins og ástandið er í dag.

N.b. Lagið er að finna í spilaranum mínum hér til vinstri.

Það sem mér finnst skemmtilegast við þessa plötu er að með henn virðist Waits horfast í augu við upphafs ár sín sem hann hefur hingað til reynt að forðast eins og heitan eldinn, bæði í efnistökum og litavali. Ég finn alla vega fyrir svolítið fyrir því á Bawlers hlutanum sem er bæði lágstemmdur og leikrænn.

Kvikmyndaleikstjórinn Jim Jarmusch sagði eitt sinn að Tom Waits væri fyrst og fremst ljóðskáld en síðan tónlistarmaður. Það er nokkuð til í því. Waits er einn þeirra tónlistarmanna sem er óhræddur við að láta orðin sveigja laglínuna og hann á margar ljóðlínur sem eru alveg hreint magnaðar, eins og þessi í "The Fall of Troy": It´s the same with men as with horses and dogs / Nothing wants to die.

Myndi sóma sér vel í Hávamálum ... hinum dekkri!


Tribjút er ekki heimskum hent

c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_megas.jpg

Las nokkuð skemmtilega grein í Sunday Times í gær þar sem verið er að ræða svokallaðar tribjút-plötur og hvers vegna það er alltaf sett í hendur ungra tónlistarmanna að sýna eldri tónlistarmanni virðingarvott.

Að vísu meikar það sens, markaðslega séð, að stilla þessu svona upp því að hinn eldri tónlstarmaður kemst til eyrna ungra neytenda sem alla jafna myndu ekki hlusta á lög hans og svo er með þessu verið að kynna nýja tónlistarmenn til sögunnar sem alla jafna næðu ekki til jafn breiðs hóps neytenda, nema í gegnum safnplötur á borð við tribjút-plötur.

Hins vegar vill það brenna við að tribjúte-plötur skjóta alllangt framhjá, eins og til dæmis sannast með nýjustu Megasarplötunni, Pældu í því sem pælandi er í þar sem bróðurpartur plötunnar er slæmur en einna bestur þegar KK og Rúni Júl taka sig til.

Það kann nefnilega að skipta máli að sá sem tribjútar viti um hvað hann er að syngja og hvað hann er að flytja. Melódían ein er ekki nóg og varla telst það merkilegt að skipta um takt eða tóntegund. Túlkunin er þegar á botninn er hvolft, mikilvægust og þá skiptir þekking á innihaldinu mestu máli. Og á þá þekkingu skortir helst hjá ungum tónlistarmönnum

Eða hvað?


Áhlaupið íhugað

c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_paul_simon.jpg

Bíllinn minn virðist vera pikkfastur í ruðningi og nú er ég að velta því fyrir mér hvort ég eigi að ráðast á skaflinn. Er ekkert sérstaklega spenntur fyrir því að taka strætó upp í Hádegismóa en maður þyrfti nú samt að prófa það einu sinni.

Eddan fór fram í gærkvöldi. Nú finnst mér hún byrjuð að líkjast Óskarnum meira og meira að því leyti að það sem er pólitískt rétt trompar raunverulegt gæðamat. En þetta eru vísast óumflýjanleg örlög allra verðlaunahátíða.

Hvet alla til að hlusta á Gísla Galdur kl. 16.? í dag í Hlaupanótunni á Rás 1. Gísli er tónlistarmaður af lífi og sál og ágætis herbergisfélagi. Við áttum mörg áhugaverð samtölin í hótelherbergjum víðsvegar um Norður-Ameríku og hann kynnti mér fyrir fullt af skemmtilegri tónlist.

Held að mér hafi bara tekist að launa honum greiðann einu sinni þegar ég spilaði fyrir hann Paul Simon lagið "50 ways to leave your lover". Þá bjuggum við í Chelsea-hverfinu í New York sem er mikið hommahverfi. Við sátum tárvotir á gluggasyllunni og hlustuðum á lagið aftur og aftur.

 


Vinsældir og frægð Sykurmolanna

sykurmolarnir.jpg

Hef af ýmsum ástæðum látið síðuna sitja á hakanum.  Vinn m.a. að stórri STEF-fréttaskýringu sem birtist vonandi í næstu Lesbók. Ég ímynda mér að svona fréttaskýring verði ekki skrifuð aftur á næstu áratugum þannig að það er nauðsynlegt að hún verði vönduð.

Fer annars á Sykurmolana í kvöld. Þeir sem ég hef talað við furða sig á því að það skuli ekki vera löngu uppselt en það kemur mér svo sem ekkert á óvart. Sykurmolarnir hafa aldrei átt sér mjög stóran aðdáendahóp á Íslandi, ekki frekar en Ham. Málið er bara að í þessum sveitum eru háværir og skemmtilegir karakterar sem skekkja allar hugmyndir fólks um vinsældir og svo vill það bera við að aðdáendur jaðartónlistar láti meira í sér heyra en þeir sem halda upp á poppið.

Það er nefnilega munur á því að vera frægur og vinsæll eða eins og Ómar vinur minn sagði á dögunum: "K-Fed er frægur en hann er ekki vinsæll". Ég held að þetta eigi svolítið við um Sykurmolana líka án þess þó að ég sé að líkja K-Fed við Björk. Í Mogganum í dag var svo sagt frá því að útlendir gestir á tónleikana væru um 1.000 sem þýðir að án þeirra hefði Höllin orðið hálftóm í kvöld. Og þó er hér um einn merkilegasta tónlistarviðburð síðustu áratuga að ræða.

Rauðavatnið er ísilagt en á miðju vatninu má  sjá öldu, ofna í klakabönd. Það er eins og tíminn hafi stöðvast.


Morgunblaðið hneykslar

Fréttablaðið birti í síðasta mánuði (20. september 2006) frétt þar sem fullyrt var að tónlistarmenn væri ósáttir við Morgunblaðið vegna notkunar þess á erlendu lagi í sjónvarpsauglýsingu. Í fréttinni var haft eftir tónlistarmanninum og framkvæmdastjóra FTT, Magnúsi Kjartanssyni, að síðasta vígið væri fallið og þeir hjá Morgunblaðinu ættu að velta því fyrir sér hvort ekki væri réttast að skrifa blaðið bara á ensku. Var haft eftir Magnúsi að ályktunar væri að vænta frá FTT á næstunni og talaði Magnús um málið sem hið mesta hneyksli.

Undirritaður bjóst fastlega við því að einhvers konar umræða myndi skapast um málið, sérstaklega í ljósi þess að hér væri um "hið mesta hneyksli" að ræða, en nú, tæpum mánuði síðar, bólar hvorki á umræðunni né ályktun FTT.

Á undanförnum árum hefur það verið brýnt fyrir landsmönnum að "velja íslenskt" og styðja þar með við bakið á iðnaðinum í landinu. Nú dettur varla nokkrum manni í hug að hér sé um ósanngjörn hvatningaróp að ræða frá Samtökum iðnaðarins, enda þjóðlyndi okkur í blóð borið. Þar að auki segir almenn skynsemi okkur að ef iðnaðurinn í landinu legðist af væru flestar forsendur fyrir búsetu hér á landi brostnar.

Tónlist er eins og aðrar listgreinar iðnaður og það er oft talað um tónlistariðnað í því samhengi. Þetta veit Magnús Kjartansson og sem formaður FTT er það skylda hans að hvetja Íslendinga til að "velja íslenskt". Það sýnist mér alla vega að liggi að baki gagnrýni framkvæmdastjórans.

Hitt er svo annað mál að þrátt fyrir að tónlistariðnaðurinn lúti sömu markaðslögmálum og hver annar iðnaður í landinu, lýtur hann einnig lögmálum listarinnar, sem segja að hver einasta listsköpun sé einstök. Leikrit Göthes og Marlowes um Dr. Faustus eru bæði einstök og annað getur ekki komið í stað hins. Hið sama gildir um tónlistina, eitt lag getur ekki komið í stað annars og þá á ég ekki við flutning á tónverki.

Það að við Íslendingar svörum kalli Samtaka iðnaðarins um að kaupa frekar íslenskan ost en danskan er eðlilegt. En að við séum krafin um að hlusta frekar á íslenska tónlist en erlenda er fjarstæðukennt - enda efa ég að nokkur listamaður kysi að vera vinsælastur í þeim heimi þar sem aðrir listamenn eru bannaðir!

Íslensk fyrirtæki hafa ákveðnum skyldum að gegna gagnvart landi og þjóð, það segir sig sjálft. En að listamaður krefjist þess að á hann sé hlýtt, hann lesinn og svo framvegis, eingöngu vegna þess að hann er Íslendingur, er svo allt annað mál - sem vert er að ræða.


Helvíti á jörðu

khmer_rouge.jpg
Í ár eru tuttugu og sjö ár liðin frá því Rauðu khmerarnir voru hraktir frá völdum í Kambódíu.

Þá hafði ógnarstjórnin verið við völd í heil fjögur ár í landinu og leitt af sér dauða tæpra tveggja milljóna saklausra borgara. Fjölmargir voru teknir af lífi án dóms og laga en enn aðrir sultu í hel eða týndu lífi í vinnubúðum kommúnistastjórnarinnar sem kennd var við Angkar. Margir sérfræðingar kjósa í dag að færa tölu látinna nær þriðju milljón sem gerir voðaverkin í Kambódíu að einu hroðalegasta þjóðarmorði síðustu fimmtíu ára.

Þrátt fyrir að tvö ár séu liðin frá því að SÞ samþykktu að koma á laggirnar sérstökum réttarhöldum yfir eftirlifandi leiðtogum Rauðu khmeranna, hefur enginn verið dæmdur. Leiðtogi þeirra, Pol Pot náðist ekki fyrr en árið 1997 en hann lést ári síðar saddur lífdaga, áður en að réttarhöld yfir honum gátu hafist. Ástæðuna fyrir því að svo illa gengur að hefja réttarhöldin er vísast að finna í veikum innviðum stjórn- og réttarkerfis Kambódíu. Landið allt er enn í rústum eftir stjórnartíð Pol Pots þar sem opinberir starfsmenn, lögfræðingar, verkfræðingar og aðrir menntamenn voru kerfisbundið leitaðir uppi og myrtir af ómenntuðum vígamönnum stjórnarinnar sem trúðu því að öll utanaðkomandi menntun og vitneskja væri af hinu illa og Angkar til ama.

Eina áhrifamestu frásögnina um stjórnartíð Rauðu khmeranna er að finna í sjálfsævisögunni Stay Alive My Son sem kambódíski stærðfræðingurinn Pin Yathai skrifaði. Yathai vann sem verkfræðingur hjá hinu opinbera þegar Rauðu khmerarnir komust til valda og var hrakinn ásamt 17 manna fjölskyldu sinni úr höfuðborginni Phnom Pehn, til að vinna á hrísgrjónaökrum landsins sem allir höfðu verið þjóðnýttir. Stjórnmálaástand Kambódíu hafði fram að því einkennst af spillingu og stjórnleysi og þegar Rauðu khmerarnir boðuðu jöfnuð og réttlæti sáu margir Kambódear fram á betri tíð. Sú von brást hins vegar snögglega þegar hið rétta andlit Angkar kom í ljós. Hrísgrjónaakrarnir reyndust eins og og vinnubúðir nasista í seinni heimstyrjöldinni, vera þrælkunarbúðir þar sem heilu fjölskyldurnar létust ýmist úr hungri eða illri meðferð af hendi frelsaranna.

Frásögn Yathais er eins og áður sagði áhrifmikil og það er allt að því ótrúlegt til þess að hugsa að maður eins og hann hafi ekki misst vitið við að horfa upp á fjölskyldu sína - foreldra, systkini, börn og eiginkonu - veslast upp og deyja vegna beinna áhrifa Rauðu khmeranna. Bókin er nauðsynleg lesning fyrir áhugafólk um stjórnartíð Pol Pots í Kambódíu en hún er einnig stórkostlegur vitnisburður um lífsvilja mannsins og staðfestu frammi fyrir ólýsanlegri grimmd og hrikalegu óréttlæti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband