Bókaþjóðin sem les ekki bækur

vendetta.jpg
Ég tók eftir því um daginn þegar ég var staddur í ónefndri erlendri borg að varla var til það hverfi sem ekki státaði af að minnsta kosti einni bókabúð. Það sem meira var, þessar bókabúðir voru í flestum tilvikum gríðarlegar að stærð; tugir hillustæða, troðfullar af bókum í öllum mögulegum flokkum lista, fróðleiks og afþreyingar, og stundum var úrvalið slíkt í þessum búðum (sem bera nöfn eins og Barnes & Noble eða Waterstone's), að manni féllust bókstaflega hendur andspænis öllum þessum efnislega undraheimi bókarinnar.

Því miður lendir maður ekki í svipuðum aðstæðum hér á landi. Flestar íslenskar bókabúðir bjóða upp á afar takmarkað úrval bóka og þrátt fyrir að manni þyki mjög vænt um einstakar búðir og geri sér þangað leið af gömlum vana er það æ algengara að maður gangi aftur út tómhentur. Yfirleitt finnur maður ekki það sem maður leitar að, eða þá að verðið er slíkt að maður ákveður að bíða og kaupa frekar bókina í útlöndum (að því gefnu að hún sé á erlendu tungumáli).

Það mætti hugsa sér að fjöldi bókabúða í hverju landi endurspeglaði af nokkurri nákvæmni bókmenntaáhuga þjóðarinnar og ég hef heyrt það frá fólki mér eldra, að í eina tíð hafi bókabúðir verið í hverri einustu verslunargötu í Reykjavík.

Ef leitað er í símaskránni sést að fyrir utan fornbókabúðir eru um tuttugu bókabúðir á Íslandi í dag. Þar af er alla vega helmingur sem sér að miklum hluta um sölu á gjafavöru, ritföngum og/eða námsbókum fyrir skóla. Við erum þá kannski að tala um tíu "alvöru" bókabúðir sem þjónusta 350 þúsund íbúa. Það samsvarar einni bókabúð á hverja 35 þúsund íbúa. Til viðmiðunar bjuggu um 60 milljónir manna í Bretlandi árið 2000 og á sama tíma voru um 3.500 bókabúðir í landinu - eða ein búð á hverja 17 þúsund íbúa. Er af þessu hægt að draga þá ályktun að bókmenntaáhugi Íslendinga sé minni en bresku þjóðarinnar?

Það er ef til vill óréttlátt að miða hinn litla íslenska bókamarkað við stóra markaði á borð við þá sem er að finna í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hér þarf líka að hafa í huga að tungumálið setur okkur nokkrar skorður. Íslendingar vilja fremur lesa á íslensku og úrval bóka á íslensku getur aldrei keppt við það sem finna má í enskumælandi löndum. En hvað þá ef við miðum Ísland við önnur smærri ó-enskumælandi þjóðir: Í Albaníu búa um 3,6 milljónir manna og þar er að finna um 350 bókabúðir eða eina búð á hverja tíu þúsund íbúa. Í Eistlandi er ein búð á hverja 13 þúsund íbúa og í Ungverjalandi ein búð á hverja 16 þúsund íbúa. Á þessum tölum má sjá að Ísland er ekki í neinum sérflokki þegar það kemur að fjölda bókabúða í löndum með annað tungumál en ensku að móðurmáli. Hvað er þá orðið um bókaþjóðina miklu sem við höfum ávallt haldið fram að við séum? Eða hafa bókabúðir ef til vill ekkert með bókaáhuga okkar að gera?

Af illri nauðsyn lesa Íslendingar mikið af erlendum bókum. Þar að auki hefur áhugasvið almennings breikkað á undanförnum árum og fólk sem áður fyrr hryllti við fræðiritum ýmiss konar veigrar sér ekki í dag við að lesa lipurlega skrifaðar bækur um efnahagsmál, markaðsfræði og stjórnmál, svo eitthvað sé nefnt. Líklega hafa stóru bókabúðirnar reiknað það út að það borgi sig ekki að flytja inn fleiri bækur á erlendri tungu, markaðurinn sé of lítill. Þó er þessi hlutur erlendra bóka hér á landi engu að síður töluverður ef litið er til annarra þátta en hefðbundinnar bóksölu. Æ fleiri Íslendingar nýta sér til dæmis bóksölur á netinu og á síðasta ári bárust, samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti, tæplega 40 þúsund póstsendingar frá netversluninni Amazon hingað til lands. Við getum hóflega áætlað tvær bækur í hverri sendingu sem þýðir að hátt í 100 þúsund bækur eða annað lesefni berst hingað til lands á ári hverju. Líklega meira. Til viðmiðunar jókst netsala á bókum í Bretlandi um heil 33% á síðasta ári og var þá um 8% af heildarsölu bóka þar í landi. Þessi prósentutala mun örugglega hækka í framtíðinni - þar og hér.

Það vakti athygli mína á dögunum þegar Félag íslenskra bókaútgefenda, með stuðningi Glitnis, veitti heimilunum í landinu þúsund króna ávísun til bókakaupa. Ég hugsaði með mér að bóklestur hlyti að vera að dragast þó nokkuð mikið saman fyrst gripið væri til slíkra aðferða. Rithöfundar eins og Þorsteinn frá Hamri segja að svo sé og það er í sjálfu sér engin ástæða til að draga það mat í efa. Úrval afþreyingarefnis af öllum mögulegum toga hefur aukist á síðustu árum og eins lengi og klukkutímunum í sólarhringnum fjölgar ekki er rökrétt að draga þá ályktun að hlutur bókarinnar minnki að sama skapi.

Á hinn bóginn segja menn í bókaiðnaðinum hér á landi að markaðurinn sé í raun að stækka og þá flækist málið. Hvernig getur bóklestur farið minnkandi á sama tíma og markaðurinn sjálfur stækkar? Margir segja að aukin útgáfa í kiljuformi sé orsökin og sú þróun er svipuð í öðrum löndum en það er aðra ástæðu að finna sem er í raun mun áhugaverðari.

Félag íslenskra bókaútgefenda hefur á undanförnum árum fengið IMG Gallup til að gera könnun á jólabókagjöfum landsmanna. Þessar kannanir sýna, eins og menn hafa ályktað, að þeim Íslendingum fækkar sem fá bækur í jólagjöf. En það sem þessar kannanir sýna líka er að þeir sem á annað borð fá bókagjafir fá mun fleiri bækur en áður tíðkaðist. Sem sagt; hinn dæmigerði lestrarhestur vegur upp á móti minnkandi bóklestri almennings í landinu. Getur þá verið að bókaþjóðin mikla sé, þegar öllu er á botninn hvolft, ef til vill ekkert annað en afmarkaður hópur bókaorma? Þetta skyldi þó ekki vera sami hópurinn og mætir á bókmenntahátíðirnar, upplestrana og útsölumarkaðina?

Menn vilja oft tengja bóklestur við þekkingu og menntun og ef það er gert á öfugum forsendum, það er að segja að hátt menntunarstig leiði til mikils bóklestrar, er Ísland í enn verri málum. Samkvæmt nýjustu skýrslu OECD um menntamál kemur fram að hlutfall Íslendinga á aldursbilinu 25-34 ára sem lokið hafa framhaldsskólanámi er einungis 64%. Þetta hlutfall er á bilinu 86-95% hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. Í sömu skýrslu kemur einnig fram að af 30 OECD-þjóðum er Ísland í 25. sæti, sem þýðir að flest iðnríki heims eru menntaðri en við.

Af þessum tölum að dæma virðist það nokkuð ljóst að við Íslendingar lesum ekki nóg - þó ekki væri nema námsbækurnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Og sve er manni alltaf sagt að íslendingar séu menntuð þjóð... og bókaþjóð. Ég les á hverju kvöldi í rúminu. Það væri gaman að sjá, ef fleiri gera athugasemdir, hvort þau geri það sama. Smá könnun... Ef ég skoða vinahópinn eru nokkrir sem lesa mikið og aðrir sem lesa ekkert, virðist vera lítið um fólk þar á milli svo kannski er bókaormakenningin ekki svo galin.

Villi Asgeirsson, 16.5.2006 kl. 16:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband