Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Helvíti á jörðu

khmer_rouge.jpg
Í ár eru tuttugu og sjö ár liðin frá því Rauðu khmerarnir voru hraktir frá völdum í Kambódíu.

Þá hafði ógnarstjórnin verið við völd í heil fjögur ár í landinu og leitt af sér dauða tæpra tveggja milljóna saklausra borgara. Fjölmargir voru teknir af lífi án dóms og laga en enn aðrir sultu í hel eða týndu lífi í vinnubúðum kommúnistastjórnarinnar sem kennd var við Angkar. Margir sérfræðingar kjósa í dag að færa tölu látinna nær þriðju milljón sem gerir voðaverkin í Kambódíu að einu hroðalegasta þjóðarmorði síðustu fimmtíu ára.

Þrátt fyrir að tvö ár séu liðin frá því að SÞ samþykktu að koma á laggirnar sérstökum réttarhöldum yfir eftirlifandi leiðtogum Rauðu khmeranna, hefur enginn verið dæmdur. Leiðtogi þeirra, Pol Pot náðist ekki fyrr en árið 1997 en hann lést ári síðar saddur lífdaga, áður en að réttarhöld yfir honum gátu hafist. Ástæðuna fyrir því að svo illa gengur að hefja réttarhöldin er vísast að finna í veikum innviðum stjórn- og réttarkerfis Kambódíu. Landið allt er enn í rústum eftir stjórnartíð Pol Pots þar sem opinberir starfsmenn, lögfræðingar, verkfræðingar og aðrir menntamenn voru kerfisbundið leitaðir uppi og myrtir af ómenntuðum vígamönnum stjórnarinnar sem trúðu því að öll utanaðkomandi menntun og vitneskja væri af hinu illa og Angkar til ama.

Eina áhrifamestu frásögnina um stjórnartíð Rauðu khmeranna er að finna í sjálfsævisögunni Stay Alive My Son sem kambódíski stærðfræðingurinn Pin Yathai skrifaði. Yathai vann sem verkfræðingur hjá hinu opinbera þegar Rauðu khmerarnir komust til valda og var hrakinn ásamt 17 manna fjölskyldu sinni úr höfuðborginni Phnom Pehn, til að vinna á hrísgrjónaökrum landsins sem allir höfðu verið þjóðnýttir. Stjórnmálaástand Kambódíu hafði fram að því einkennst af spillingu og stjórnleysi og þegar Rauðu khmerarnir boðuðu jöfnuð og réttlæti sáu margir Kambódear fram á betri tíð. Sú von brást hins vegar snögglega þegar hið rétta andlit Angkar kom í ljós. Hrísgrjónaakrarnir reyndust eins og og vinnubúðir nasista í seinni heimstyrjöldinni, vera þrælkunarbúðir þar sem heilu fjölskyldurnar létust ýmist úr hungri eða illri meðferð af hendi frelsaranna.

Frásögn Yathais er eins og áður sagði áhrifmikil og það er allt að því ótrúlegt til þess að hugsa að maður eins og hann hafi ekki misst vitið við að horfa upp á fjölskyldu sína - foreldra, systkini, börn og eiginkonu - veslast upp og deyja vegna beinna áhrifa Rauðu khmeranna. Bókin er nauðsynleg lesning fyrir áhugafólk um stjórnartíð Pol Pots í Kambódíu en hún er einnig stórkostlegur vitnisburður um lífsvilja mannsins og staðfestu frammi fyrir ólýsanlegri grimmd og hrikalegu óréttlæti.


Djöfuls klípa

Ég ferðaðist til Ísrael fyrir um átta árum, ( frekar en níu ) og hef búið að þeirri reynslu síðan. Við fórum tveir, ég og Kári vinur minn og ég minnist þess að við höfðum enga hugmynd um hvert við værum að fara. Gott ef Ísrael varð ekki fyrir valinu því að veðurspáin þar var sú besta þegar við gáðum að.

Alla vega. Síðan þá hef ég ekki litið deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafsins sömu augum.

En nú held ég að ég hafi aldrei átt í meiri vandræðum með að velja hinn réttláta frá hinum rangláta í þessu proxy-stríði í Líbanon

Það er vonandi enginn í vafa um að mannrán Hizbollah (eða hvernig er það aftur skrifað) hafi verið ögrun (líklega að áeggjan Írana og Sýrlendinga) og að viðbrögð Ísraela hafi verið réttlætanleg.

En nú þegar maður heyrir af drápum á friðargæsluliðum SÞ renna á mann tvær grímur. Það að saklausir borgarar verði fyrir sprengjum Ísraela er hræðilegt en þetta er nú það sem Hizbollah treystir á. Þeir stilla sínum skotpöllum upp í miðju íbúðahverfi og kenna síðan Ísraelum um þegar saklaust fólk verður fyrir gagnárás. En ef Mossad þekkir ekki munin á hryðjuverkamönnum og friðargæsluliðum þá er eitthvað ekki í lagi.

Það hefur aftur og aftur sannað sig að þegar háttsettir menn í Hizbollah eða Hamas verða hræddir um sitt eigið líf, þá semja þeir um vopnahlé. Þeim er ekki hugað um líf saklausra borgara, ekki frekar en sjálfsmorðssprengjumenn (þvílíkt orð) og mann grunar að þegar herfylkingar Ísraela nálgast höfuðstöðvar Hizbolla muni Íranir eða aðrir skerast í leikinn. Sjáum til.

Þetta er ljót og ósanngjörn deila sem enginn endir virðist vera á en manni finnst eins og að þeir sem geti haft áhrif á hana og jafnvel leyst hana séu ekki að reyna í raun. Clinton reyndi og hann reyndi oftar en flestir gera sér grein fyrir en hann var líka svolítið bláeygður þegar það kom að Arafat.

Hvað Bush varðar, verð ég að játa að ég hef aldrei náð honum fullkomlega. Ég hef enga trú á því að hálfviti komist til valda í lýðræðisríki en hingað til hefur honum ekki tekist það vel til að sannfæra mig um hið gagnstæða.

Ekki frekar en Blair.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband