Færsluflokkur: Bækur
25.9.2006 | 13:39
Helvíti á jörðu
Þá hafði ógnarstjórnin verið við völd í heil fjögur ár í landinu og leitt af sér dauða tæpra tveggja milljóna saklausra borgara. Fjölmargir voru teknir af lífi án dóms og laga en enn aðrir sultu í hel eða týndu lífi í vinnubúðum kommúnistastjórnarinnar sem kennd var við Angkar. Margir sérfræðingar kjósa í dag að færa tölu látinna nær þriðju milljón sem gerir voðaverkin í Kambódíu að einu hroðalegasta þjóðarmorði síðustu fimmtíu ára.
Þrátt fyrir að tvö ár séu liðin frá því að SÞ samþykktu að koma á laggirnar sérstökum réttarhöldum yfir eftirlifandi leiðtogum Rauðu khmeranna, hefur enginn verið dæmdur. Leiðtogi þeirra, Pol Pot náðist ekki fyrr en árið 1997 en hann lést ári síðar saddur lífdaga, áður en að réttarhöld yfir honum gátu hafist. Ástæðuna fyrir því að svo illa gengur að hefja réttarhöldin er vísast að finna í veikum innviðum stjórn- og réttarkerfis Kambódíu. Landið allt er enn í rústum eftir stjórnartíð Pol Pots þar sem opinberir starfsmenn, lögfræðingar, verkfræðingar og aðrir menntamenn voru kerfisbundið leitaðir uppi og myrtir af ómenntuðum vígamönnum stjórnarinnar sem trúðu því að öll utanaðkomandi menntun og vitneskja væri af hinu illa og Angkar til ama.
Eina áhrifamestu frásögnina um stjórnartíð Rauðu khmeranna er að finna í sjálfsævisögunni Stay Alive My Son sem kambódíski stærðfræðingurinn Pin Yathai skrifaði. Yathai vann sem verkfræðingur hjá hinu opinbera þegar Rauðu khmerarnir komust til valda og var hrakinn ásamt 17 manna fjölskyldu sinni úr höfuðborginni Phnom Pehn, til að vinna á hrísgrjónaökrum landsins sem allir höfðu verið þjóðnýttir. Stjórnmálaástand Kambódíu hafði fram að því einkennst af spillingu og stjórnleysi og þegar Rauðu khmerarnir boðuðu jöfnuð og réttlæti sáu margir Kambódear fram á betri tíð. Sú von brást hins vegar snögglega þegar hið rétta andlit Angkar kom í ljós. Hrísgrjónaakrarnir reyndust eins og og vinnubúðir nasista í seinni heimstyrjöldinni, vera þrælkunarbúðir þar sem heilu fjölskyldurnar létust ýmist úr hungri eða illri meðferð af hendi frelsaranna.
Frásögn Yathais er eins og áður sagði áhrifmikil og það er allt að því ótrúlegt til þess að hugsa að maður eins og hann hafi ekki misst vitið við að horfa upp á fjölskyldu sína - foreldra, systkini, börn og eiginkonu - veslast upp og deyja vegna beinna áhrifa Rauðu khmeranna. Bókin er nauðsynleg lesning fyrir áhugafólk um stjórnartíð Pol Pots í Kambódíu en hún er einnig stórkostlegur vitnisburður um lífsvilja mannsins og staðfestu frammi fyrir ólýsanlegri grimmd og hrikalegu óréttlæti.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.8.2006 | 12:54
Enn á vegum úti
Þó Kerouac sé yfirleitt eignuð þessi uppfinning vita færri að Trotskíistinn og súrrealistinn, Victor Serge hafði sama hátt á þegar hann skrifaði sínar bækur, nokkrum áratugum áður en Kerouac til varnar, eru afar litlar líkur á að hann hafi vitað af vinnuaðferðum kollega síns hinum megin við Atlantshafið.
Nú hefur þessi upprunalega útgáfa Kerouac af On the Road ekki komið fyrir margra sjónir. Ef mig minnir rétt var það sterkefnaður Texasbúi sem keypt handritið á uppboði en síðan hefur það verið á einskonar handritaferðalagi þar sem það flakkar á milli bókasafna og háskóla í Bandaríkjunum, efalaust í vel fægðu glerbúri og með nýtísku rakamæli. Í sjálfu sér er það furðulegt að það hafi ekki fyrr verið gefið út en á hinn bóginn er það mat þeirra sem lesið hafa upprunalega handritið að sú útgáfa sem nú er í umferð sé langtum betri en sú benzedrin-drifna orðahríð sem Kerouac spýtti út úr sér vorið 1951.
Í gegnum tíðina hafa bókmenntafræðingar og aðrir áhugamenn vísað til On the Road sem dæmigerðrar skáldsögu þar sem svokallað stream of consciousness sé að finna, þ.e.a.s. skáldverks þar sem ótruflað flæði hugsana er fest á blað án nokkurra yfirvegaðra breytinga, á meðan og eftir að verkið hefur verið samið. Að einhverju leyti er það rétt að þegar Kerouac settist niður til að skrifa On the Road, hafi hann ákveðið að láta sig smáatriði eins og stafsetningu og fastheldna, rökræna frásagnaraðferð litlu varða. En að halda því fram að verkið hafi hann fullskapað með jafn skyndilegum hætti og Seifur fæddi börn, er skemmtileg saga svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Sannleikurinn er sá að Kerouac hafði gengið með söguna í maganum í allnokkurn tíma þegar hann ákvað loksins að ráðast í gerð hennar og raunverulegt flakk hans um Bandaríkin þver og endilöng var alltaf skipulagt með það í huga að við ferðalok hefði hann efni í bók. Eini vandinn var að Kerouac hafði ekki hugmynd um hvaða frásagnarstíl hann átti að velja sögunni. Í örvæntingu sinni lagðist hann í lestur á evrópskum bókmenntum sem hefur örugglega verið þrautin þyngri vegna þess hve lengi hann var að lesa og í framhaldi prófaði hann mismunandi stíla, án árangurs.
Það var svo ekki fyrr en að Keroauc barst bréf frá Neil Cassady, fyrirmynd Dean Moriarty í On the Road (nafnið væntanlega fengið að láni frá Arthur Conan Doyle) að hann dettur niður á frásagnarstíl sem hann treystir sér til að nota. Í bréfinu á Cassady að hafa reifað ævi sína í 23 þúsund orðum á svipaðan hátt og vinur segir öðrum sögu, án allra flúryrða eða hefðbundinna stílreglna og þar sem engu er haldið aftur í lýsingum á svæsnum kynlífsfrásögnum eða hlutum sem alla jafna kæmu niður á sögumanni. Kerouac lýsti þessu bréfi sem snilldarverki sem tæki framar frásagnargáfu Celine, Wolfe og stæðist fullkominn samanburð við Dostojevskí. Umrætt bréf er nú orðið goðsagnakennt í hugum margra Kerouac-aðdáenda því að það er tapað með öllu (fauk víst á haf út), en ráðlegt er að taka orð Kerouacs með töluverðum fyrirvara. Hitt er annað mál að ástæðulaust er að rengja þau orð Kerouacs að með þessu bréfi uppgötvað hann þann stíl sem notaður er í On the Road og hefur umfram allt annað, gert bókina að einni vinsælustu cult-bók allra tíma.
Manni dettur í hug að þegar fyrrnefndar fréttir heyrðust af fyrirhugaðri útgáfu á On the Road, hafi margir hugsað með sér sem svo að loksins fengi það verk að koma út sem Kerouac hafði ætlað til útgáfu. Hvort sem það er satt eða ekki, átti Kerouac ekki í miklum erfiðleikum með að endurskrifa skáldsöguna að áeggjan vina og með hjálp ritstjóra, þó að kröfur þeirra um fleiri punkta- og kommusetningar hafi stundum farið í taugarnar á honum. Til að mynda var ein frægasta setning bókarinnar: The only people for me are the mad ones, the ones who are mad to live, mad to talk ... ekki skrifuð inn í söguna fyrr en mörgum mánuðum eftir að hann lauk við handritið sem nú á að koma út.
Jack Kerouac er einn þeirra rithöfunda sem hver einasta kynslóð þarf að uppgötva að sjálfsdáðum og gera að sinni í svo og svo langan tíma. Enn í dag ferðast ungt fólk um heiminn innspírerað eftir lestur á On the Road og þrátt fyrir að Kerouac hafi ekki fundið upp vegasöguna er On the Road orðinn samnefnari fyrir slíkar tegundir bókmennta. Eins og F Scott Fitzgerald, sem var rödd hinnar svokölluðu Lost Generation í Bandaríkjunum, var Kerouac rödd hinnar svokölluðu Beat Generation en kynslóðirnar eiga það sameiginlegt að rísa upp úr rústum heimsstyrjaldar og neyðast til að enduruppgötva tilgang lífsbaráttunnar í frekar vonlausum heimi. Það er því ef til vill ekki tilviljun að vegferð þeirra beggja einskorðist að mestu við eina bók og að í þeim báðum spili djassinn stóra rullu.
Bækur | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.5.2006 | 15:27
Bókaþjóðin sem les ekki bækur
Því miður lendir maður ekki í svipuðum aðstæðum hér á landi. Flestar íslenskar bókabúðir bjóða upp á afar takmarkað úrval bóka og þrátt fyrir að manni þyki mjög vænt um einstakar búðir og geri sér þangað leið af gömlum vana er það æ algengara að maður gangi aftur út tómhentur. Yfirleitt finnur maður ekki það sem maður leitar að, eða þá að verðið er slíkt að maður ákveður að bíða og kaupa frekar bókina í útlöndum (að því gefnu að hún sé á erlendu tungumáli).
Það mætti hugsa sér að fjöldi bókabúða í hverju landi endurspeglaði af nokkurri nákvæmni bókmenntaáhuga þjóðarinnar og ég hef heyrt það frá fólki mér eldra, að í eina tíð hafi bókabúðir verið í hverri einustu verslunargötu í Reykjavík.
Ef leitað er í símaskránni sést að fyrir utan fornbókabúðir eru um tuttugu bókabúðir á Íslandi í dag. Þar af er alla vega helmingur sem sér að miklum hluta um sölu á gjafavöru, ritföngum og/eða námsbókum fyrir skóla. Við erum þá kannski að tala um tíu "alvöru" bókabúðir sem þjónusta 350 þúsund íbúa. Það samsvarar einni bókabúð á hverja 35 þúsund íbúa. Til viðmiðunar bjuggu um 60 milljónir manna í Bretlandi árið 2000 og á sama tíma voru um 3.500 bókabúðir í landinu - eða ein búð á hverja 17 þúsund íbúa. Er af þessu hægt að draga þá ályktun að bókmenntaáhugi Íslendinga sé minni en bresku þjóðarinnar?
Það er ef til vill óréttlátt að miða hinn litla íslenska bókamarkað við stóra markaði á borð við þá sem er að finna í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hér þarf líka að hafa í huga að tungumálið setur okkur nokkrar skorður. Íslendingar vilja fremur lesa á íslensku og úrval bóka á íslensku getur aldrei keppt við það sem finna má í enskumælandi löndum. En hvað þá ef við miðum Ísland við önnur smærri ó-enskumælandi þjóðir: Í Albaníu búa um 3,6 milljónir manna og þar er að finna um 350 bókabúðir eða eina búð á hverja tíu þúsund íbúa. Í Eistlandi er ein búð á hverja 13 þúsund íbúa og í Ungverjalandi ein búð á hverja 16 þúsund íbúa. Á þessum tölum má sjá að Ísland er ekki í neinum sérflokki þegar það kemur að fjölda bókabúða í löndum með annað tungumál en ensku að móðurmáli. Hvað er þá orðið um bókaþjóðina miklu sem við höfum ávallt haldið fram að við séum? Eða hafa bókabúðir ef til vill ekkert með bókaáhuga okkar að gera?
Af illri nauðsyn lesa Íslendingar mikið af erlendum bókum. Þar að auki hefur áhugasvið almennings breikkað á undanförnum árum og fólk sem áður fyrr hryllti við fræðiritum ýmiss konar veigrar sér ekki í dag við að lesa lipurlega skrifaðar bækur um efnahagsmál, markaðsfræði og stjórnmál, svo eitthvað sé nefnt. Líklega hafa stóru bókabúðirnar reiknað það út að það borgi sig ekki að flytja inn fleiri bækur á erlendri tungu, markaðurinn sé of lítill. Þó er þessi hlutur erlendra bóka hér á landi engu að síður töluverður ef litið er til annarra þátta en hefðbundinnar bóksölu. Æ fleiri Íslendingar nýta sér til dæmis bóksölur á netinu og á síðasta ári bárust, samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti, tæplega 40 þúsund póstsendingar frá netversluninni Amazon hingað til lands. Við getum hóflega áætlað tvær bækur í hverri sendingu sem þýðir að hátt í 100 þúsund bækur eða annað lesefni berst hingað til lands á ári hverju. Líklega meira. Til viðmiðunar jókst netsala á bókum í Bretlandi um heil 33% á síðasta ári og var þá um 8% af heildarsölu bóka þar í landi. Þessi prósentutala mun örugglega hækka í framtíðinni - þar og hér.
Það vakti athygli mína á dögunum þegar Félag íslenskra bókaútgefenda, með stuðningi Glitnis, veitti heimilunum í landinu þúsund króna ávísun til bókakaupa. Ég hugsaði með mér að bóklestur hlyti að vera að dragast þó nokkuð mikið saman fyrst gripið væri til slíkra aðferða. Rithöfundar eins og Þorsteinn frá Hamri segja að svo sé og það er í sjálfu sér engin ástæða til að draga það mat í efa. Úrval afþreyingarefnis af öllum mögulegum toga hefur aukist á síðustu árum og eins lengi og klukkutímunum í sólarhringnum fjölgar ekki er rökrétt að draga þá ályktun að hlutur bókarinnar minnki að sama skapi.
Á hinn bóginn segja menn í bókaiðnaðinum hér á landi að markaðurinn sé í raun að stækka og þá flækist málið. Hvernig getur bóklestur farið minnkandi á sama tíma og markaðurinn sjálfur stækkar? Margir segja að aukin útgáfa í kiljuformi sé orsökin og sú þróun er svipuð í öðrum löndum en það er aðra ástæðu að finna sem er í raun mun áhugaverðari.
Félag íslenskra bókaútgefenda hefur á undanförnum árum fengið IMG Gallup til að gera könnun á jólabókagjöfum landsmanna. Þessar kannanir sýna, eins og menn hafa ályktað, að þeim Íslendingum fækkar sem fá bækur í jólagjöf. En það sem þessar kannanir sýna líka er að þeir sem á annað borð fá bókagjafir fá mun fleiri bækur en áður tíðkaðist. Sem sagt; hinn dæmigerði lestrarhestur vegur upp á móti minnkandi bóklestri almennings í landinu. Getur þá verið að bókaþjóðin mikla sé, þegar öllu er á botninn hvolft, ef til vill ekkert annað en afmarkaður hópur bókaorma? Þetta skyldi þó ekki vera sami hópurinn og mætir á bókmenntahátíðirnar, upplestrana og útsölumarkaðina?
Menn vilja oft tengja bóklestur við þekkingu og menntun og ef það er gert á öfugum forsendum, það er að segja að hátt menntunarstig leiði til mikils bóklestrar, er Ísland í enn verri málum. Samkvæmt nýjustu skýrslu OECD um menntamál kemur fram að hlutfall Íslendinga á aldursbilinu 25-34 ára sem lokið hafa framhaldsskólanámi er einungis 64%. Þetta hlutfall er á bilinu 86-95% hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. Í sömu skýrslu kemur einnig fram að af 30 OECD-þjóðum er Ísland í 25. sæti, sem þýðir að flest iðnríki heims eru menntaðri en við.
Af þessum tölum að dæma virðist það nokkuð ljóst að við Íslendingar lesum ekki nóg - þó ekki væri nema námsbækurnar.
Bækur | Breytt 19.5.2006 kl. 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.3.2006 | 00:00
11. Þú skalt vera fallegur
Eins og allir alvöruhnakkar vita er Biblía fallega fólksins komin út. Hávar Sigurjónsson, blaðamaður Morgunblaðsins, fór nokkrum orðum um bókina í Lesbókinni um síðustu helgi, og í sjálfu sér er litlu við þá umfjöllun að bæta. En einhverra hluta vegna grunar mig nú samt að sú umfjöllun hafi meira eða minna farið framhjá hnökkunum, og þar af leiðandi markhópi biblíunnar. Ég met það því svo að mér sé óhætt að hafa fleiri orð um þessa blessuðu bók og höfund hennar - að því gefnu að haus pistilsins hreki hvorki "white trash"- né "uppdeituðu white trash"-hnakkana yfir á næstu síðu.
Eins og svo margir aðrir hef ég haft nokkra ánægju af því að fylgjast með hliðarsjálfi Egils Einarssonar undanfarin misseri. Að mörgu leyti virðist hann falla vel að því að vera eins konar karlkynsútgáfa Silvíu Nóttar, þegar maður veltir fyrir sér þeirri ríku áherslu sem Gilzenegger leggur á útlitið og aðra úthverfari þætti mannlegs atgervis - en þó ekki alveg. Á sama tíma og Silvía Nótt leitast við að holdgera það sem í daglegu máli kallast hégómi og um leið velta upp stórum spurningum um nútímagildismat virðist það frekar vera hlutverk Gilzeneggers að skilgreina hégómann niður í svo margar smáar eindir að spurningarnar sem vakna verða óhjákvæmilega sértækar og lítilfjörlegar. Í stað þess að spurningin snúist um það hvort útlitið skipti mestu máli snýst hún frekar um það hvort það sé eftirsóknarverðara að vera hnakki eða trefill(!)?
Biblía fallega fólksins er líklega merkilegust fyrir þær sakir að hún festir á prent lífsstíl sem virðist njóta síaukinna vinsælda hjá ungu fólki. Æskudýrkunin hefur verið fyrirferðarmikil undanfarna áratugi en nú hefur hún færst upp á næsta stig. Það er ekki lengur nóg að vera ungur. Ungt skal líka vera fallegt; "helköttað" og "heltanað". Líklega hefur þessi líkamsdýrkun ekki verið jafnfyrirferðarmikil síðan Forn-Grikkir hófu að höggva í stein en þar var þó á yfirborðinu hugmyndin um að heilbrigð sál þyrfti verustað í hraustum líkama. Því er ekki beint fyrir að fara í Biblíu fallega fólksins. Sálinni er svo að segja úthýst úr musterinu og jafnvel af meira offorsi en önnur Biblía greinir frá. Gilzenegger lýtur sömu lögmálum og Silvía Nótt að því leyti að skilyrði fyrir tilvist hans er að finna í mótstöðunni. Eins lengi og þeir eru til sem fordæma skoðanir hans og gildismat á opinberum vettvangi fjölgar í hópi þeirra sem telja hann til fyrirmyndar. Þetta segir sig sjálft og gerist hér eins og alls staðar annars staðar þar sem deilt er um lífsstíl.
Það er því óneitanlega kaldhæðnislegt, eins og sannaðist í "raunveruleikriti" Silvíu Nóttar, þegar venjulegt fólk sem á sér einskis ills von sogast í hringiðuna og verður að leiksoppum í handriti sem skrifast jafnóðum og það er leikið. Þeir sem taka það að sér að berjast gegn skoðunum Gilzeneggers eiga álíka mikla von á sigrum og gamli kallinn sem barðist við vindmyllurnar. Það ættu treflarnir í það minnsta að vita.
Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. mars 2006
Bækur | Breytt 29.3.2006 kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)