Færsluflokkur: Menning og listir

Það er ekkert í heiminum verra ...

... en húmorsleysi og því miður hefur mér alltaf fundist spaugstofan heldur húmorslítil ...

en þessum hér og svo þessum tekst með einhverjum ótrúlegum hætti að slá þættinum við hvað þetta varðar.

Það er ástæða til að óska þeim til hamingju með það.

 

 

 


Nasískar hænur

Enn af 300 umræðunni.

Bloggvinur vor, Krummi nokkur, er skipaður allmörgum pistlahöfundum og hef ég yfirleitt bæði gagn og gaman af því sem þar er skrifað. En einn þeirra gerir sig því miður sekan um að ætla hænunni það sem eggið tekur upp á.

Í færslu segir pistlahöfundur að honum hafi fundist 300 vera full af nasískum minnum, ef þannig má að orði komast. Þar segir hann m.a.:

"Sá myndina 300 í gær. Var svolítið sjokk. Ég hef mikinn áhuga á Forn-Grikkjum en myndin hafði ekkert með þá að gera nema nöfnin, grísk nöfn og persnesk. Aftur á móti var hetjumyndin sem dregin var upp nasísk. Hvítir harðnaglar sem sýndu enga miskunn, aldir upp einsog sólskinsbörn Hitlers."

Þetta skýtur svolítið skökku við hjá manni sem segist hafa mikinn áhuga á Forn-Grikkjum. Spartverjar voru sannarlega öfgafullir þegar það kom að hreysti, hetjudýrkun og fordæmingu á hinum veika eða huglausa, en að segja að þar með hafi þeir verið nasískir er eins og að halda því fram að véfréttin í Grikklandi til forna hafi tekið demókrataflokkinn í Bandaríkjunum sér til fyrirmyndar.

Aðeins ofar á Krummasíðunni skrifar sami höfundur annan pistil þar sem jafnvel skringilegri hugrenningum bregður fyrir:

"Forsíðan á mogganum í dag var "Of feitar konur líklegri til að vera án atvinnu". Hvaða frétt er þetta? Forsíðufrétt? Má búast við því að það verði forsíðufrétt hjá mogganum á næstu dögum að "Fólk með anorexíu líður oftar illa en heilbrigðu fólki"."

Virðist pistlahöfundur halda því fram að mismunun gegn holdmiklum konum sé jafn sjálfsagður hlutur og sólarupprásin. Mig rak í rogastans. Ekki hafði ég hugmynd um það að atvinnurekendur eða starfsmannastjórar á Íslandi létu holdarfar ráða því hver fengi vinnu og hver ekki.

En það sem ég skil heldur ekki í ofangreindir bloggfærslu er þetta: Ef það er á einhvern hátt orðið að normi að holdmiklar konur eigi erfiðara með að fá vinnu, er það þá ekki tímabært að fjölmiðill - hver sem hann nú er - vekji almenning upp af þeim firrta veruleika?


Meðvituð fávísi

Fékk allsérstaka hringingu niður á Mogga í fyrradag. Í símanum var ungur maður - hann sagði hvorki til nafns né aldurs - sem var afar óánægður með Morgunblaðið fyrir að ljóstra upp um endalok kvikmyndarinnar 300 í fyrirsögn sem hljóðaði svo: "Helköttaðar hetjur deyja".

Eftir að hafa gengið úr skugga um að þarna væri ekki um símaat að ræða, benti ég þessum unga manni á þá staðreynd að orustan á milli Spartverja og Persa hafi í raun átt sér stað og úrslit hennar væru öllum ... eða flestum kunn. Það hafði engin áhrif, honum fannst þetta ömurlegt af okkur og sá heldur enga samsvörun við Titanic eða The Passion of the Christ.

Gott og vel, sagði ég að lokum, þakkaði honum fyrir að hringja og sagðist ætla að taka kvörtun hans til íhugunar.

Sem ég og svo gerði þá um kvöldið þegar ég fór í bíó. Af fjórum myndbrotum sem sýnd voru á undan aðalsýningu gat ég viss um hvernig þrjár þeirra myndu enda og þegar ég fór svo að rifja upp aðrar myndir sem ég hafði leigt á undanförnum vikum, lá það oftast ljóst fyrir á sjálfu umslaginu hvernig tiltekin mynd myndi enda.

Sama átti við um bækur þegar ég hugsaði út í það, svo ekki sé talað um allar stóru heimsbókmenntirnar sem öllum er ljóst hvernig enda. Sem fékk mig svo til að álykta (e.t.v. svolítið seint) að þráin eftir hinu óvænta er, þegar á botninn er hvolft, skilyrt af meðvitaðri fávísi.

Jæja, ... ætli ég láti ykkur ekki fá þetta ókeypis.


Nýir bloggvinir

Vek athygli á nýjum bloggvinum hér til hliðar.

Annars vegar hinum vandaða útvarpsmanni Ágústi Bogasyni og svo menningarvitunum í Krumma.

Hef verið heldur latur við að blogga undanfarið en það hefur líka verið nóg að gera við að endurlífga aftari hluta Moggans. Er afskaplega ánægður með fyrstu blöðin og nú reynir á að halda dampi.

Gaman væri að fá viðbrögð frá þeim ykkar sem hafa séð nýja blaðhlutann.

 

 

 



Tom Kristur eða falskristur

Ef einhver segir þá við yður: "Hér er Kristur" eða "þar," þá trúið því ekki. Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra stór tákn og undur til að leiða afvega jafnvel hina útvöldu, [...]."

Þessi orð eru höfð eftir Jesú frá Nasaret í Matteusarguðspjalli (Matt. 24, 23) þegar lærisveinarnir spyrja meistara sinn út í endurkomu Krists.

Þessi orð – og önnur sem finna má í Biblíunni um endurkomu Krists – öðluðust að einhverju leyti nýtt líf í vikunni þegar þær fréttir bárust frá Bandaríkjunum að kvikmyndaleikarinn Tom Cruise væri "tomcruisehinn útvaldi" spámaður Vísindakirkjunnar sem breiða myndi út fagnaðarerindið.

(N.b. kenningar Vísindakirkjunnar eiga ekkert sameiginlegt með kristinni trú - svo ekki sé talað um almenna skynsemi).

Í fréttinni var haft eftir David Miscavige, hæstráðanda kirkjunnar að í framtíðinni yrði Cruise tilbeðinn líkt og Jesús um víða veröld og að hann myndi taka að sér hlutverk spámanns kirkjunnar.

Stórkostlegt," hugsaði ég með mér þegar ég las fréttina á þriðjudag. "Nú er kvikmyndaferill þessa ofmetna leikara loksins farinn í vaskinn, og ekki seinna vænna!"En svo leitaði önnur hugsun á mig; "Af hverju er það ekki stórfrétt þegar einn frægasti kvikmyndaleikari heims er sagður vera hinn útvaldi." Cruise er í söfnuði sem í eru mörg hundruð þúsund manns um allan heim? Hvað voru fylgjendur Jesú frá Nasaret annars margir þegar hann hóf að predika í eyðimörkinni fyrir 2000 árum? 12? 20? Varla fleiri en það!

Í því ljósi mætti halda því fram að Cruise væri með nokkuð gott "start" til Krists-embættisins, eins og sagt er á íþróttamáli. Og á þeim sömu nótum mætti spyrja sig, á hvorn yrði veðjað í dag, óþekktan trésmið frá Galíleu eða kvikmyndastjörnu sem milljarðar þekkja jafn vel og sumir systkini sín?

Ef litið er yfir sögu "hinna útvöldu" (eða "hinna smurðu" svo notuð séu viðeigandi hugtök) innan gyðingdómsins, þá má í orðsins fyllstu merkingu segja að hún hafi verið skrifuð af sigurvegurunum. Eða hver þekkir til spámannsins Júdasar sem var sonur Hezekia (ekki Ískaríots), Símons frá Perea, Anþrongus smala og Júdasar frá Galíleu en þeir voru af fylgjendum sínum allir taldir Kristur, á undan Jesú. Þessa menn þekkir enginn í dag.Shabbatai1

Og ekki heldur þá spámenn sem áttu sér allnokkra fylgjendur eftir daga Jesú. Þeudas kallaðist einn, annar gekk einfaldlega undir nafninu "Egyptinn" og svo komu þeir hver af öðrum, Manaheim, Jóhannes frá Gischala, Simon og Jónatan vefari. Síðastur hinna "minni" spámanna var Shabbetai Zevi frá Smyrnu (sjá mynd) en talið er að hann hafi átt sér meira en hundrað þúsund fylgjendur þegar best lét. Shabbetai var uppi fyrir um þrjú hundruð árum. Ættum við ekki að hafa heyrt um hann? Komum við til með að muna eftir Tom Cruise eftir þrjú hundruð ár?

Taki Tom Cruise við nýja djobbinu er eitt morgunljóst; þeir Jóhannes, Lúkas, Matteus og Markús, eiga lítið í þá guðspjallamenn sem finna má í draumasmiðju Hollywood. Í 27. versi í sama kafla Matteusarguðspjalls og vitnað er í að ofan, segir: "Eins og elding sem leiftrar frá austri til vesturs, svo mun verða koma Mannssonarins."

Ég veit ekki með ykkur hin en þetta minnir mig svolítið á atriði úr Top Gun?


Tónleikar ársins

Tónleikar ársins (samt ekki) fara fram í kvöld (laugard.) á Café Amsterdam.

Þú last rétt! Café Amsterdam! Því Gaukurinn er dauður, Grandið er sokkið og Þjóðleikhúskjallarinn er gröf þeirra allra!

Ske, Shadow Parade og Pétur Ben, á verði King Size Kent. Tónleikarnir hefjast upp úr 23.30 og ætlast er til að fólk mæti í sínu fínasta pússi!

Ske mun ekki spila aftur í rúman mánuð og því síðasti sjens að sjá bandið live í ... rúman mánuð!

Sjáumst!


Nýtt lag gefins

Beini öllum villuráfandi bloggám á spilarann hér til vinstri eða á hljóðskránna hér að neðan sem hægt er að hala niður. Þar er  að finna nýtt lag með hljómsveitinni Ske sem er titillag leikritsins Svartur köttur sem verður frumsýnt hjá LA þann 20. janúar.

Hef enga tilfinningu fyrir því hvernig lagið kemur til með að leggjast í fólk. Hef eiginlega ekki lent í því áður. Ég skelf af spenningi.

Verði ykkur að góðu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Svartur köttur

Ske

Vek athygli á tenglinum hér til vinstri er kallast Svartur köttur. 

Um er að ræða leikrit sem LA frumsýnir laugardaginn 20. janúar. Hin óviðjafnanlega hljómsveit Ske sér um alla hljóðmynd við verkið og von er á titillaginu á öldur ljósvakans innan fárra daga. 

Það hefur enn ekki verið ákveðið en allar líkur er á að Ske slái tvær flugur í einu höggi og spili fyrir Eyfirðinga og nærsveitarmenn þessa sömu helgi.


Svo er alltaf hægt að slökkva

c_documents_and_settings_hoskuldur_my_documents_my_pictures_land_rover.jpg

Það hefur engin íslensk sjónvarpsstöð gengið jafn langt í sýningum á raunveruleikaþáttum og Skjár einn og svo virðist sem þessi tegund sjónvarpsefnis hafi að undanförnu tekið við af hallærislegum spjallþáttum og stefnumótaslysum. En nú sýnist mér sem sá brunnur sem Skjár einn hefur leitað í sé uppurinn.

Tveir síðustu þættirnir, Million Dollar Listing og Land Rover: Challenge .... eitthvað, eru ágætt dæmi um þessa stöðu. Hvor þátturinn fyrir sig er dulbúin auglýsing (eða ekki svo dulbúin, ég veit ekki hvort er verra) þar sem raunveruleikinn er notaður sem umbúðir utan um tilbúna vöru sem ætlað er að selja áhorfandanum. Í tilviki Million Dollar Listing er það fasteignir (eða fasteignasalar) og í Land Rover, ... ja það þarf varla að útskýra frekar hvað þar er til sölu.

Að vísu skal það tekið fram að ég efa að sala á lúxusíbúðum í Kaliforníu og Land Rover jeppum rjúki upp eftir nokkra þætti, en það er ekki málið. Spurningin er þessi: Hvað gengur Skjá einum til með að sýna þessa þætti á stöðinni? Heldur dagskrárstjóri stöðvarinnar að við, áhorfendur, sjáum ekki í gegnum sölubrelluna eða er honum einfaldlega alveg sama? Og hvort gerir hann vanhæfari?

Ég er mikill aðdáandi góðra raunveruleikaþátta og ég hrósa Skjá einum fyrir að sýna suma af þeim. En stundum leggst þessi stöð svo lágt að maður einfaldlega hristir höfuðið (og skrifar svona pistla).


Sleggjudómar

Ég er til allrar hamingju í vinnu þar sem ég get hlustað á tónlist að vild. Hingað upp á Mogga koma líklega 90% allra diska sem út eru gefnir á Íslandi og á mínu borði endar kannski um helmingur.

Eins og gefur að skilja er margt misgott, sumt algjör hörmung en annað sem kemur manni á óvart.

Hér að neðan eru nokkrir sleggjudómar eftir hlustun dagsins:

Þriðja leiðin - Elísabet Eyþórsdóttir, Börkur Hrafn Birgisson og Einar Már: Afskaplega máttlaus og tilgagnslítill diskur og textarnir opinbera e.t.v. bitleysi Einars Más sem ljóðskálds.

Stories - Siggi Pálma: Hvar á ég að byrja? Í umslaginu þakkar Siggi hljóðfæraleikurunum svona: Pálmi Gunnarsson, You made my hopes and dreams com alive, you are such a talented musician as well as a producer. Gulli Briem, thank you so much for giving my songs the steady touch you have. Agnar, They should make more keys on the piano for you. Still amazed how you do it," uhuhuh ... ég get ekki meir.

Rottweiler hundur - Bent: Afskaplega óþroskuð plata í flesta staði og gestarappararnir hafa fátt fram að færa. Ég bjóst við meiru frá Bent. Hann ætti kannski næst að eyða minni tíma á Sirkus, eins og fram kemur í textunum, og meiri tíma í hljóðverinu.

Frá heimsenda - Forgotten Lores:  Rappplata ársins. Ótrúlega vel unnin frá öllum hliðum séð og nú væri óskandi að sveitin næði sömu gæðum á sviði.

Þar sem malbikið svífur mun ég dansa - Jónas Sigurðsson: Líklega sú plata sem kemur manni mest á óvart á árinu, sérstaklega í ljósi þess að hér er um gamlan Sólstrandargæja að ræða. Veit hins vegar ekki hvernig þessi plata eldist en eftir eina hlustun gengur hún upp.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband