Færsluflokkur: Menning og listir

Órökréttar auglýsingar

c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_ampop.jpg

Um þessar mundir heyrist í útvarpi auglýsing þar sem nýjasta plata Ampop er auglýst og þessi auglýsing fer óskaplega í taugarnar á mér. Þar kemur meðal annars fram að nýja platan sé "rökrétt framhald" af síðustu plötu sveitarinnar. Og nú spyr ég:

Getur tónlist (eða önnur list) nokkurn tímann verið rökrétt?

Segjum svo að manni finnist eins og að einhver plata sé "rökrétt framhald" af fyrri plötu, er sú tilfinning þá ekki um leið byggð á huglægu mati sem hefur, þegar á botninn er hvolft, óskaplega lítið með rök að gera?

"Eðlilegt framhald" fyndist mér skárra.

Hins vegar les ég þau skilaboð út úr þessari auglýsingu að nýja platan sé í raun alveg eins og sú fyrri.

Er þá ekki bara einfaldara að segja það?

Ég gæti haldið áfram á þessum nótum í allan dag þegar það kemur að íslenskum auglýsingum í útvarpi - kvikmyndauglýsingar í sjónvarpi eru svo sér kapítuli út af fyrir sig. Sjaldnast er heildstæða hugsun að finna í því sem menn rjúka með inn í hljóðver. Textinn er yfirleitt illa settur saman, oft á tíðum "órökréttur" eins og ofangreint dæmi sannar og svo held ég að það myndi ekki skemma fyrir ef útvörpin réðu einhvern til að lesa þessar auglýsingar yfir.

Einhvern sem þekkir til dæmis grundvallaratriði íslenskrar mál- og setningarfræði.

Þetta er engum til góðs eins og ástandið er, hvorki útvarpsstöðinni, auglýsendum, auglýsingastofum né hlustendum.


Enn af Tom Waits

c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_tom_waits.jpg

Í Morgunblaðinu í dag er að finna listapistil eftir mig um nýju Waits plötuna, eða réttara sagt plöturnar því að hér er um þrjár fullgildar plötur að ræða. Ég fer ekki ofan af því að þetta er djöfulli góður pakki og eins og mér fannst Waits vera að mála sig út í horn á Real Gone er hann aftur kominn betri en nokkru sinni fyrr.

Eins og kom fram í pistlinum er á fyrstu plötunni að finna lagið "Road To Peace" sem verður að teljast það allra pólitískasta sem Waits hefur látið frá sér. Í laginu vitnar hann meðal annars í fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna og friðarverðlaunahafa Nóbels, Henry Kissinger, sem sagði eitt sinn: America has no friends, it has only interest. Þessi orð öðlast svolítið framhaldslíf eins og ástandið er í dag.

N.b. Lagið er að finna í spilaranum mínum hér til vinstri.

Það sem mér finnst skemmtilegast við þessa plötu er að með henn virðist Waits horfast í augu við upphafs ár sín sem hann hefur hingað til reynt að forðast eins og heitan eldinn, bæði í efnistökum og litavali. Ég finn alla vega fyrir svolítið fyrir því á Bawlers hlutanum sem er bæði lágstemmdur og leikrænn.

Kvikmyndaleikstjórinn Jim Jarmusch sagði eitt sinn að Tom Waits væri fyrst og fremst ljóðskáld en síðan tónlistarmaður. Það er nokkuð til í því. Waits er einn þeirra tónlistarmanna sem er óhræddur við að láta orðin sveigja laglínuna og hann á margar ljóðlínur sem eru alveg hreint magnaðar, eins og þessi í "The Fall of Troy": It´s the same with men as with horses and dogs / Nothing wants to die.

Myndi sóma sér vel í Hávamálum ... hinum dekkri!


Tribjút er ekki heimskum hent

c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_megas.jpg

Las nokkuð skemmtilega grein í Sunday Times í gær þar sem verið er að ræða svokallaðar tribjút-plötur og hvers vegna það er alltaf sett í hendur ungra tónlistarmanna að sýna eldri tónlistarmanni virðingarvott.

Að vísu meikar það sens, markaðslega séð, að stilla þessu svona upp því að hinn eldri tónlstarmaður kemst til eyrna ungra neytenda sem alla jafna myndu ekki hlusta á lög hans og svo er með þessu verið að kynna nýja tónlistarmenn til sögunnar sem alla jafna næðu ekki til jafn breiðs hóps neytenda, nema í gegnum safnplötur á borð við tribjút-plötur.

Hins vegar vill það brenna við að tribjúte-plötur skjóta alllangt framhjá, eins og til dæmis sannast með nýjustu Megasarplötunni, Pældu í því sem pælandi er í þar sem bróðurpartur plötunnar er slæmur en einna bestur þegar KK og Rúni Júl taka sig til.

Það kann nefnilega að skipta máli að sá sem tribjútar viti um hvað hann er að syngja og hvað hann er að flytja. Melódían ein er ekki nóg og varla telst það merkilegt að skipta um takt eða tóntegund. Túlkunin er þegar á botninn er hvolft, mikilvægust og þá skiptir þekking á innihaldinu mestu máli. Og á þá þekkingu skortir helst hjá ungum tónlistarmönnum

Eða hvað?


Áhlaupið íhugað

c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_paul_simon.jpg

Bíllinn minn virðist vera pikkfastur í ruðningi og nú er ég að velta því fyrir mér hvort ég eigi að ráðast á skaflinn. Er ekkert sérstaklega spenntur fyrir því að taka strætó upp í Hádegismóa en maður þyrfti nú samt að prófa það einu sinni.

Eddan fór fram í gærkvöldi. Nú finnst mér hún byrjuð að líkjast Óskarnum meira og meira að því leyti að það sem er pólitískt rétt trompar raunverulegt gæðamat. En þetta eru vísast óumflýjanleg örlög allra verðlaunahátíða.

Hvet alla til að hlusta á Gísla Galdur kl. 16.? í dag í Hlaupanótunni á Rás 1. Gísli er tónlistarmaður af lífi og sál og ágætis herbergisfélagi. Við áttum mörg áhugaverð samtölin í hótelherbergjum víðsvegar um Norður-Ameríku og hann kynnti mér fyrir fullt af skemmtilegri tónlist.

Held að mér hafi bara tekist að launa honum greiðann einu sinni þegar ég spilaði fyrir hann Paul Simon lagið "50 ways to leave your lover". Þá bjuggum við í Chelsea-hverfinu í New York sem er mikið hommahverfi. Við sátum tárvotir á gluggasyllunni og hlustuðum á lagið aftur og aftur.

 


Vinsældir og frægð Sykurmolanna

sykurmolarnir.jpg

Hef af ýmsum ástæðum látið síðuna sitja á hakanum.  Vinn m.a. að stórri STEF-fréttaskýringu sem birtist vonandi í næstu Lesbók. Ég ímynda mér að svona fréttaskýring verði ekki skrifuð aftur á næstu áratugum þannig að það er nauðsynlegt að hún verði vönduð.

Fer annars á Sykurmolana í kvöld. Þeir sem ég hef talað við furða sig á því að það skuli ekki vera löngu uppselt en það kemur mér svo sem ekkert á óvart. Sykurmolarnir hafa aldrei átt sér mjög stóran aðdáendahóp á Íslandi, ekki frekar en Ham. Málið er bara að í þessum sveitum eru háværir og skemmtilegir karakterar sem skekkja allar hugmyndir fólks um vinsældir og svo vill það bera við að aðdáendur jaðartónlistar láti meira í sér heyra en þeir sem halda upp á poppið.

Það er nefnilega munur á því að vera frægur og vinsæll eða eins og Ómar vinur minn sagði á dögunum: "K-Fed er frægur en hann er ekki vinsæll". Ég held að þetta eigi svolítið við um Sykurmolana líka án þess þó að ég sé að líkja K-Fed við Björk. Í Mogganum í dag var svo sagt frá því að útlendir gestir á tónleikana væru um 1.000 sem þýðir að án þeirra hefði Höllin orðið hálftóm í kvöld. Og þó er hér um einn merkilegasta tónlistarviðburð síðustu áratuga að ræða.

Rauðavatnið er ísilagt en á miðju vatninu má  sjá öldu, ofna í klakabönd. Það er eins og tíminn hafi stöðvast.


Morgunblaðið hneykslar

Fréttablaðið birti í síðasta mánuði (20. september 2006) frétt þar sem fullyrt var að tónlistarmenn væri ósáttir við Morgunblaðið vegna notkunar þess á erlendu lagi í sjónvarpsauglýsingu. Í fréttinni var haft eftir tónlistarmanninum og framkvæmdastjóra FTT, Magnúsi Kjartanssyni, að síðasta vígið væri fallið og þeir hjá Morgunblaðinu ættu að velta því fyrir sér hvort ekki væri réttast að skrifa blaðið bara á ensku. Var haft eftir Magnúsi að ályktunar væri að vænta frá FTT á næstunni og talaði Magnús um málið sem hið mesta hneyksli.

Undirritaður bjóst fastlega við því að einhvers konar umræða myndi skapast um málið, sérstaklega í ljósi þess að hér væri um "hið mesta hneyksli" að ræða, en nú, tæpum mánuði síðar, bólar hvorki á umræðunni né ályktun FTT.

Á undanförnum árum hefur það verið brýnt fyrir landsmönnum að "velja íslenskt" og styðja þar með við bakið á iðnaðinum í landinu. Nú dettur varla nokkrum manni í hug að hér sé um ósanngjörn hvatningaróp að ræða frá Samtökum iðnaðarins, enda þjóðlyndi okkur í blóð borið. Þar að auki segir almenn skynsemi okkur að ef iðnaðurinn í landinu legðist af væru flestar forsendur fyrir búsetu hér á landi brostnar.

Tónlist er eins og aðrar listgreinar iðnaður og það er oft talað um tónlistariðnað í því samhengi. Þetta veit Magnús Kjartansson og sem formaður FTT er það skylda hans að hvetja Íslendinga til að "velja íslenskt". Það sýnist mér alla vega að liggi að baki gagnrýni framkvæmdastjórans.

Hitt er svo annað mál að þrátt fyrir að tónlistariðnaðurinn lúti sömu markaðslögmálum og hver annar iðnaður í landinu, lýtur hann einnig lögmálum listarinnar, sem segja að hver einasta listsköpun sé einstök. Leikrit Göthes og Marlowes um Dr. Faustus eru bæði einstök og annað getur ekki komið í stað hins. Hið sama gildir um tónlistina, eitt lag getur ekki komið í stað annars og þá á ég ekki við flutning á tónverki.

Það að við Íslendingar svörum kalli Samtaka iðnaðarins um að kaupa frekar íslenskan ost en danskan er eðlilegt. En að við séum krafin um að hlusta frekar á íslenska tónlist en erlenda er fjarstæðukennt - enda efa ég að nokkur listamaður kysi að vera vinsælastur í þeim heimi þar sem aðrir listamenn eru bannaðir!

Íslensk fyrirtæki hafa ákveðnum skyldum að gegna gagnvart landi og þjóð, það segir sig sjálft. En að listamaður krefjist þess að á hann sé hlýtt, hann lesinn og svo framvegis, eingöngu vegna þess að hann er Íslendingur, er svo allt annað mál - sem vert er að ræða.


Skáldskapur eða ekki?

c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_roth.jpg

Rithöfundurinn Philip Roth hefur verið í fremstu röð bandarískra rithöfunda allt frá því að smásagnasafn hans Goodbye Columbus kom út árið 1959. Í ár eru 25 ár frá því að fyrsta bók hans í Zuckerman þríleiknum svokallaða kom út.

 

ÞAÐ var öllum ljóst þegar Goodbye Columbus kom út að þar færi fullþroska rithöfundur sem ætti eftir að láta að sér mikið kveða. Roth hlaut hin eftirsóttu National Book Award fyrir smásagnasafnið en samfélag gyðinga í Bandaríkjunum var ekki skemmt. Roth var fljótlega úthrópaður fyrir andgyðinglegan áróður í sögum sínum og skipti þá engu máli að Roth var og er, gyðingur sjálfur.

 

Zuckerman þríleikur Philps Roth hefst á nóvellunni The Ghost Writer sem kom út árið 1979. Umfjöllunarefnið er eins og í svo mörgum skáldsögum Roth, gyðingdómurinn en einnig fer mikið fyrir spurningunni hvað felist í því að vera rithöfundur og hver sú ábyrgð er sem rithöfundar verða að axla þegar það kemur að ritlistinni. Skáldsagan segir frá Nathan Zuckerman, ungum og upprennandi rithöfundi sem dvelst í sólarhring á heimili annars rithöfundar E.I. Lonoff, eiginkonu hans Hope og ungri stúlku sem hjónin hafa tekið að sér og reynist vera hin eina og sanna Anne Frank, eða það vill sögumaður alla vega sannfæra lesandann um. Samræður Lonoffs og Zuckermans eru dásamlega skrifaðar eins og Roth er von og vísa og þá sérstaklega þegar Lonoff og Zuckerman fikra sig á hálli braut kurteisishjalsins sem reynist mörgum erfið við fyrstu kynni. Þegar líður kvöldið og söguna sjálfa byrjar þó að örla á dýpri samræðu sem öðru fremur snýst um iðju rithöfundarins.

 

Stuttu eftir að skáldsagan kom út voru bókmenntafræðingar fljótir að eigna rithöfundinum Bernardi Malamud persónu E.I. Lonoffs og sjálfur viðurkenndi Roth í viðtölum að persóna Lonoffs væri einskonar bræðingur Malamuds og annars rithöfundar sem Roth dáði, Sauls Bellow. Hins vegar er margt í karakter Lonoffs sem ýtir stoðum undir þá kenningu að ef Lonoff er byggður á Malamud og Bellow þá sé heldur stóran hluta af Roth sjálfum að finna í þeim bræðingi.

 

Ágætt dæmi um það er þegar Lonoff útskýrir fyrir hinum unga Zuckerman hvað það raunverulega sé sem hann geri:

“I turn sentences around. That´s my life. I write a sentence and then I turn it around. Then I look at and I turn it around again. Then I have lunch. Then I come back in and write another sentence. Then I have tea and turn the new sentence around. Then I read the two sentences over and turn them both around. Then I lie down on my sofa and think. Then I get up and throw them out and start from the beginning.(18)

Sannleikurinn er að þessi skondnu en um leið vægðarlausu vinnubrögð, eru mjög lík þeim sem Roth hefur sjálfur viðurkennt að hann stundi og það sem meira er, Roth hefur sagt í viðtölum að fyrir hverja bók sem hann gefi út, skrifi hann iðulega aðra sem endi í ruslatunnunni. Þá segir ástkona Roths á þessum tíma, leikkonan Claire Bloom í ævisögu sinni, Leaving a Doll´s House að þrátt fyrir að Roth hafi ekki viðurkennt það opinberlega að Lonoff væri í raun hans annað sjálf, hefði það skinið í gegn þegar hún las söguna.

 

Sá hluti ævisögu Claire Bloom sem snýr að Roth er ákaflega upplýsandi um persónu rithöfundarins sem virðist eins og svo margir andans menn, hafa verið gjörsamlega óþolandi í einkalífinu og líkari ofdekruðum krakka en fullorðnum manni. En ævisagan gefur manni einnig áhugaverða innsýn í vinnubrögð Roths sem vaknaði ávallt mjög snemma til að skrifa og skrifaði svo fram að kvöldmat áður en hann lauk deginum með lestri skáldsagna. Þessi rútína var honum allt að því heilög og andlega heilsa hans var undir þessu vinnulagi komið, eins og Claire Bloom fékk að finna fyrir.

 

Önnur frásögn Bloom frá því þegar Roth vann að The Ghost Writer og varpar ljósi á vinnubrögð Roths, segir frá því þegar hann kom einn daginn óvenjulega snemma heim frá vinnustofu sinni og spyr Bloom hvort hún sé til í að lýsa því fyrir honum hvernig það sé að búa með rithöfundi upp í sveit. Bloom segir í bókinni að hún hafi ákveðið að halda hvergi aftur af skoðunum sínum enda orðin langþreytt á líferninu. Bloom ákveður að taka hann á orðinu og lætur allt flakka sem hingað til hafði farið í taugarnar á henni. Segir hún að þrátt fyrir að þau hafi bæði hlegið að loknu harmkveini hennar, hafi Roth greinilega tekið hvert einasta orð til sín, því í skáldsögunni birtist þau nánast orðrétt af munni Hope, eiginkonu E.I. Lonoff.

 

Eins og þetta dæmi sannar hafa skilin milli eiginlegrar persónu Philips Roth og söguhetja hans, nánast aldrei verið skýr og Roth hefur alla tíð alið á þessum sífelldu vangaveltum lesenda og gagnrýnenda. Annað lítið dæmi um þetta er að nokkrum árum eftir bókin kom út var gerð sjónvarpsmynd eftir The Ghost Writer og í hlutverk Hope var ráðin engin önnur en leikkonan og ástkona rithöfundarins, Claire Bloom. Þessi ráðahagur var eflaust undan rifjum Roths runninn, því annars hefði hann aldrei fallist á að Bloom tæki að sér hlutverk í myndinni. Þegar myndin var svo sýnd ýtti hún að sjálfsögðu undir grun lesenda Roths að það sem gerðist í sögum hans væri endursögn úr hans eigin lífi - sem er að vísu rétt, upp að vissu marki.

 

Hins vegar reyndust tilgátur manna um að persóna Hope hefði að öllum hluta verið skrifuð með Claire Bloom í huga vera rangar, því eins og Bloom segir í ævisögu sinni var persóna hennar byggð á skáldkonunni Janet Hobhouse sem Roth átti í ástarsambandi ári áður en hann kynnist Bloom. Það sem gerir þessa Hobhouse enn merkilegri í hugum aðdáenda Roths er að ári áður en Hobhouse lést árið 1991 hafði hún skrifað lykilskáldsöguna The Furies sem kom út að henni látinni. Þar kemur Philip Roth við sögu og samkvæmt Claire Bloom eru lýsingar Hobhouse á Roth afar beinskeyttar en fyrst og fremst sannleikanum samkvæmar.

(pistillinn birtist áður í Lesbók Morgunblaðsins)


Enn á vegum úti

Jack Kerouac
Á dögunum var sagt frá því að til stæði að gefa út “upprunalega og óbreytta” útgáfu skáldsögunnar On the Road eftir bandaríska rithöfundinn Jack Kerouac. Með upprunalegri og óbreyttri útgáfu er líklegast átt við þá útgáfu sögunnar sem Kerouac skrifaði í apríl 1951, þá 29 ára gamall. Verkið skrifaði hann í einum rykk á 20 dögum og notaði til þess 120 feta pappírsrúllu sem hann hafði útbúið með því að líma saman sex tuttugu feta renninga af japönskum pappír. Ástæðan kvað vera sú að honum leiddist það að þurfa sífellt að skipta um pappír í ritvélinni eftir hverja blaðsíðu og taldi það bæði hægja á verkinu og raska þeirri hrynjandi sem hann vildi ná fram í skrifunum.

 

Þó Kerouac sé yfirleitt eignuð þessi uppfinning vita færri að Trotskíistinn og súrrealistinn, Victor Serge hafði sama hátt á þegar hann skrifaði sínar bækur, nokkrum áratugum áður en Kerouac til varnar, eru afar litlar líkur á að hann hafi vitað af vinnuaðferðum kollega síns hinum megin við Atlantshafið. 

 

Nú hefur þessi upprunalega útgáfa Kerouac af On the Road ekki komið fyrir margra sjónir. Ef mig minnir rétt var það sterkefnaður Texasbúi sem keypt handritið á uppboði en síðan hefur það verið á einskonar handritaferðalagi þar sem það flakkar á milli bókasafna og háskóla í Bandaríkjunum, efalaust í vel fægðu glerbúri og með nýtísku rakamæli. Í sjálfu sér er það furðulegt að það hafi ekki fyrr verið gefið út en á hinn bóginn er það mat þeirra sem lesið hafa upprunalega handritið að sú útgáfa sem nú er í umferð sé langtum betri en sú benzedrin-drifna orðahríð sem Kerouac spýtti út úr sér vorið 1951.

 

Í gegnum tíðina hafa bókmenntafræðingar og aðrir áhugamenn vísað til On the Road sem dæmigerðrar skáldsögu þar sem svokallað stream of consciousness sé að finna, þ.e.a.s. skáldverks þar sem ótruflað flæði hugsana er fest á blað án nokkurra yfirvegaðra breytinga, á meðan og eftir að verkið hefur verið samið. Að einhverju leyti er það rétt að þegar Kerouac settist niður til að skrifa On the Road, hafi hann ákveðið að láta sig smáatriði eins og stafsetningu og fastheldna, rökræna frásagnaraðferð litlu varða. En að halda því fram að verkið hafi hann fullskapað með jafn skyndilegum hætti og Seifur fæddi börn, er skemmtileg saga svo ekki sé dýpra í árinni tekið.  Sannleikurinn er sá að Kerouac hafði gengið með söguna í maganum í allnokkurn tíma þegar hann ákvað loksins að ráðast í gerð hennar og raunverulegt flakk hans um Bandaríkin þver og endilöng var alltaf skipulagt með það í huga að við ferðalok hefði hann efni í bók. Eini vandinn var að Kerouac hafði ekki hugmynd um hvaða frásagnarstíl hann átti að velja sögunni. Í örvæntingu sinni lagðist hann í lestur á evrópskum bókmenntum sem hefur örugglega verið þrautin þyngri vegna þess hve lengi hann var að lesa og í framhaldi prófaði hann mismunandi stíla, án árangurs.

 

Það var svo ekki fyrr en að Keroauc barst bréf frá Neil Cassady, fyrirmynd Dean Moriarty í On the Road (nafnið væntanlega fengið að láni frá Arthur Conan Doyle) að hann dettur niður á frásagnarstíl sem hann treystir sér til að nota. Í bréfinu á Cassady að hafa reifað ævi sína í 23 þúsund orðum á svipaðan hátt og vinur segir öðrum sögu, án allra flúryrða eða hefðbundinna stílreglna og þar sem engu er haldið aftur í lýsingum á svæsnum kynlífsfrásögnum eða hlutum sem alla jafna kæmu niður á sögumanni. Kerouac lýsti þessu bréfi sem snilldarverki sem tæki framar frásagnargáfu Celine, Wolfe og stæðist fullkominn samanburð við Dostojevskí. Umrætt bréf er nú orðið goðsagnakennt í hugum margra Kerouac-aðdáenda því að það er tapað með öllu (fauk víst á haf út), en ráðlegt er að taka orð Kerouacs með töluverðum fyrirvara. Hitt er annað mál að ástæðulaust er að rengja þau orð Kerouacs að með þessu bréfi uppgötvað hann þann stíl sem notaður er í On the Road og hefur umfram allt annað, gert bókina að einni vinsælustu “cult”-bók allra tíma.  

 

Manni dettur í hug að þegar fyrrnefndar fréttir heyrðust af fyrirhugaðri útgáfu á On the Road, hafi margir hugsað með sér sem svo að loksins fengi það verk að koma út sem Kerouac hafði ætlað til útgáfu. Hvort sem það er satt eða ekki, átti Kerouac ekki í miklum erfiðleikum með að endurskrifa skáldsöguna að áeggjan vina og með hjálp ritstjóra, þó að kröfur þeirra um fleiri punkta- og kommusetningar hafi stundum farið í taugarnar á honum. Til að mynda var ein frægasta setning bókarinnar: “The only people for me are the mad ones, the ones who are mad to live, mad to talk ... “ ekki skrifuð inn í söguna fyrr en mörgum mánuðum eftir að hann lauk við handritið sem nú á að koma út.

 

Jack Kerouac er einn þeirra rithöfunda sem hver einasta kynslóð þarf að uppgötva að sjálfsdáðum og gera að sinni í svo og svo langan tíma. Enn í dag ferðast ungt fólk um heiminn innspírerað eftir lestur á On the Road og þrátt fyrir að Kerouac hafi ekki fundið upp “vegasöguna” er On the Road orðinn samnefnari fyrir slíkar tegundir bókmennta. Eins og F Scott Fitzgerald, sem var rödd hinnar svokölluðu “Lost Generation” í Bandaríkjunum, var Kerouac rödd hinnar svokölluðu “Beat Generation” en kynslóðirnar eiga það sameiginlegt að rísa upp úr rústum heimsstyrjaldar og neyðast til að enduruppgötva tilgang lífsbaráttunnar í frekar vonlausum  heimi. Það er því ef til vill ekki tilviljun að vegferð þeirra beggja einskorðist að mestu við eina bók – og að í þeim báðum spili djassinn stóra rullu.


Djöfuls klípa

Ég ferðaðist til Ísrael fyrir um átta árum, ( frekar en níu ) og hef búið að þeirri reynslu síðan. Við fórum tveir, ég og Kári vinur minn og ég minnist þess að við höfðum enga hugmynd um hvert við værum að fara. Gott ef Ísrael varð ekki fyrir valinu því að veðurspáin þar var sú besta þegar við gáðum að.

Alla vega. Síðan þá hef ég ekki litið deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafsins sömu augum.

En nú held ég að ég hafi aldrei átt í meiri vandræðum með að velja hinn réttláta frá hinum rangláta í þessu proxy-stríði í Líbanon

Það er vonandi enginn í vafa um að mannrán Hizbollah (eða hvernig er það aftur skrifað) hafi verið ögrun (líklega að áeggjan Írana og Sýrlendinga) og að viðbrögð Ísraela hafi verið réttlætanleg.

En nú þegar maður heyrir af drápum á friðargæsluliðum SÞ renna á mann tvær grímur. Það að saklausir borgarar verði fyrir sprengjum Ísraela er hræðilegt en þetta er nú það sem Hizbollah treystir á. Þeir stilla sínum skotpöllum upp í miðju íbúðahverfi og kenna síðan Ísraelum um þegar saklaust fólk verður fyrir gagnárás. En ef Mossad þekkir ekki munin á hryðjuverkamönnum og friðargæsluliðum þá er eitthvað ekki í lagi.

Það hefur aftur og aftur sannað sig að þegar háttsettir menn í Hizbollah eða Hamas verða hræddir um sitt eigið líf, þá semja þeir um vopnahlé. Þeim er ekki hugað um líf saklausra borgara, ekki frekar en sjálfsmorðssprengjumenn (þvílíkt orð) og mann grunar að þegar herfylkingar Ísraela nálgast höfuðstöðvar Hizbolla muni Íranir eða aðrir skerast í leikinn. Sjáum til.

Þetta er ljót og ósanngjörn deila sem enginn endir virðist vera á en manni finnst eins og að þeir sem geti haft áhrif á hana og jafnvel leyst hana séu ekki að reyna í raun. Clinton reyndi og hann reyndi oftar en flestir gera sér grein fyrir en hann var líka svolítið bláeygður þegar það kom að Arafat.

Hvað Bush varðar, verð ég að játa að ég hef aldrei náð honum fullkomlega. Ég hef enga trú á því að hálfviti komist til valda í lýðræðisríki en hingað til hefur honum ekki tekist það vel til að sannfæra mig um hið gagnstæða.

Ekki frekar en Blair.


Nafn rósarinnar

Þýðing Thors Vilhjálmssonar á Nafni rósarinnar eftir Umberto Eco var endurútgefin á dögunum. Endurútgáfunni fagna margir því þýðingin var svo gott sem ófáanleg í bókabúðum landsins og sömu sögu var að segja um bókasöfnin þar sem um bókina var setið. Þeir sem hafa lesið íslensku þýðinguna á Nafni rósarinnar vita hvers lags stórvirki Thor Vilhjálmsson vann með henni og á þessum síðustu og verstu tímum þegar erlendum bókum er meira eða minna snarað upp á íslensku verður þýðing á borð við Nafn rósarinnar að fágætum dýrgrip sem aftur og aftur má draga fram úr hillu og dást að. En nóg um það, mig langaði að tala um bókina sjálfa og þá sér í lagi nafn bókarinnar sem er eins og skáldsagan ekki öll þar sem hún er séð.

Af hverju Umberto Eco ákvað að skíra skáldsöguna Nafn rósarinnar hefur verið vinsælt umræðu- og rannsóknarefni frá því að bókin kom út árið 1980. Í sögunni sjálfri er ekki minnst á rós í þeim skilningi að hún getur útskýrt nafn bókarinnar, nema á síðustu blaðsíðunni þegar sögumaðurinn Adso frá Melk segir í hexametrískum hætti: Stat rosa pristina nomine, nomina tuda tenemus. Sem útleggst svo á íslensku: Af rósinni forðum stendur nafnið eitt, vér höldum aðeins í nakin nöfn. Hvað Adso á við með þessu er ekki auðséð enda er skáldverkið svo gegnsýrt af vísunum hingað og þangað í fornar aldir og rykfallnar arkir að ómögulegt er að vita nokkuð með vissu án þess að spyrja Eco beint út. En það hefur svo sem oft verið gert þó færra hafi verið um svör.

Í fyrsta lagi má rekja þessar línur (og þetta hefur Eco staðfest) til kvæðisins De contemptu mundi sem er eignað munknum Bernardi frá Morlay sem var uppi á þrettándu öld. Kvæðið byggir á vinsælu miðaldastefi sem hefst á latnesku orðunum Ubi sunt (ísl. hvar eru). Í því kvæði og öðrum svipuðum er sunginn óður til þess sem áður var en er ekki lengur og í kvæði Bernard segir að í reynd skilji hlutirnir ekkert eftir sig, “nema nafnið eitt”. Í stuttu máli má rekja þessar ljóðlínur eða hugmyndaheiminn að baki þeim til frumspeki Aristótelesar þar sem tilraun er gerð til að útskýra eðlið og muninn á því einstaka og altæka.

 Þessi speki Aristótelesar var dregin í efa á 12. öld af heimspekingnum Peter Abelard en Abelard þessi kemur við sögu Nafn rósarinnar eftir svolitlum krókaleiðum því yfirlýstur skoðanabróðir Abelards, Vilhjálmur af Ockham (sá hinn sami og rakhnífur Ockhams er kenndur við) er sagður í skáldsögunni hafa verið lærifaðir Vilhjálms af Baskerville, söguhetju bókarinnar. Svolítið flókið en við hæfi þegar um Nafn rósarinnar er að ræða.Abelard hélt því fram, þvert á hugmyndir Aristotelesar, að ekkert væri altækt í veröldinni nema í mannlegri hugsun og máli og að nöfn (takið eftir) hafi merkingu í hugsuninni þótt hlutinn sjálfan skorti. Þessa kenningu sannaði hann með því að ella væri setningin “engin rós er til” merkingarlaus.

Ockham tók upp þráðinn þar sem Abelard skildi við hann og síðar átti Ockham eftir að hafa mikil áhrif á skólaspeki miðalda og þá sér í lagi með tilliti til guðfræðinnar en um guðfræði og fátækt krists er töluvert rætt í Nafni rósarinnar. Þó sumum kunni að finna það langsótt má hugsa sér að í þessum kenningum megi finna þann hugmyndafræðilega og heimspekilega bakgrunn sem að nafni bókarinnar er, enda Eco fróðari en flestir um miðaldafræði Evrópu.

Önnur útskýring sem gengur nær eiginlegum söguþræði bókarinnar er sú að þegar Adso lætur þessi orð falla í niðurlagi bókarinnar, þá sé hann að vísa til stúlkunnar sem hann verður ástfanginn af í klaustrinu og er að lokum pyntuð og brennd fyrir galdra án þess að Adso lærði nokkurn tímann nafn hennar. Þessu til stuðnings segir vinsæl þjóðsaga á miðöldum frá því að fyrir kraftaverk hafi fyrstu rósirnar sprottið í Betlehem eftir að hrein og fögur mey var brennd á báli fyrir rangar sakir Þá má einnig geta þess að María mey var kölluð hin helga rós í kristni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband