Hr. Thompson fer til Washington

Fred ThompsonFred Thompson er einn af þessum leikurum sem þú veist að þú hefur séð en ert samt ekki með kvikmyndina sjálfa á hreinu. Hann leikur alla vega alltaf vonda kalla, ... eða lögreglustjóra. Í það minnsta leikur hann alltaf sömu persónuna sem er fúllynd, föst fyrir en hefur svo yfirleitt rangt fyrir sér í lokin. En Fred Thompson er ekki bara leikari heldur er hann einnig fyrrum öldungadeildarþingmaður repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum og það sem margir pólitískir stuðningsmenn hans vonast til, næsti forseti Bandaríkjanna.

Thompson hefur viðurkennt að hann sé að hugsa um að sækjast eftir útnefningu flokksins en meira vill hann ekki gefa upp enda á enn eftir að koma í ljós hvort hann nýtur nægilegs fylgis á landsvísu og sjálfur fylgist hann væntanlega vandlega með framgangi og frammistöðu flokksfélaga síns og forsetaframbjóðandans, Johns McCaine sem flestir telja sigurstranglegasta kandídatinn. Ferill Thompsons er áhugaverður. Hann fæddist í Alabama árið 1942 og útskrifaðist með lögfræðipróf árið 1967. Starfaði sem aðstoðar-ríkissaksóknari á árunum 1969 – 1972 og stjórnaði kosningabaráttu Howards Baker til endursetu í öldungadeildinni árið 1972. Hann var lögfræðilegur ráðgjafi Bakers í rannsóknarnefnd öldungadeildarinnar í Watergatehneykslinu og er sagður eiga heiðurinn af eftirgrennslan þingmannsins á því "hvað það var sem forsetinn vissi og hvenær hann vissi það" en margir telja að út frá lögfræðilegu sjónarmiðið hafi þessar spurningar ráðið úrslitum um afsögn Richards Nixon.

Árið 1977 tekur Thompson að sér að sækja skaðabótamál fyrir hönd Marie Ragghianti, fyrrum skilorðsnefndarformanns í Tennessee-ríki, sem var bolað úr starfi eftir að hafa neitað að veita þeim föngum skilorð sem síðar komst upp að höfðu mútað aðstoðarmönnum þáverandi ríkisstjóra. Marie sem var á þessum tíma einstæð móðir, var hundelt af pólitískum andstæðingum sínum eftir að hún ljóstraði upp um málið en ríkisstjórinn neyddist að lokum til að segja af sér sem og nokkrir aðstoðarmanna hans sem einnig voru lögsóttir. Mál þetta vakti nokkra athygli í Bandaríkjunum og þegar Roger Donaldson leiksstjóri, hugðist gera kvikmynd um hneykslið tók hann ekki annað í mál en að Thompson léki sjálfan sig í myndinni. Marie var hins vegar leikin af Sissy Spacek og Morgan Freeman og Jeff Daniels voru í aukahlutverkum Með Marie: A True Story hófst kvikmyndaferill Thompsons og síðan hefur hann leikið í á þriðja tug kvikmynda auk þess sem hann hefur verið í aukahlutverki í vinsælum sjónvarpsþáttum á borð við Law & Order og fleirum.

Það er sagt um Ronald Reagan að leikhæfileikar hans hafi öðru fremur komið honum að gagni þegar hann vildi ná til bandarísku þjóðarinnar. En það var einnig sagt um kvikmyndaferil Ronalds Reagan að hann hefði alltaf leikið sjálfan sig og þar af leiðandi verið frekar dapur leikari. Þetta er nokkuð áhugavert ef litið er til leikferils Thompsons (og annars leikara sem nú stýrir áttunda stærsta hagkerfi heims, vestur í Kaliforníu) og segir okkur það að ef leikari hyggst sækjast eftir valdastöðu í bandarískum stjórnmálum, er það líklega skárra að vera lélegur leikari en góður.

Af listum 09.05 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hefði nú haldið að Rudy Giuliani sé lang sigurstranglegasti forsetakandídat Repúblikana, a.m.k. sýna skoðanakannanir það. Enda John McCaine að nálgast níræðisaldurinn.

Snorri Hallgrímsson (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 11:52

2 Smámynd: Gaukur Úlfarsson

Hann á nú líka myndir einsog Cape Fear og Die Hard á ferilskránni. Ekkert slor það..

Gaukur Úlfarsson, 9.5.2007 kl. 12:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband