Færsluflokkur: Menning og listir

Af mishelgu fólki

st_george.jpg
Í vikunni verður áhugavert mál tekið til umræðu á prestastefnu ensku biskupakirkjunnar sem gæti haft víðtæk áhrif á enska kirkjumenningu, en einnig á ásjónu stuðningsmanna enska landsliðsins í knattspyrnu - eins skringilega og það hljómar.

Um er að ræða tillögu Philips Chesters, sóknarprests í Westminster, um að heilagur Alban verði gerður að verndardýrlingi ensku biskupakirkjunnar við hlið heilags Georgs sem Philip og aðrir stuðningsmenn tillögunnar segja of herskáan og særandi í garð múslima - og útlendinga almennt.

Það sem gerir málið ef til vill áhugaverðara en ella er að angar þess teygja sig bæði aftur til forsögulegra tíma og til þeirrar framtíðar sem kristið fólk vill skapa í fjölmenningarríkinu Englandi.

Tillaga Chesters og félaga verður að teljast nokkuð djörf þar sem heilagur Georg hefur verið höfuðdýrlingur Englendinga allt frá miðöldum þegar krossfarar fluttu píslarsögu hans með sér frá landinu helga. Í dag er hann án efa einn frægasti dýrlingur hins kristna heims - ekki síst fyrir tilstuðlan teiknimyndasagna þar sem hann er sívinsæll í hlutverki drekabanans mikla. Hann er verndardýrlingur kristinna manna í Búlgaríu, Makedóníu, Rússlandi, Georgíu, Eþíópíu og Svíþjóð auk Englands en svo er hann dýrlingur enn fleiri borga og málefna um víða Evrópu - á hann er til að mynda heitið þegar fólk vill læknast af herpes og öðrum húðsjúkdómum.

Það merkilega við heilagan Georg er að það hefur ekki verið sannað með óhyggjandi hætti að hann hafi í raun og veru verið til en hann er talinn hafa verið uppi um aldamót þriðju og fjórðu aldar e.kr., í Litlu-Asíu. Í píslarsögunni segir að Georg, sem þá var hermaður í þjónustu rómverska keisarans Díokletían, hafi neitað að framfylgja skipun keisarans um að ofsækja kristna menn og hlotið að launum dauðadóm. Sagan hermir að maður einn, sem varð vitni að því þegar Georg var bæði pyntaður og hálshöggvinn, hafi sannfært Alexöndru keisaraynju og heiðinn prest, Aþanasíus nokkurn, um að taka kristna trú en þar með hlutu þau bæði dauðadóm og liðu eigin píslarvætti.

Eins og áður sagði er goðsagan (eða ævintýrið) um Georg drekabana þekktari en píslarsagan en þar er líklega um að ræða goðsögu sem á sér fyrirmynd í enn eldri goðsögum, indóevrópskum. Fyrir þá sem muna hana illa hefst hún á því að mannýgur dreki hreiðrar um sig við vatnsból konungsdæmis og í kjölfarið verða þegnar þess að færa drekanum eina mannfórn á dag svo þeim leyfist að sækja sér vatn. Hverjum skal fórnað er ákveðið með (ó)happadrætti og án andmæla - allt þar til að dóttir konungsins er dregin út. Í örvæntingu sinni býður hann þegnum sínum hálft konungdæmið gegn því að lífi dóttur hans verði þyrmt en án árangurs. Í þann mund ríður heilagur Georg á hvítum fáki um konungdæmið og heyrir af vanda konungs. Hann berst við drekann og leysir prinsessuna úr prísundinni en til að sýna þakklæti sitt taka konungur og þegnar hans kristna trú og jafnskjótt öðlast vatnsbólið mikinn lækningamátt - sér í lagi á húðsjúkdómum.

St AlbanSt Alban

Þrátt fyrir að píslarsagan leggi ekki jafnmikið upp úr drápum Georgs og ævintýrið af drekanum hefur helgi hans ætíð verið tengd hernaði og myndir af honum er að finna á skjaldarmerkjum herfylkinga um allan heim. Hann er eini dýrlingurinn sem sést í miðjum bardaga á helgimyndum og þá oftar en ekki í rómverskum herklæðum. Það er því líklega þess vegna og ekki síst fyrir þá staðreynd að það voru krossfararnir sem héldu minningu og helgi Georgs á lofti að prestar eins Philip Chester kalla nú eftir því að heilagur Alban verði settur á jafnháan stall og heilagur Georg (og helst hærri). Og í raun og veru hefur helgi Albans mun meira með England nútímans að gera. Fyrir það fyrsta er það vitað með vissu að umræddur Alban var uppi - einhvern tímann í upphafi fjórðu aldar e.kr., og það sem meira er, hann leið sitt píslarvætti á enskri grundu (í Hertfordskíri norður af London) og er þ.a.l. fyrsti enski dýrlingurinn. Sagan segir að Alban hafi veitt kristnum presti, sem var á flótta undan rómverskum hermönnum, felustað á heimili sínu og að presturinn hafi í kjölfarið veitt Alban skírn. Til að villa um fyrir Rómverjunum skiptu þeir Alban og presturinn á klæðum sem varð svo til þess að rómversku hermennirnir handtóku Alban í misgripum fyrir prestinn. Þegar upp um það komst urðu þeir æfir og spurðu Alban hvort hann hefði snúist til kristni en við því svaraði Alban: "Ég tilbið og dýrka hinn sanna, lifandi guð, skapara himins og jarðar." Þrátt fyrir pyntingar Rómverjanna neitaði Alban að ljóstra upp um felustað prestsins og svo fór að hann var dreginn út fyrir borgarmörkin og upp á hæð þar sem hann var hálshöggvinn. Á þeim stað stendur í dag dómkirkja heilags Albans.

Í inngangi pistilsins talaði ég um að niðurstaða prestaþingsins gæti mögulega haft áhrif á það hvernig enskir stuðningsmenn koma okkur hinum fyrir sjónir á keppnismótum framtíðarinnar. Þar á ég við kross heilags Georgs (rauður kross á hvítum fleti) sem enskir stuðningsmenn flagga ótt og títt og er þjóðfáni Englands. Fáninn á uppruna sinn í krossferðunum eins og svo margt annað en eins og Philip Chester og aðrir hugsa til með hryllingi máluðu riddararnir krossinn með blóði þeirra múslima sem drepnir voru á vígvellinum.

Kross heilags Albans er aftur á móti tvær gular skálínur á bláum fleti og menn geta því auðveldlega ímyndað sér keðjuverkunina af því ef heilagur Alban verður settur skör hærra en Georg.

Á hinn bóginn gætu enskar fótboltabullur huggað sig við það að flóttinn undan óeirðalögreglunni yrði hægur leikur innan um saklausa, sænska stuðningsmenn.


Fleiri myndir

Lofsöngvar á HM

HM

Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu er í algleymingi um þessar mundir. Þrjátíu og tvö knattspyrnulið jafnmargra þjóðlanda eru samankomin í Þýskalandi og innan mánaðar (9. júlí) mun ein þjóð standa uppi sem sigurvegari í vinsælustu íþrótt veraldar.

Menningarvitar um allan heim keppast nú við að listgera knattspyrnuna eins og lög gera ráð fyrir á póstmódernískum tímum og sýnist sitt hverjum um þær tilraunir. Ég hef svo sem lítið út á þá umræðu að setja þó að í mínum huga sé knattspyrna fyrst og síðast keppnisíþrótt og tæplega vill nokkur menningarviti heimfæra það upp á listirnar - eða hvað?

En það er önnur listgrein sem töluvert fer fyrir á heimsmeistarakeppninni í Þýskalandi. Nefnilega tónlist. Áhorfendur að keppninni gera sér e.t.v. ekki grein fyrir því en nákvæmlega 128 sinnum verða þjóðsöngvar landanna fluttir í Þýskalandi - níutíu og sex sinnum í riðlakeppninni og þrjátíu og tvisvar sinum í úrslitakeppninni. Þá hefja tugþúsundir áhorfenda sem mættir eru á völlinn upp raust sína og kyrja sönginn með stolt í brjósti við undirleik lúðrasveitar. Það má svo eflaust halda því fram - ef gert er ráð fyrir að stór hluti almennings í hverju landi syngi með fyrir framan sjónvarpstækin - að á þessum 30 dögum sem keppnin fer fram muni einn sögulegasti fjöldaflutningur á þjóðsöngvum fara fram.

Sögu þjóðsöngsins má rekja aftur til síðari hluta 16. aldar þegar hollenskir héraðshöfðingjar risu upp gegn spænskri stjórn í stríði sem síðar var kallað 80 ára stríðið. Söngurinn, sem enn er sunginn í Hollandi, var kallaður "Het Wilhelmus" í höfuðið á Vilhjálmi frá Nassau (e.t.v. betur þekktur sem Vilhjálmur af Óraníu) en textinn er byggður upp "akrostískt" þar sem fyrstu stafir hvers erindis mynda orðin Villem van Nassov.

Með fjölgun þjóðríkja í Evrópu á síðustu og þarsíðustu öld tóku æ fleiri þjóðir upp sinn eigin þjóðsöng og þegar nýlenduþjóðirnar fóru tilneyddar að taka upp innflutta siði voru þjóðsöngvar samdir að evrópskri fyrirmynd - eins og margir hafa eflaust tekið eftir í tilviki Afríkuþjóðanna á HM. Nú til dags eru aðeins örfáar þjóðir utan Evrópu sem byggja þjóðsöngva sína á innlendri tónlistarhefð en þær eru Japan, Kosta Ríka, Íran, Sri Lanka og Búrma.

Þvert á hugmyndir margra hafa fáir þjóðsöngvar verið samdir af þekktum tónskáldum. Fáir kannast til dæmis við Claude Joseph Rouget de Lisle, sem samdi "La Marseillaise", og þá var laglínan við bandaríska þjóðsönginn, "The Star-Spangled Banner", fengin að láni frá öðru lagi sem kallast "To Anacreon in Heaven" eftir hið annars óþekkta enska tónskáld John Stafford Smith. Merkilegra er þó kannski að enski þjóðsöngurinn, "God Save the Queen", var saminn af manni, hvers nafn er fyrir löngu fallið í gleymskunnar dá. (Sama laglína er sungin við vísuna "Eldgamla Ísafold" eftir Bjarna Thorarensen og var um tíma eiginlegur þjóðsöngur okkar.)

Á hinn bóginn var þýski þjóðsöngurinn, "Gott erhalte Franz den Kaiser" (í dag "Das Lied der Deutschen"), saminn af hinu þekkta tónskáldi Joseph Haydn og svo vilja Austurríkismenn trúa því að sjálfur Wolfgang Amadeus Mozart hafi samið þjóðsöng þeirra þó að skotheldar heimildir finnist ekki víða um það.

Hér á landi hefur þjóðsöngurinn lengi verið umdeildur. Margir agnúast út í laglínuna, sem er eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, en hún þykir mjög erfið til söngs þar sem tónbilið (frá dýpsta tóni til þess hæsta) spannar víðara söngsvið en hinn almenni söngvari ræður við. Enn aðrir hafa látið texta lagsins fara fyrir brjóstið á sér en þar er um sálm að ræða, og trúarlegan mjög, sem sumum finnst ekki við hæfi. Þess utan hefur athygli verið vakin á því að í fyrsta erindi gerist Matthías Jochumsson sekur um hugsunarvillu þar sem eilíft smáblóm deyr; "...eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár/sem tilbiður guð sinn og deyr."

Hann er væntanlega ekki sá eini sem gerist sekur um slíkt í sögu kristinnar hugmyndafræði.

En hvort sá dagur rennur upp að "Lofsöngur" Matthíasar og Sveinbjörns verði sunginn á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu skal ósagt látið.

Það er í það minnsta nægur tími til að íhuga aðra kosti.


Sigið til hnignunar

bitlarnir.jpg
Í dómi sem ég skrifaði um tónleika Supergrass á tónlistarhátíðinni Reykjavík Trópík, og birtist í Morgunblaðinu í gær, minntist ég á þá umræðu sem nú fer fram um hnignun hljómleikaiðnaðarins á Íslandi. Skipuleggjendur tónleika með erlendum hljómsveitum, virðast í síauknum mæli, vegna dræmrar miðasölu, neyðast til að flytja tónleika úr stórum íþróttamannvirkjum í smærri samkomuhús eða einfaldlega blása tónlistarviðburðinn af, eins og gerðist með tónlistarhátíðina Reykjavík Rokkar sem fara átti fram um mánaðamótin júní, júlí. Þessi þróun hlýtur að vera þessum sömu skipuleggjendum mikið áhyggjuefni því eins og gefur að skilja, eru háar fjárhæðir eru í húfi. En hvað veldur?
 
Eftir dulitla umhugsun hygg ég að grundvallarþættir núverandi ástands séu þrír:
Í fyrsta lagi ber að nefna það sem kalla má „upplýsta hegðun neytenda“, þ.e.a.s. að íslenskir tónleikagestir séu orðnir betur upplýstir um gæði framboðsins og velti því frekar fyrir sér hvort það sé fyrirhafnarinnar virði að sækja einstaka tónleika með tilliti til tíma og fjárhags. Hér áður fyrr má segja að Íslendingar hafi snobbað fyrir erlendum tónlistarmönnum og undantekning var ef illa seldist á hljómleika þeirra. Nú er öldin önnur – aukið framboð síðustu missera hefur mettað markaðinn með þeim afleiðingum að þær forsendur sem skipuleggjendur tónleika gáfu sér áður, reynast úreltar í dag.
Í þessu sambandi skiptir varan (hljómsveitin) aðalmáli.
 
Önnur ástæðan kemur í beinu framhaldi af þeirri fyrstu og gengur út á hæfileika skipuleggjandans til að lesa í eftirspurnina, umfang markaðarins og haga þannig kostnaði við hljómleikana í samræmi við þá spá. Þeir Íslendingar sem farið hafa á tónleika með vinsælum tónlistarmönnum í útlöndum furða sig stundum á því að meðalaðsókn er ekki mikið meiri en 3.000 tónleikagestir. Vinsælir tónleikastaðir á borð við Razzmatas í Barcelona, Palladium og Dominium í London taka rétt rúmlega 2.000 gesti en þar koma stórar hljómsveitir fram á hverju ári. Og þá liggur beint við að spyrja; af hverju ættu fleiri íslenskir tónleikagestir að sækja slíka hljómleika?
Það sem áður hefur verið kallað hnignun hljómleikamarkaðarins, gæti þess vegna í raun verið tilhneigin hans til að rétta sig af með tilliti til raunverulegs fjölda neytenda.
Í þessu sambandi skiptir staðsetning tónleikanna aðalmáli.
 
Þriðja og síðasta ástæðan er bundin við ákveðið ástand í þjóðfélaginu sem snýr að fjárhag heimilanna. Í ljósi aukinnar skuldastöðu almennings og spár um válynda tíma í efnahagsmálum þjóðarinnar, er ekki óvitlaust að gera ráð fyrir því að þeir markaðir sem að algerum hluta snúast um dægradvöl, séu þeir fyrstu til að fara halloka – og öfugt, ef um mikla hagsæld er að ræða.
Iðnaður á borð við hljómleikaiðnaðinn er afar viðkvæmur fyrir sveiflum í hagkerfinu og þegar skóinn kreppir (eða þá að blikur séu á lofti um að það muni hann gera) er almenningur gjarn á að láta hluti eins og leikhús, tónleika og kvikmyndahús mæta afgangi.
Í þessu sambandi skiptir miðaverð á tónleikana aðalmáli.
 
Að sjálfsögðu verða allir þessir þættir að ganga upp svo að einstakir hljómleikar standist væntingar og aðrir hlutir á borð við auglýsingar og tímasetningu geta einnig skipt töluverðu máli.
Hins vegar má af þessari greiningu sjá að í stað þess að talað sé um hnignun hljómleikamarkaðarins á Íslandi, væri réttara að segja að hann hefði nú fyrst náð jafnvægi – nú fyrst hagar hann sér eins og hljómleikamarkaðir annars staðar í heiminum.


Kunnuglegur söngur eftir Evróvisjón

Lordi
Það er ekki laust við að maður finni fyrir svolitlum Evróvisjón-timburmönnum þessa dagana. Ég var eins og margir öruggur um að Silvía kæmist áfram í lokakeppnina en eftir að atriði hennar sleppti á sviðinu í Aþenu runnu á mig tvær grímur. Fyrir það fyrsta var söngurinn ekki jafnkraftmikill og lagviss og í undankeppninni hér heima og svo ruglaði sviðsmyndin mig frekar í ríminu en hitt, að hún bætti einhverju við atriðið.

Þegar það var svo ljóst að Silvía kæmist ekki áfram fann maður fyrir svipaðri líðan og þegar maður skyndilega uppgötvar að maður hefur setið of lengi í samkvæmi sem var manni kannski ekkert sérstaklega að skapi til að byrja með - en þá er líka yfirleitt farið að renna af manni.

Fyrstu dagana eftir keppnina heyrði maður og las (í fjölmiðlum og á bloggsíðum) margar skýringar á því hvers vegna framlag Íslands hefði ekki hlotið náð fyrir augum Evrópubúa. Oftast heyrði maður þá fullyrðingu að Ísland ætti engan sjens í keppninni lengur því að henni væri í raun stjórnað af þjóðum Austur-Evrópu. "Það er ljóst að Austur-Evrópa er í tísku núna. Mörg lög þaðan komast í gegn án þess að eiga það skilið," sagði Selma Björnsdóttir í viðtali við Morgunblaðið þann 19. maí og í öðru viðtali við Jón Jósep Snæbjörnsson sagði Jónsi eitthvað á þá leið að réttast væri að kalla keppnina "Balkanvisjón" eða "Júgóvisjón".

Eflaust hafa margir tekið undir þessar fullyrðingar fullir af heilagri Evróvisjón-reiði og svona fullyrðingar hljóma mjög vel þegar mann svíður hvað mest undan tapsárindunum.

En stenst þetta nánari skoðun?

Mér reiknast það til að 37 Evrópuþjóðir hafi tekið þátt í keppninni í ár; 16 Austur-Evrópuþjóðir, 19 Vestur-Evrópuþjóðir (þar með talin smáríkin Andorra og Mónakó) og svo Ísrael og Tyrkland, sem ég kann satt að segja ekki að flokka í þessu sambandi.

23 þjóðir kepptu í undankeppninni; 12 Austur-Evrópuþjóðir og af þeim komust sex áfram, og 11 Vestur-Evrópuþjóðir (Tyrkland þar með talið) en af þeim komust fjórar áfram.

Varla dettur nokkrum manni í hug að segja að hlutfallið þar hafi verið sérstaklega óeðlilegt.

Í úrslitakeppninni kepptu svo aðrar 24 þjóðir: 10 Austur-Evrópuþjóðir og 14 Vestur-Evrópuþjóðir og í tíu efstu sætunum lentu svo að lokum sex Austur-Evrópuþjóðir og fjórar Vestur-Evrópuþjóðir.

Nú er ég enginn líkindafræðingur en þegar þetta hlutfall er skoðað er varla hægt að halda því fram af mikilli hörku að það sé skítalykt af þessu öllu saman - sérstaklega ekki þegar haft er í huga að Vestur-Evrópuþjóðin Finnland fór með sigur af hólmi - og með nokkrum yfirburðum meira að segja.

En fyrir þá sem hafa gaman af samsæriskenningum þá er rétt að benda á það að eitt landsvæði í Evrópu sker sig úr og á þetta benti Stefán Pálsson á síðu sinni daginn fyrir aðalkeppnina:

"Fjögur af Norðurlöndunum fimm verða með í úrslitakeppninni annað kvöld. Það er 80%. Þetta er augljóslega galið hlutfall og ætti að kalla á umræður um það hvort ekki sé einhver meinsemd í keppnisfyrirkomulaginu sem hygli lögum frá Skandinavíu sérstaklega.

En nei - vegna þess að eitt Norðurlandanna fimm féll úr keppni, þannig að þau ná ekki 100% þátttökuhlutfalli í úrslitum, þá er þetta orðin Söngvakeppni Austur-Evrópu..."


Hver á söguna

Síðasta kvöldmáltíðin
Réttarhöldin yfir Dan Brown höfundi Da Vinci-lykilsins, hófust í London í vikunni með tilheyrandi fréttaumfjöllun. Er Brown sakaður af þremur höfundum bókarinnar Holy Blood, Holy Grail um ritstuld og verði Brown fundinn sekur er málið talið geta haft áhrif á Hollywood-kvikmyndina sem nú er verið að gera eftir Da Vinci-lyklinum.

Nú hef ég ekki lesið Holy Blood, Holy Grail en eftir því sem ég best fæ séð er um sagnfræðirit að ræða sem setur fram þá tilgátu að Jesús hafi gifst Maríu Magðalenu, eignast börn og afkomendur þeirra séu enn á meðal vor í dag. Þeir sem hafa lesið Da Vinci-lykilinn vita að þessi kenning er meira eða minna inntak bókarinnar og nú finnst þessum blessuðu sagnfræðingum að þeir hafi verið hlunnfarnir þrátt fyrir að Dan Brown hafi í upphafi bókarinnar tilgreint Holy Blood, Holy Grail sem eina af þeim heimildum sem hann notast við.

Nú er ég ekki sagnfræðingur en tel mig þó vita að þegar best lætur, fjalli sagnfræðin og þ.a.l. sagnfræðingar um söguna með tilliti til staðreynda. Höfundar Holy Blood, Holy Grail hafa þ.a.l. varpað fram tilgátu um fjölskyldulíf Jesú frá Nasaret og svo stutt þá tilgátu með annaðhvort eldri heimildum eða öðrum staðreyndum sem þeim hefur þótt áreiðanlegar. Með öðrum orðum; Það er trú þriggja höfunda Holy Blood, Holy Grail að bókin greini ekki aðeins frá atburðum sem gætu að hafa átt sér stað, heldur atburðum sem ábyggilega áttu sér stað fyrir rúmum tveimur öldum - svo vitnað sé í texta bókarkápunnar. Og nú spyr ég í einfeldni minni: Hvernig getur nokkur maður sakað annan um ritstuld á því sem hann telur vera sagnfræðilega staðreynd?

Segjum svo að sagnfræðingur hér á landi, varpaði fram þeirri tilgátu og styddi hana með staðreyndum að eiginkona Jónasar Hallgrímssonar hefði í raun hrint honum niður tröppurnar í Kaupmannahöfn. Væri mér þá óheimilt að nota þessar sagnfræðilegu uppgötvanir í sögulegri skáldsögu nema með leyfi sagnfræðingsins og ef svo væri, væri þá ekki líka búið að segja að sagnfræðingar hafi einir rétt á þeim sannleika sem þeir grafa upp úr rykföllnum kistum sögunnar. Nú er ég ekki heldur lögfræðingur en ég get ekki séð að slík höfundarréttarlög væru skynsamleg, en það sem meira er, með slíkum lögum væri mögulega búið að kippa fótunum undan þeirri bókmenntastefnu sem kennd er við póstmódernisma.

Ég hef ekki tekið eftir því að þessi réttarhöld sem nú fara fram í London hafi valdið miklum skjálfta á meðal rithöfunda. Ef til vill er ástæðan sú að svipuð mál sem tekin hafa verið fyrir í Bandaríkjunum, hafa öll endað skáldsagnahöfundunum í vil. Breska réttarkerfið hefur að vísu oft tekið á málum með öðrum hætti en annars staðar og því er það í raun ekki fjarstæðukennt að höfundar Holy Blood, Holy Grail fari með sigur af hólmi í London.

En sagnfræðingar hafa að mínu mati verið grunsamlega hljóðlátir, því trúverðugleiki stéttarinnar hlýtur einnig að blandast í málið. Ef sannleikurinn um sögulega atburði er allt í einu orðinn að einkaeign hvers sagnfræðings, er mögulegt að þeir fari að meta sérhagsmuni sína ofar skyldum fræðasamfélagsins. Og þá er ekki langt að bíða þar til að sagnfræðinni allri verði vísað á bug.

Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. mars 


Síðasta kvöldmáltíðin

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband