20.11.2006 | 12:30
Áhlaupið íhugað
Bíllinn minn virðist vera pikkfastur í ruðningi og nú er ég að velta því fyrir mér hvort ég eigi að ráðast á skaflinn. Er ekkert sérstaklega spenntur fyrir því að taka strætó upp í Hádegismóa en maður þyrfti nú samt að prófa það einu sinni.
Eddan fór fram í gærkvöldi. Nú finnst mér hún byrjuð að líkjast Óskarnum meira og meira að því leyti að það sem er pólitískt rétt trompar raunverulegt gæðamat. En þetta eru vísast óumflýjanleg örlög allra verðlaunahátíða.
Hvet alla til að hlusta á Gísla Galdur kl. 16.? í dag í Hlaupanótunni á Rás 1. Gísli er tónlistarmaður af lífi og sál og ágætis herbergisfélagi. Við áttum mörg áhugaverð samtölin í hótelherbergjum víðsvegar um Norður-Ameríku og hann kynnti mér fyrir fullt af skemmtilegri tónlist.
Held að mér hafi bara tekist að launa honum greiðann einu sinni þegar ég spilaði fyrir hann Paul Simon lagið "50 ways to leave your lover". Þá bjuggum við í Chelsea-hverfinu í New York sem er mikið hommahverfi. Við sátum tárvotir á gluggasyllunni og hlustuðum á lagið aftur og aftur.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.