Færsluflokkur: Bloggar

Bókaþjóðin sem les ekki bækur

vendetta.jpg
Ég tók eftir því um daginn þegar ég var staddur í ónefndri erlendri borg að varla var til það hverfi sem ekki státaði af að minnsta kosti einni bókabúð. Það sem meira var, þessar bókabúðir voru í flestum tilvikum gríðarlegar að stærð; tugir hillustæða, troðfullar af bókum í öllum mögulegum flokkum lista, fróðleiks og afþreyingar, og stundum var úrvalið slíkt í þessum búðum (sem bera nöfn eins og Barnes & Noble eða Waterstone's), að manni féllust bókstaflega hendur andspænis öllum þessum efnislega undraheimi bókarinnar.

Því miður lendir maður ekki í svipuðum aðstæðum hér á landi. Flestar íslenskar bókabúðir bjóða upp á afar takmarkað úrval bóka og þrátt fyrir að manni þyki mjög vænt um einstakar búðir og geri sér þangað leið af gömlum vana er það æ algengara að maður gangi aftur út tómhentur. Yfirleitt finnur maður ekki það sem maður leitar að, eða þá að verðið er slíkt að maður ákveður að bíða og kaupa frekar bókina í útlöndum (að því gefnu að hún sé á erlendu tungumáli).

Það mætti hugsa sér að fjöldi bókabúða í hverju landi endurspeglaði af nokkurri nákvæmni bókmenntaáhuga þjóðarinnar og ég hef heyrt það frá fólki mér eldra, að í eina tíð hafi bókabúðir verið í hverri einustu verslunargötu í Reykjavík.

Ef leitað er í símaskránni sést að fyrir utan fornbókabúðir eru um tuttugu bókabúðir á Íslandi í dag. Þar af er alla vega helmingur sem sér að miklum hluta um sölu á gjafavöru, ritföngum og/eða námsbókum fyrir skóla. Við erum þá kannski að tala um tíu "alvöru" bókabúðir sem þjónusta 350 þúsund íbúa. Það samsvarar einni bókabúð á hverja 35 þúsund íbúa. Til viðmiðunar bjuggu um 60 milljónir manna í Bretlandi árið 2000 og á sama tíma voru um 3.500 bókabúðir í landinu - eða ein búð á hverja 17 þúsund íbúa. Er af þessu hægt að draga þá ályktun að bókmenntaáhugi Íslendinga sé minni en bresku þjóðarinnar?

Það er ef til vill óréttlátt að miða hinn litla íslenska bókamarkað við stóra markaði á borð við þá sem er að finna í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hér þarf líka að hafa í huga að tungumálið setur okkur nokkrar skorður. Íslendingar vilja fremur lesa á íslensku og úrval bóka á íslensku getur aldrei keppt við það sem finna má í enskumælandi löndum. En hvað þá ef við miðum Ísland við önnur smærri ó-enskumælandi þjóðir: Í Albaníu búa um 3,6 milljónir manna og þar er að finna um 350 bókabúðir eða eina búð á hverja tíu þúsund íbúa. Í Eistlandi er ein búð á hverja 13 þúsund íbúa og í Ungverjalandi ein búð á hverja 16 þúsund íbúa. Á þessum tölum má sjá að Ísland er ekki í neinum sérflokki þegar það kemur að fjölda bókabúða í löndum með annað tungumál en ensku að móðurmáli. Hvað er þá orðið um bókaþjóðina miklu sem við höfum ávallt haldið fram að við séum? Eða hafa bókabúðir ef til vill ekkert með bókaáhuga okkar að gera?

Af illri nauðsyn lesa Íslendingar mikið af erlendum bókum. Þar að auki hefur áhugasvið almennings breikkað á undanförnum árum og fólk sem áður fyrr hryllti við fræðiritum ýmiss konar veigrar sér ekki í dag við að lesa lipurlega skrifaðar bækur um efnahagsmál, markaðsfræði og stjórnmál, svo eitthvað sé nefnt. Líklega hafa stóru bókabúðirnar reiknað það út að það borgi sig ekki að flytja inn fleiri bækur á erlendri tungu, markaðurinn sé of lítill. Þó er þessi hlutur erlendra bóka hér á landi engu að síður töluverður ef litið er til annarra þátta en hefðbundinnar bóksölu. Æ fleiri Íslendingar nýta sér til dæmis bóksölur á netinu og á síðasta ári bárust, samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti, tæplega 40 þúsund póstsendingar frá netversluninni Amazon hingað til lands. Við getum hóflega áætlað tvær bækur í hverri sendingu sem þýðir að hátt í 100 þúsund bækur eða annað lesefni berst hingað til lands á ári hverju. Líklega meira. Til viðmiðunar jókst netsala á bókum í Bretlandi um heil 33% á síðasta ári og var þá um 8% af heildarsölu bóka þar í landi. Þessi prósentutala mun örugglega hækka í framtíðinni - þar og hér.

Það vakti athygli mína á dögunum þegar Félag íslenskra bókaútgefenda, með stuðningi Glitnis, veitti heimilunum í landinu þúsund króna ávísun til bókakaupa. Ég hugsaði með mér að bóklestur hlyti að vera að dragast þó nokkuð mikið saman fyrst gripið væri til slíkra aðferða. Rithöfundar eins og Þorsteinn frá Hamri segja að svo sé og það er í sjálfu sér engin ástæða til að draga það mat í efa. Úrval afþreyingarefnis af öllum mögulegum toga hefur aukist á síðustu árum og eins lengi og klukkutímunum í sólarhringnum fjölgar ekki er rökrétt að draga þá ályktun að hlutur bókarinnar minnki að sama skapi.

Á hinn bóginn segja menn í bókaiðnaðinum hér á landi að markaðurinn sé í raun að stækka og þá flækist málið. Hvernig getur bóklestur farið minnkandi á sama tíma og markaðurinn sjálfur stækkar? Margir segja að aukin útgáfa í kiljuformi sé orsökin og sú þróun er svipuð í öðrum löndum en það er aðra ástæðu að finna sem er í raun mun áhugaverðari.

Félag íslenskra bókaútgefenda hefur á undanförnum árum fengið IMG Gallup til að gera könnun á jólabókagjöfum landsmanna. Þessar kannanir sýna, eins og menn hafa ályktað, að þeim Íslendingum fækkar sem fá bækur í jólagjöf. En það sem þessar kannanir sýna líka er að þeir sem á annað borð fá bókagjafir fá mun fleiri bækur en áður tíðkaðist. Sem sagt; hinn dæmigerði lestrarhestur vegur upp á móti minnkandi bóklestri almennings í landinu. Getur þá verið að bókaþjóðin mikla sé, þegar öllu er á botninn hvolft, ef til vill ekkert annað en afmarkaður hópur bókaorma? Þetta skyldi þó ekki vera sami hópurinn og mætir á bókmenntahátíðirnar, upplestrana og útsölumarkaðina?

Menn vilja oft tengja bóklestur við þekkingu og menntun og ef það er gert á öfugum forsendum, það er að segja að hátt menntunarstig leiði til mikils bóklestrar, er Ísland í enn verri málum. Samkvæmt nýjustu skýrslu OECD um menntamál kemur fram að hlutfall Íslendinga á aldursbilinu 25-34 ára sem lokið hafa framhaldsskólanámi er einungis 64%. Þetta hlutfall er á bilinu 86-95% hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. Í sömu skýrslu kemur einnig fram að af 30 OECD-þjóðum er Ísland í 25. sæti, sem þýðir að flest iðnríki heims eru menntaðri en við.

Af þessum tölum að dæma virðist það nokkuð ljóst að við Íslendingar lesum ekki nóg - þó ekki væri nema námsbækurnar.


Konungur skýjakljúfanna

c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_empire_state.jpg
Þann 1. maí næstkomandi eru 75 ár liðin frá því að Empire State byggingin var opnuð almenningi og af því tilefni gaf The Sunday New York Times út sérstakan blaðauka þar sem farið er yfir sögu byggingarinnar í máli og myndum. Blaðaukinn er listavel unninn og afar fræðandi. Hann ber ekki einungis sögu byggingarinnar gott vitni, heldur lýsir hann einnig vel þeim krafti sem virðist samofinn New York og sér í lagi metnaði þeirra manna sem borgina byggðu – og byggja í dag.
 
Eftir að Tvíburaturnarnir féllu í september árið 2001 varð Empire State byggingin aftur að hæsta skýjakljúfi New Yorkborgar. Þrátt fyrir að margir myndu kalla það vafasaman titil með tilliti til aðstæðna má með sanni segja að Empire State hafi endurheimt þá sérstöðu sem byggingin hafði í rúma hálfa öld frá því að hún reis á kreppuárunum. Á hinn bóginn segja aðrir að Tvíburaturnarnir hafi aldrei fyllilega náð að skyggja á vegsemd Empire State. Bæði hafi lögun þeirra verið slík að þeir skáru sig ekki nægilega úr og svo hafi staðsetning þeirra (við suðurhöfn Manhattan) verið mun lakari en staðsetning Empire State sem er á 35. stræti og fimmtu breiðgötu og myndar ákveðinnn miðpunkt á Manhattan með ótrúlegu útsýni til allra átta.
 
Empire State byggingin sjálf er 381 metri á hæð. Til marks um stærð hennar tekur það heila þrjá mánuði að þrífa alla glugga byggingarinnar og um leið og síðasti glugginn hefur verið gljáfægður er strax hafist handa við þann fyrsta á ný. Útvarpsloftnet sem stendur á toppi byggingarinnar eykur hæð hennar um rúma 62 metra en eldra loftnet sem stóð á byggingunni frá 1951 til 1984 var fimm og hálfum metra hærra. Núverandi hæð hennar er á við sex Hallgrímskirkjur og á heiðskírum degi er fjarlægðin sem augað eygir, 130 kílómetrar. Empire State byggingin reis á undraverðum 13 mánuðum og í ágúst 1930 þegar á hápunkti framkvæmdanna stóð, voru 3.439 iðnaðarmenn við störf. Það sem gerir þennan mikla hraða enn merkilegri er að bygging var byggð án nokkurrar yfirvinnu. Vinna hófst klukkan átta að morgni og henni lauk stundvíslega kl. 16.30. Eins og svo margar ljósmyndir sýna frá þessum tíma voru öryggisstaðlarnir litlir sem engir. Iðnaðarmenn báru ekki harðhatta, né voru öryggisnet höfð uppi ef svo óheppilega vildi til að einhverjum skrikaði fótur. Þrátt fyrir það létust einungis 12 manns við framkvæmdina – mun færri en venja var við byggingu háhýsa á þessum árum.
 
Empire State byggingin aflar umtalsverðra tekna á þeim fjórum milljónum gesta sem ár hvert njóta útsýnisins frá 86. hæð skýjakljúfsins (annar útsýnispallur við 102. hæð opnaði aftur síðasta haust eftir að hafa verið lokaður í nokkur ár en er smærri í sniðum og minna sóttur) en sem skrifstofubygging hefur Empire State eiginlega aldrei náð tilætluðum árangri. Eins og áður sagði opnaði byggingin tveimur árum eftir að verðbréfamarkaðurinn hrundi á Wall Street árið 1929 og því var spurn eftir skrifstofurými í lágmarki. Fljótlega fékk byggingin viðurnefnið „Empty State Building“ og jafnvel þann dag í dag eru rúm 18% skrifstofurýmisins ónotuð. Þrátt fyrir það skipar byggingin ótvíræðan sess í hugum New Yorkbúa og aðrar tekjur byggingarinnar en leigutekjur eru slíkar að auða skrifstofurýmið er eigendum byggingarinnar ekki mikið áhyggjuefni.
 
Eins og önnur há mannvirki hefur Empire State ekki farið varhluta af því að verða síðasti áfangastaður þeirra sem ákveða að binda enda á eigið líf. Fleiri en þrjátíu manns hafa varpað sér fram af byggingunni og nú síðast í febrúar á þessu ári stökk ungur maður til jarðar af 66. hæð. Fyrsta sjálfsvígið varð hins vegar nokkrum vikum fyrir opnun byggingarinnar þegar smíðasveinn stökk af 78. hæð og næstu tvo áratugi þar á eftir, varð tíðnin svo há að öryggisvörðunum var skipað að hafa auga með undarlegri hegðun gestanna. Árið 1947 voru ellefu óeinkennisklæddir öryggisverðir staðsettir á útsýnispallinum á 86. hæð og á tveimur mánuðum komu þeir í veg fyrir fimm einstaklingar næðu að klifra yfir eins og hálfs metra girðingu út í opinn dauðann. Sama ár var stærðarinnar stálgirðingingu komið upp sem átti að vera ókleif en það var hún að sjálfsögðu ekki.
 
Haft er eftir William Starrett sem fór fyrir verktakafyrirtækinu sem reisti Empire State, að bygging skýjakljúfa væri á friðartímum það afrek sem kæmist næst umfangi styrjalda. Þessi líking segir meira en mörg orð um það andrúmsloft sem einkenndi fyrri hluta síðustu aldar í New Yorkborg. Fjársterkir aðilar voru ekki hræddir við að leggjast í framkvæmdir sem oft á tíðum verkuðu brjálaðar á almenning en þessir sömu aðilar vissu einnig að auglýsingagildi skýjakljúfsins myndi auka hróður fyrirtækisins sem þeir stýrðu. Á nítjándu öld var viss hópur áhrifamanna í New York, afar andvígur háhýsum og kröfðust þess að lög væru sett sem takmörkuðu hæð þeirra. Til allrar hamingju varð þessum öflum ekki að ósk sinni því annars eru góðar líkur á að Empire State byggingin stæði ekki þar sem hún stendur í dag. Á hinn bóginn er ástæða til að velta fyrir sér orðum eins pistlahöfundur New York Times sem kemst svo að orði í umræddum blaðauka: "Það eins og með guð almáttugan og Empire State bygginguna; hvort sem guð er til eður ei, þá mun maðurinn alltaf sjá ástæðu til að búa hann til."

Af fegurð engla

c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_paris.jpg

Hvílíkt snilldarverk er maðurinn! svo ágætur að vitsmunum! svo takmarkalaus að gáfum! í svip og háttum svo snjall og dásamur! í athöfn englum líkur! í hugsun goðum líkur! prýði veraldar, afbragð alls sem lifir." Þetta lét þunglyndur danaprins eitt sinn hafa eftir sér og gott ef hann skaut ekki nokkuð nálægt markinu.

Ég hef verið að endurskoða afstöðu mína til fegurðarsamkeppna. Ekki svo að skilja að ég hafi haft mjög ákveðnar hugmyndir um tilvist þeirra en þó. Síðan ég man eftir mér hafa fegurðarsamkeppnir virkað mjög skringilega á mig. Sá hugmyndafræðilegi grunnur sem þær byggja á er æði valtur og ég held að flestir taki undir það. En um leið og hugtök eins og hégómi og hallæri koma upp í hugann þegar keppnir í fegurð eru annars vegar, hefur mér líka fundist það einum of auðvelt að afskrifa þær með hjálp slíkra sleggjudóma. Það er margt annað í samfélaginu sem virkar skringilega á mig þó ég leiði það yfirleitt hjá mér. Ég get nefnt hjónabandið sem dæmi og erfðaskattinn en kannski væri andlitsförðun nærtækara dæmi þegar um huglæga hluti á borð við fegurð er að ræða.

Þegar fegurðarsamkeppnir ber á góma er oftar ekki langt að bíða þar til einhver grípur til grísku goðsögunnar um þrætueplið, fyrstu fegurðasamkeppninnar þar sem gyðjurnar Aþena, Afródíta og Hera, börðust með klækjum um hylli Parísar og að með þessari goðsögu sannist að fegurðarsamkeppnir hafi fylgt manninum frá örófi alda. Sem er líklega satt. Fegurð -og mat á fegurð - hefur fylgt mannkyninu frá upphafi og þetta snýst ekki síst um það hvernig mannsheilinn virkar. Hvernig við löðumst frekar að samhverfu en andhverfu. Lífeðlisfræðileg lögmál liggja hér að baki skilst mér, og hver erum við þá að halda því fram að fegurð sé afstæð, ef annað segir heilinn?

Án efa hefur réttindabarátta kvenna orðið til þess að viðhorf okkar til fegurðarsamkeppna hefur breyst. Hér áður fyrr var keppnin samtvinnuð þjóðernisvitundinni alveg eins og aflsmunir Jóns Páls. Við áttum fegurstu konur veraldar og sterkustu karlmennina. Við vorum ósigranleg, fullvalda og stolt af því. En svo fór að halla undan fæti, tíundi áratugurinn gekk í garð og fegurð og aflsmunir féllu í skuggann af Björk - jæja, kannski ekki alveg. Réttindabaráttan barði það inn í hausinn á okkur að kroppasýningar eins og fegurðasamkeppnir ýttu, með einum og öðrum hætti, undir ójöfnuð kynjanna. Nokkuð til í því. Þess ber þó að geta að keppnin um fegursta karlmann Íslands hlýtur að skekkja þá röksemdarfærslu að einhverju leyti. Eða var það allt kannski eitursnjall mótleikur nokkurra dónakalla á Broadway sem vildu halda í kroppasýningarnar?

Annað sem ég held að tengist þessu er að pólitísk rétthugsun hefur tröllriðið vestrænum samfélögum á undanförnum árum og ekki eru allir á eitt sáttir með þá þróun. Á mörgum sviðum samfélagsins er þessi rétthugsun orðin þvingandi. Og hún á ekki síst sök á því að fegurðarsamkeppnir eru í dag taldar hallærislegar. Þær eru taldar óhæfar á þann hátt að í þeim felst staðhæfing sem ekki er pólitísk rétthugsuð, þ.e.a.s. að fegurðin sé ekki afstæð - hún spásseri meira segja á sviðinu þarna, í bikiníi. Svoleiðis hugsunarháttur getur ekki gengið í samfélögum þar sem allir eru jafnir frammi guði. Féllumst við á slíkan hugsunarhátt, væri ekki langt þar til að stéttaskipting kæmist aftur á og það viljum við ekki eða hvað?

En svona hugsun, eða hegðun réttara sagt, á sér samt stað, jafnvel þó að hún sé ekki viðurkennd. Hana má sjá á efnisvali fjölmiðla, í auglýsingum, í stjórnmálum og alls staðar annars staðar þar sem manneskjan sjálf er notuð sem söluvara. Fegurðin er viðurkennd - ekki bara sem afstæður hlutur heldur sem fastmótað form. Að vísu getur þetta form breyst lítillega eftir því hvernig vindar tískunnar blása en þeir vindar blása yfirleitt bara í eina átt í einu. Blaðið í gegnum þetta blað og önnur í nokkra daga og ég fullvissa ykkur um að þið komist á raun um að fallega fólkið fær fleiri dálksentimetra en aðrir. Dálæti okkar mannanna á fegurð er óseðjandi, svo einfalt er það.

Vandamálið með fegurðarsamkeppnis-umræðuna sem reglulega skýtur upp kollinum, er að hún skiptist ávallt í átök tveggja fylkinga. Þetta verður til þess að annað hvort er maður brennimerktur sem femínisti eða það sem á ensku kallast sexist og er illþýðanlegt. Ég á erfitt með að tengjast hvorum hópnum. Óræð tengsl kvenlegrar fegurðar og undirgefni við karlkynið er tímaskekkja sem þyrfti að útrýma úr okkar menningu hið fyrsta en fegurðin sem slík er ekki af hinu illa. Ef þeir eru til þeir sem dreymir um að keppa í fegurð er það þeirra mál. Fyrir mér er það einfaldlega spurning um lífsstíl. 

"Prýði veraldar, afbragð alls sem lifir," er haft eftir prinsinum danska í upphafi pistilsins en tilvitnunin er í heild sinni lengri og endar svo; "og þó hvers virði er mér þessi duftsins kostakjarni? Maður er ekki mitt gaman; nei ekki kona heldur." Ég held barasta að ég sé honum líka sammála þar.


Fleiri myndir

Sirkus Silvíu Nóttar

Andy Kaufmann
Hann hefur varla farið fram hjá nokkru mannsbarni, sirkusinn sem nú er staddur í bænum. Enda hafa forsíður og baksíður blaðanna, stór hluti fréttatímanna og viðtalsþáttanna verið undirlagðir af kynningarefni um ljósfimleikana og trúðslætin sem, að sögn elstu manna, slá öllum fyrri alþýðuskemmtunum við. Og það er engin furða því að sirkusinn býður upp á svo mögnuð atriði að sumir neita jafnvel að kalla þetta sirkus, segjast frekar vera á leiðinni í leikhúsið, þarna er jú svið, fjöldi leikara og síðast en ekki síst, söguþráður.

Ég er að sjálfsögðu að tala um Silvíu Nótt, (fyrirsögnin kom ykkur á sporið, var það ekki?) lagið hennar "Til hamingju, Ísland" og þau sterku viðbrögð sem atriði hennar hefur fengið, frá bæði fjölmiðlum og almenningi. Það þurfti líklega viðburð á stærð við Söngvakeppni Sjónvarpsins til að umræðan tæki á sig þessa skringilegu mynd en auk þess verður að segjast að vopn sumra, sem fyrir stuttu ætluðu að leggja stein í götu lagsins, hafi í raun snúist í höndum þeirra og í staðinn fyrir að Silvíu væri fleygt út úr keppninni, fékk hún fjölmiðlaumfjöllun sem allir hinir höfundarnir og flytjendurnir gátu aðeins leyft sér að dreyma um.

Það væri of mikil einföldun að segja að gúrkutíð fjölmiðla eða uppsláttarfyrirsagnir sumra blaða væru mótandi afl í þessum sirkus því eins og allir þeir sem sótt hafa slíkar "erlendar" skemmtanir er alltaf einhver sem kynnir trúðana inn í hringinn. Þeir sem sáu atriði Silvíu Nóttar, umstangið í kringum komu hennar út á Fiskislóð, lífverðina, skínandi svarta bílana og svo náttúrlega atriðið sjálft, geta sagt sér það sjálfir að svona uppákoma krefst vandlegrar skipulagningar. Hér þarf að hugsa fyrir öllu, hámarka athyglina og gera sirkusgestum það ljóst að atriðið sem verið er að kynna sé engu öðru líkt. Í ljósi þeirrar athygli sem lagið hefur fengið er óhætt að segja að sirkusstjórinn hafi leyst þetta vel af hendi. Maður hefur heyrt sögur af því að krakkar allt niður í fimm ára hlaupi um í barnaafmælum syngjandi hástöfum "Til hamingju, Ísland" og nú þegar Nylon-flokkurinn er horfinn til útlanda og Birgitta - ja, hefur einhver rekist á hana? - þá er ekki ólíklegt að innan skamms verði drjúgur hluti yngstu skólabarnanna búinn að tileinka sér hegðun og atferli Silvíu Nóttar.

En aftur að sirkusnum og viðleitni fjölmiðla til að taka þátt í viðburði sem er greinilega - og öllum er það vonandi ljóst - uppdiktaður. Hvað er það til dæmis sem fær fjölmiðil eins og þennan til að gleypa það með húð og hári að á sviðinu út á Granda standi Silvía Nótt en ekki Ágústa Eva Erlendsdóttir? Er það þörf hans fyrir að taka þátt í leik sem allir aðrir virðast leika (og þar með kannski forða honum frá því að vera púkó) eða er þetta frekar í ætt við það sem við kynnumst á hverju ári þegar viðtöl er tekin við jólasveininn. Þessi þátttökuvilji fjölmiðla náði áður óséðum hæðum þegar fréttamaður NFS reyndi að fá - og takið nú eftir - viðbrögð Silvíu Nóttar við stjórnsýsluákæru sem lögð var fram á hendur útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins. Segjum nú svo að útvarpsstjóri hefði neyðst til að segja af sér í kjölfarið, hefði NFS þá kannski fundist það við hæfi að fá viðbrögð Silvíu Nóttar við afsögninni? Að sjálfsögðu ekki en það fær mann samt til að velta því fyrir sér að ef línan á milli raunveruleikans og hins ímyndaða er til, eru allir með það á hreinu hvar hún liggur?

Ágústa Eva Erlendsdóttir og önnur foreldri Silvíu Nóttar vilja náttúrlega umfram allt að þessi umrædda lína þurrkist út og vegna þess að flestir eru á því að þessi leikur sé, enn sem komið er skemmtilegur, höfum við gert með okkur þegjandi samkomulag um að hann fái að halda áfram. Hvort þetta samkomulag hafi spilað einhvern þátt í ákvörðun útvarpsstjóra að lag Silvíu Nóttar fékk að halda áfram í keppninni er erfitt að segja en það hlýtur óneitanlega að hafa verið skrítið fyrir Kristján Hreinsson og co. að halda uppi málflutningi gegn einhverju sem í raun og veru er ekki til.

Franski fræðimaðurinn Roland Barthes skrifaði um miðja síðustu öld, ritgerð um bandaríska fjölbragðaglímu en fyrir þá sem ekki þekkja umrædda glímu, þá á hún meira skylt með leiksýningum en íþróttum. Þar heldur Barthes því fram að áhorfendurnir hafi í raun engan áhuga á því hvort úrslit glímunnar séu fyrir fram ákveðin eða ekki, því að þeir hafi þegar ofurselt sig frumforsendu sýningarinnar; það sem máli skiptir er ekki hvað áhorfendurnir halda, aðeins hvað þeir sjá.

Hringir þetta einhverjum bjöllum?

Það að Barthes hafi valið að skrifa um fjölbragðaglímu er nokkuð áhugavert því að á síðustu öld var einnig uppi maður sem gerði veröld fjölbragðaglímunnar og viðbrögð fólks við henni að áratugalöngu grínatriði. Maðurinn hét Andy Kaufman og var einn áhrifamesti skemmtikraftur sem uppi hefur verið. Kaufman var upptekinn af því sem stundum hefur verið nefnt "anti-humor" og snýst í raun og veru um að ganga of langt með brandara; svo langt að hann hættir að vera fyndinn, verður svo aftur fyndinn, hættir því og svo koll af kolli. Þetta gerði hann stundum með því að búa til persónur sem iðulega voru fráhrindandi, óforskammaðar og dónalegar en svo yfirgengilegar sem slíkar að þær urðu stórkostlega fyndnar. Grínið sem Kaufmann skóp í kringum fjölbragðaglímuna entist honum til dauðadags og því hæpið að útskýra það hér í fáum orðum en kjarni þess var í einu orði sagt, öfgar. Kaufmann reyndi alltaf að ganga lengra og umfram það sem síðustu hlátrasköll gáfu tilefni til. Áðurnefnd grein Rolands Barthes hefst á þessum orðum: "Dyggð fjölbragðaglímunnar er sú að hún er sýning öfganna." Kaufmann skyldi þó ekki hafa lesið Barthes - eða þá Ágústa Eva?

Veröld sirkussins er á köldum dögum sem þessum nokkuð heillandi. Hún er veröld skærra lita, stórra svipbrigða, töfra, húmors og hættu. Súrefnið í tjaldinu er annað en það sem við öndum að okkur dagsdaglega og þar er hvorki tími né rúm fyrir smásálarlegar tilfinningar. Maður heldur með þessum trúð og maður er á móti hinum. Sirkusinn vill skemmta og maður vill láta skemmta sér. Hversu lengi þessi tiltekna sýning getur gengið, veltur náttúrlega á færni sirkusstjórans til að gera okkur móttækileg og spennt fyrir næsta atriði. Hingað til hefur allt gengið eins og í sögu en ef það er ein regla sem allir alvöru sirkusstjórar telja að sé ófrávíkjanleg, þá er hún þessi: Stórkostlegasta atriðið kemur alltaf síðast.

Nú er að bíða og sjá.

 Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 11. febrúar 2006


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband